Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 00:04:01 (810)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Þeir mega illa við bindast hæstv. ráðherrarnir hér inni í salnum. Það er heldur hvimleitt að ekki skuli vera hægt að ljúka hér umræðu þótt hún standi ekki nema tiltölulega stuttan tíma án þess að þeir séu sífellt roknir út. Ég saknaði þess að hæstv. sjútvrh. svaraði ekki þeirri spurningu sem ég bar fram við hann sérstaklega og er einfaldlega þessi: Er hæstv. sjútvrh. tilbúinn til þess að beina þeim tilmælum til stjórnar Hagræðingarsjóðs að hún bíði átekta í nokkra sólarhringa þangað til skýrist annars vegar með vinnu Alþingis að þessu máli og hins vegar hvort einhver botn kemst í ávísanarúllettu ríkisstjórnarinnar eða Byggðastofnunarhugmyndirnar eða hvað menn vilja kalla það?
    Hæstv. forsrh. gaf hér sex mismunandi svör um það hvenær niðurstöðu yrði að vænta í því máli. Það var ýmist fljótlega, bráðlega, sem fyrst, hið allra fyrsta o.s.frv. eins og menn heyrðu áðan. Í þessa sanskrít geta menn svo sem reynt að ráða en við væntum þess að það verði þá einhvern tíma á næstu sólarhringum eða vikum og þessari einföldu spurningu hlýtur hæstv. sjútvrh. að geta svarað. Er hann tilbúinn til að beina þessum tilmælum til nefndarinnar? Sér hann einhverja meinbugi á því gagnvart lögunum að stjórn Hagræðingarsjóðs bíði átekta einhverja sólarhringa, þess vegna tímasett ef menn vilja hafa það svo? Ég vil gjarnan að hæstv. sjútvrh. svari þessu hér. Ef ekki þá verður sjútvn. á fundi í fyrramálið og ég tel upplagt að hæstv. sjútvrh. komi á fund nefndarinnar þar sem væri þá hægt að ræða þetta mál ítarlegar við hann. Ég leyfi mér héðan úr þessum stóli, herra forseti, að fara fram á það við formann sjútvn. eða starfandi formann, varaformanninn, 17. þm. Reykv., að hann undirbúi það að fundurinn í fyrramálið fari í það að ræða þetta mál og eftir atvikum fáum við þá hæstv. sjútvrh. í heimsókn og/eða aðra hæstv. ráðherra sem ástæða telst til svo sem hæstv. forsrh. sem fer að hluta til með þessi málefni eins og kunnugt er. Ég sé að hv. 17. þm. Reykv. og varaformaður sjútvn. heyrir orð mín og tekur vel í þau að mér sýnist og þar með er það fagnaðarefni að sjútvn. muni taka þetta fyrir í fyrramálið.
    Ég vil svo segja örfá orð við hæstv. sjútvrh. í þessari seinni ræðu minni undir umræðunni áður en hann kemur hér og svarar. Það er ágætt að hann hafi þau einnig í huga þegar hann kemur hér í ræðustólinn.
    Því hefur verið haldið fram í umræðunni að menn hafi borið nokkurt lof á hæstv. sjútvrh. og jafnvel látið að því liggja að hæstv. sjútvrh. hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá stjórnarandstöðunni. Út af fyrir sig er nokkuð til í því. Ég hygg að menn hafi bundið nokkrar vonir við hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. talaði þannig framan af vetri í fyrra eins og honum væri veruleg alvara með að að gera eitthvað í málefnum sjávarútvegsins. Og eins og ég veit að hæstv. sjútvrh. rekur minni til kom hann fram með hugmyndir og beinlínis tillögur um það að óhjákvæmilegt væri að grípa til ráðstafana og ekki bara ráðstafana, í eitt skipti notaði hæstv. sjútvrh. orðið ,,neyðarráðstafanir``, vegna ástandsins í sjávarútveginum. Þetta er til skjalfest frá því síðasta haust eða snemma vetrar fyrir tæpu ári síðan. Síðan er sagan þekkt. Hæstv. sjútvrh. hefur ekkert komist með sín mál. Það hefur ekkert gerst í hæstv. ríkisstjórn og því litla sem tókst að koma þar fram var gert með stuðningi stjórnarandstöðunnar og reyndar að hennar áeggjan í fyrravor og gekk út á það að tæma skyldusparnað sjávarútvegsins, nota hann upp á einu bretti til að halda greininni lifandi þessa síðustu mánuði meðan hæstv. ríkisstjórn reyndi að koma sér saman um eitthvað varanlegt og til frambúðar í þágu greinarinnar.
