Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:47:18 (787)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. sagði áðan að fjárfesting í sjávarútveginum væri allt of mikil og það væri of mikil fjárfesting í skipum, í vinnslustöðvum, en ég held að honum hafi sést yfir það að fyrir nokkru kom út skýrsla um fjárfestingu hins íslenska ríkis og þar var sjávarútvegurinn ekki sú atvinnugrein sem hafði mesta fjárfestingu. Því miður hef ég ekki þessa skýrslu hjá mér, en ég þykist muna það rétt að þetta er í þessari skýrslu.
    Ég vil í framhaldi af því spyrja hann: Hvernig stendur á því að hann og ríkisstjórn hans stendur að því að lán eru veitt til frystitogaravæðingar, sífellt fleiri og fleiri fara út í frystitogara, hvernig stendur á því að hann og ríkisstjórn hans skuli ekki gera eitthvað í því að stoppa þá frystitogaravæðingu? Það er ekki hægt að gera það bara með því að setja veiðigjald á frystitogara. Það er ekki fengið með því að eyðileggja þá afkomumöguleika sem frystitogararnir hafa heldur fyrst og fremst með því að bæta skilyrði vinnslunnar í landi. Það er það sem þarf að gera. En þó að einhver atvinnugrein standi sig og allir leiti í hana þá gerir ríkisstjórnin ekkert í því að bæta afkomumöguleika annarra greina innan sjávarútvegsins.