Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 23:56:38 (809)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. séu hér einhvers staðar nálægir því að til þeirra beggja vil ég fyrst og fremst beina orðum mínum.
    Í þessari umræðu um frv. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins hefur að vísu verið fjallað um þá alvarlegu stöðu sem þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar stendur frammi fyrir. Að mínu mati er það þó sú ógnvekjandi mynd af stjórnarfarinu, ástandinu á stjórnarheimilinu, sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst, sem eru athyglisverðustu tíðindin.
    Í þessum umræðum hefur verið dregið fram hvernig hæstv. forsrh. hefur í heilt ár hunsað tillögur hæstv. sjútvrh. um bætta stöðu sjávarútvegsins og sagt að hugmyndir hæstv. sjútvrh. jöfnuðust á við mestu sjónhverfingar allra tíma, svo fáránlegar væru þessar tillögur hæstv. sjútvrh. Þrátt fyrir slíka einkunn hæstv. forsrh. kýs hæstv. sjútvrh. að sitja áfram í ríkisstjórn og taka þannig undir og styðja orð og gerðir hæstv. forsrh. sem í reynd hefur tekið að sér yfirstjórn sjútvrn. eftir lýsingu hæstv. sjútvrh. hér. Afsökun hæstv. sjútvrh. er sú að þeir, sem hann styður svo dyggilega til forustu í ríkisstjórninni, séu svo þjóðhættulegir menn að ef hann sitji þar ekki áfram, hvernig sem hann er niðurlægður af hæstv. forsrh., þá væri fyrst voðinn vís. Erfitt er reyndar að sjá hvernig stjórnarfarið getur orðið verra. Enn fremur segist hæstv. sjútvrh. ekkert vita hvernig mál sjávarútvegsins eru undirbúin af hæstv. forsrh. Hann frétti um niðurstöðuna í fjölmiðlum.
    Hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl., lýsti stjórnarheimilinu þannig að fangarnir hafi gert uppreisn. Þessi umræða hefur því ekki aðeins dregið fram þær hörmungar sem ríkisstjórnin er að leiða yfir íslenskan sjávarútveg heldur fyrst og fremst það algera stjórnleysi og þá óstjórn sem nú ríkir í landinu. Hæstv. forsrh. segir að samráðherrar sínir séu algerir loddarar. Hann hlustar ekki á tillögur þeirra og tekur málaflokka þeirra í sínar hendur svo þeir vita ekkert hvað muni þar gert fyrr en þeir sjá það í fjölmiðlum. Hvernig getur slíkt stjórnarfar haldið áfram sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst í kvöld og áður? Hvernig getur meiri hluti Alþingis sætt sig við að það haldi áfram? Hvernig getur þjóðin unað því að ástandið í ríkisstjórninni sé verra en Grímur Thomsen lýsti hjá Goðmundi á Glæsivöllum því að það er sannarlega ekki vegist þar á af góðsemi?
    Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvað ætlar hann að halda lengi áfram að svínbeygja sig fyrir svívirðingum hæstv. forsrh. og una því að völdin séu af honum tekin og horfa aðgerðarlaus á að atvinnuvegurinn, sem hann hefur tekið að sér að annast, hrynji víðs vegar um landið? Er hæstv. sjútvrh. virkilega svo heillum horfinn að hann fái ekki lengur neinn stuðning frá samflokksmönnum í eigin þingflokki til að gæta hagsmuna þessa undirstöðuatvinnuvegar? Er það vegna þeirrar stöðu sem hann er orðinn fangi í ráðherrastólnum, eins og hv. 17. þm. Reykv. gaf í skyn? ( Gripið fram í: Þveröfugt.) En það er sama hver svörin verða. Öllum sem fylgst hafa með umræðu er það ljóst að í landinu er ekki lengur samstarfshæf ríkisstjórn. Það er ekki lengur farið eftir þeirri verkaskiptingu sem kveðið er á um í stjórnarskrá, að hver ráðherra skuli bera ábyrgð á sínum eigin málum. Hæstv. forsrh. hefur svipt hæstv. sjútvrh. þeim völdum. Hvort sem ríkisstjórnin situr lengur eða skemur, þá verður það þjóðinni dýrt ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram að sitja til þess eins að halda áfram hjaðningarvígum sínum.