Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:43:21 (785)

     Flm. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vildi ég benda hv. 17. þm. Reykv. á að hagræðingarhlutverk Hagræðingarsjóðs var eyðilagt með breytingunum í fyrra. Það var gert ráð fyrir því að fjármagnið yrði eingöngu notað innan greinarinnar en það var horfið frá því. Þannig að hann ætti að kynna sér betur lögin eins

og þau voru.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. um það, þótt hann geti e.t.v. svarað því fyrir hönd hæstv. viðskrh., hvernig stendur á því að á sama tíma og Fiskveiðasjóður neitar að lána í frystitogara skuli viðskrn. heimila 80% erlenda lántöku í slík skip. Hvers vegna er ekki haldið við þá reglu eins og hún ætti að vera, sem því miður var ekki hægt að halda við hér áður fyrr heldur, að ekki sé lánað í skip sem Fiskveiðasjóður neitar að lána í?
    Að síðustu vildi ég spyrja hv. þm. hvaða augum hann líti nú á samþykkt sjútvn. þar sem var samþykkt að leita allra leiða til þess að jafna áfallið út. Hv. þm. afneitar þeirri leið sem við leggjum til. Ekkert hefur komið fram um það hvað hæstv. forsrh. ætlar að gera í málinu. Hann vísaði því til Byggðastofnunar. Byggðastofnun er löngu búin að svara honum og hann hefur ekki mátt vera að því að líta á málið og hæstv. sjútvrh. vísar málinu algörlega til hans. Því hljótum við að spyrja hvað vill þingflokksformaður Alþfl. gera í málinu og hvað ætlar hæstv. forsrh. að gera í málinu? Ætla þeir að láta sér það lynda að nú sé búið að loka öllum leiðum vegna þess að nú þegar er búið að samþykkja að bjóða þessar veiðiheimildir til kaups án þess að nokkuð sé vitað um hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera, enda virðist hún ekki hafa gefið sér tíma til þess?