Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 23:39:25 (796)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Mér hafði orðið það á í umræðu um daginn að nefna barón von Münchhausen sem hefði m.a. orðið frægur fyrir það að draga sjálfan sig upp á hárinu. Ég mundi aldrei dylgja nokkuð slíkt um þann þingmann sem síðast talaði að hann mundi gera það.
    Aðeins vegna þess sem þingmaðurinn nefndi við mig . . .   ( SJS: Það væri að draga einhvern upp á hárinu.) Það væri sjálfsagt meiri handfesti í því, já. Það sem þingmaðuinn spurði um og bar að mér var um það hvernig stæði ákvörðun sem byggðist á tillögum Byggðastofnunar eða starfsmanna hennar og beðið var um í tengslum við ákvörðun um þorskveiðiheimildir en þær hugmyndir voru lagðar fyrir í ríkisstjórn. Þær voru ekki endanlega afgreiddar en ég tel að það sé ekki langt að bíða þess að þær tillögur verði afgreiddar.
    Hv. þm. sagði að þær tillögur væru frægar að endemum en hann . . .   ( Gripið fram í: Er það ekki of seint?) Nei, ég tel það alls ekki vera of seint. Það er meginverkefnið að bæta mönnum upp þann brest sem varð. Menn voru sammála um það og ég vænti þess að það verði afgreitt hið fyrsta.
    Hv. þm. sem síðast talaði nefndi að sjútvn. þingsins hefði sagt að skoða þyrfti allar leiðir, skoða þyrfti öll úrræði sem til álita kæmu við að bæta mönnum upp þann brest eða jafna þann brest sem varð vegna ákvörðunar um veiðiheimildir vegna þorsks. Ég segi fyrir mig að þetta kom til álita en þó að það hafi verið harðneskjulegt að bæta mönnum ekki neitt upp þann brest sem varð en láta þá skipan gilda sem gildir. Þannig að þeir sem urðu fyrir þessum bresti vegna stórrar hlutdeildar í þorski yrðu fyrir þeim bresti en mundu síðan njóta þess fyllilega þegar þorskafli mundi eflast og glæðast á ný. Hins vegar er enginn vafi á því að það var ríkur vilji til þess, eins og kom fram í orðum sem vitnað var til hjá sjútvrh., að menn mundu reyna að bæta þennan þorskbrest og ákvæðu ákveðið þak í þeim efnum. Byggðastofnun lagði til tilteknar hugmyndir í þeim efnum og miðaði þar við 5% hámarksskerðingu. Þessar tillögur liggja fyrir og ég á von á því að þær verði afgreiddar fljótlega í ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Þú verður að segja Þorsteini frá þessu. Hann veit ekkert um þetta.) Sjútvrh. veit fyllilega að þær tillögurnar hafa ekki verið afgreiddar í ríkisstjórn og hann veit að sjálfsögðu um að til stendur að afgreiða þær tillögur í ríkisstjórn.
    Varðandi hitt sem rætt var að hefði komið fram í þinginu fyrr í dag um málsmeðferð frá stjórn sjóðsins sem með málið fer, það sem hv. þm. nefndi um það í þeim efnum. þá hef ég út af fyrir sig ekki

fylgst sérstaklega með því en tek undir með hæstv. sjútvrh. að sú ákvörðun er öll formlega rétt og í samræmi við lög. Og mér þykir ekki út af fyrir sig þó að frv. komi fram og merk kunni að vera þá eigi þau að breyta þeim ferli sem þar er farið eftir. Þar tel ég að menn fari eftir réttu, löglega skipuðu ferli og tel að það sem sjútvrh. sagði í þeim efnum standist auðvitað fullkomlega og sé hárrétt.