Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:38:45 (782)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fyrst út af þessu síðasta sem hv. 17. þm. Reykv. hafði orð um, að þessi frumvörp væru til þess fallin að kippa fótunum undan hagræðingarhlutverki Hagræðingarsjóðs. Erum við að tala um það? Átti að nota þessa peninga í hagræðingu sem samkvæmt þessum frumvörpum er núna verið að tala um að styrkja þær útgerðir með sem yrðu fyrir sem mestum áföllum? Ekki aldeilis. Það átti að nota þá peninga sem eiga að koma inn fyrir þessar veiðiheimildir til þess að reka Hafrannsóknastofnun og það ræddum við reyndar á Alþingi í fyrravetur. Það var því ekki aldeilis þannig sem málin sneru.
    Það var svolítið merkilegt að heyra hv. 17. þm. Reykv. lýsa því hvernig ástandið væri í greininni. Hann var greinilega á þeirri skoðun að þetta væri gjörsamlega allt í rúst alveg eins og málunum hefur reyndar verið lýst hér fyrr í kvöld. Samt komst hann að þeirri niðurstöðu að umfram allt yrðu menn að halda sig við fyrirætlanirnar um það að skattleggja greinina. Mig langar til þess að spyrja hann hvað hann vildi gera. Var það kannski hugmynd hans að senda tékkana til þeirra sem mest töpuðu? Er það það sem hann vildi gera eða hafði hann einhverjar aðrar hugmyndir uppi um það? Mig langar að spyrja hann að þessu.
    Hann gaf sér það að ég hefði í umræðu 11. maí verið að taka undir að menn færu ákveðna leið og kallaði hann þá leið gjaldþrotaleið. Það er rangt. Það sagði ég ekki í mínum orðum. Ég var einfaldlega að lýsa því að ég teldi að frjálsræðið í sjávarútveginum þyrfti að gilda og það hefur gilt fram að þessu í fiskvinnslunni. Ekki hafa verið kvótahugmyndir í gangi eða ekki verið gert ráð fyrir því að eitthvert sérstakt leyfi þyrfti til þess að reka fiskverkun og ég ætla satt að segja að vona að það kerfi komist aldrei á hér. ( Gripið fram í: Vertu ekki of viss um það.) Ég er að segja að ég ætla satt að segja að vona, að það kerfi komist ekki á hér. ( Forseti: Ræðutíma hv. þm. er lokið.) Það var það, virðulegi forseti, sem ég átti við með mínum orðum sem hv. 17. þm. Reykv. vitnaði til.