Framhald þingfundar

21. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 00:48:18 (813)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að fá upplýsingar um það hvernig forseti hefur hugsað sér fundarhaldið í nótt eða hvort það er virkilega ætlunin að taka ný mál hér inn á dagskrá á þessum tíma sólarhringsins. Ég sé ekki í fljótu bragði hvaða nauður rekur okkur til þess að haga vinnulaginu þannig að menn séu að skipta um gír og taka önnur og alls óskyld mál inn á dagskrána og byrja á því þegar komið er langt fram á nótt. Í öðru lagi finnst mér að sá hæstv. ráðherra sem hér á hlut að máli, og átti reyndar einnig í síðasta dagskrármáli, hafi kannski ekki beinlínis verið að sýna þann vilja til að greiða fyrir framgangi mála, með því að svara alls ekki þeim spurningum sem margítrekaðar voru við hann í umræðum um síðasta dagskrármál, að það auki mönnum gleði til þess að fara að hjálpa honum við að troða fleiri frumvörpum gegnum þingið í nótt. Er slíkur voði á ferðum, herra forseti, að það sé virkilega þannig að það þurfi að mæla fyrir nýjum frumvörpum um miðja nótt? Hvað liggur svona á? Ég held að nær væri að láta nótt sem nemur og kalla þetta dagsverk sem orðið er og taka þessi mál þá fyrst fyrir á næsta fundi sem nú er ætlunin að fara að hefja umræður um. Ég vil eindregið mælast til þess við hæstv. forseta að hann íhugi hvort það sé ekki skemmtilegra verklag.