    Nú er þetta þannig að hæstv. sjútvrh. er að verða búinn að sitja í eitt og hálft ár og mestan þann tíma hafa legið fyrir hörmulegri afkomutölur fyrir allar helstu greinar íslensks sjávarútvegs en lengi og lengst af áður hafa þekkst. Á þessu nýbyrjaða fiskveiðiári og næsta almanaksári stefnir í mesta tap fyrir sjávarútveginn sem mig rekur minni til að nokkurn tíma hafi verið sýnt á blöðum, að mati samtaka fiskvinnslustöðva á milli 14 og15% halla að frádregnum hagnaði frystitogaranna. Nú verður ósköp einfaldlega að segja eins og er að nú fer að koma að þeim tímamótum að hæstv. sjútvrh. verður að gera það upp við sig hvað hann ætlar að gera því að hann mun ekki fá mikið klapp á bakið eða hrós ef hann situr í súpunni ásamt öðrum í hæstv. ríkisstjórn, aðhefst ekki neitt, lætur kúga sig, kemur í ræðustól á Alþingi aftur og aftur og lýsir því yfir að hann hafi bara því miður verið í minni hluta, eins og hæstv. sjútvrh. gerði hér í kvöld. Ég hafði viljann, sagði hæstv. sjútvrh. Mig skorti ekki viljann til að gera vel og vinna að málefnum sjávarútvegsins en ég varð því miður í minni hluta. Skynsamlegar tillögur mínar um að nota Hagræðingarsjóð nutu ekki stuðnings. Ég varð í minni hluta og væntanlega á þetta sama við um efnahagsaðgerðir eða tillögur til að rétta við rekstrarafkomu greinarinnar. Þar er hæstv. sjútvrh. væntanlega einnig í minni hluta og hefur engu komið fram nema því sem flokka mætti e.t.v. undir að lengja örlítið í snörunni með því að nota upp skyldusparnað greinarinnar og lengja lán í hinum sömu sjóðum og hæstv. ríkisstjórn byrjaði feril sinn á að úthúða.
    Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að átta sig á því að hann er að koma að þeim tímamótum í þessu ferli að nú er að duga eða drepast og hæstv. sjútvrh. getur ekki ætlast til þess að menn bindi öllu lengur vonir við fróm orð hans ef ekkert gerist. Og sá sjútvrh. sem situr í ríkisstjórn og horfir upp á sjávarútveginn hrynja, er nákvæmlega jafnábyrgur og aðrir í þeirri hæstv. ríkisstjórn þó svo hann hafi verið ofurliði borinn þar í einhverjum atkvæðagreiðslum. Málin eru ósköp einfaldlega þannig og auðvitað er það þannig að hæstv. sjútvrh. fer þó að nafninu til með þessi mál samkvæmt þeirri verkaskiptingu sem er við lýði samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og getur ekki þvegið hendur sínar eða fríað sig ábyrgð á því sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi.
    Ég vil láta þessi alvarlegu orð falla að hæstv. sjútvrh. viðstöddum vegna þess að mér segir svo hugur að við séum ekki nema rétt að byrja á þeirri umræðu sem hlýtur að standa, a.m.k. ef svo heldur sem horfir, um stöðuna í íslenskum sjávarútvegi og málefni hans á þessum nýbyrjaða þingvetri ef svo má að orði komast. Væntanlega gefast fleiri tækifæri til að ræða þau mál og einnig undir öðrum dagskrárliðum. E.t.v. verða þessi mál aftur á dagskrá eftir meðhöndlun í þingnefnd innan fárra sólarhringa ef svo vel vill til að það myndist samstaða á Alþingi um það að grípa til ráðstafana.
    En þeim spurningum, sem ég hef beint til hæstv. sjútvrh., fer ég í öllu falli fram á að hann svari varðandi tilmælin til stjórnar Hagræðingarsjóðs, hvort hann sjái á því einhverja meinbugi og hvort hæstv. sjútvrh. --- ég skýt því að til viðbótar --- teldi það til bóta að til hans kæmi ósk frá hv. sjútvn. um að senda slík tilmæli þannig að það lægi ljóst fyrir að frá þinginu væri einnig stuðningur við það að slíkur umþóttunartími yrði gefinn í einhverja sólarhringa áður en síðustu dyrunum yrði lokað á það að unnt væri að beita Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins í þessum augljósa og skynsamlega tilgangi við núverandi aðstæður.