Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:03:28 (773)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil fyrst upplýsa að gefnu tilefni að það er vitaskuld algjör tilviljun að löngu boðaður fundur í stjórn Fiskveiðasjóðs á þessum degi skuli hafa verið haldinn sama dag og þessi umræða fer fram. Ákvörðun um að halda þann fund var tekin löngu áður en ákveðið var að þessi mál væru til umfjöllunar hér í dag. Hér er því um hreina tilviljun að ræða.
    Að því er varðar aðrar athugasemdir hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins segja það að ég svara hér að sjálfsögðu fyrir þau málefni sem sjútvrn. fer með. Tekin var um það ákvörðun að þetta sérstaka viðfangsefni skyldi ekki leyst innan ramma fiskveiðilöggjafarinnar heldur af Byggðastofnun. Sjútvrn. fer, eins og hv. þm. vita, ekki með málefni Byggðastofnunar.