Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 14:20:03 (822)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar var vakin athygli á verkaskiptingu þings og ríkisstjórnar. Þingmaðurinn, sem að því stóð, taldi sig ekki vita betur en Alþingi færi með fjárveitingavaldið og forseti staðfesti að svo væri. Ég hygg að eftir að hafa skoðað þetta frv. megi menn spyrja: Hver fer með löggjafarvaldið hér? og megi enn spyrja: Er hér þingbundin ríkisstjórn eða er þingið þræll ríkisstjórnarinnar? Það sem endurspeglast í þessu frv. er hið síðastnefnda. Í 11 greinum frv. eru 13 heimildir til ráðherra til að gefa út reglugerðir og nánast allar heimildirnar eru orðaðar þannig ,,að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði.`` Eina greinin þar sem ekki er framselt vald til ráðherra er gildistökugreinin en það hefði ekki komið mjög á óvart eftir að hafa lesið allar hinar 10 greinarnar að þar hefði eitthvað slíkt staðið: Lög þessi taka gildi með reglugerð.
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mig undrar að ráðherra í ríkisstjórn skuli leyfa sér að koma inn á þing með frv. af þessu tagi.