Lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 14:39:45 (825)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. til laga um breyting á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu upplýsir kannski skýrt við hverju menn eiga að búast á næstu árum ef þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Hér er frv. lagt fram þar sem nánast er ekki gert ráð fyrir öðru en að ráðherra gefi út reglugerð og hæstv. samgrh. lýsti því þannig áðan að menn ættu ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að svigrúmið sem hann hefði sem ráðherra væri svo lítið að það væri ekki verið að framselja neitt vald til hans. En hvert er verið að framselja valdið úr því að það fer ekki til hans? Það er auðvitað verið að framselja það úr landi. Það er verið að framselja það til EB vegna þess að gert er ráð fyrir því í þessu frv. --- og orðalagið skulu menn skoða grannt, orðalagið segir okkur að ekki eigi bara að setja reglur Efnahagsbandalagsins sem nú eru í gildi í lög á Íslandi eða láta þær taka hér gildi heldur að það nægi að setja allar nýjar reglugerðir á flæðilínuna sem liggur í gegnum samgrn. Allar breytingar sem verði á reglugerðum EB munu þess vegna fara hljóðalaust í gegnum samgrn. og hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni áðan að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessu því að hann hefði svo lítið svigrúm, það væri ekki verið að framselja neitt vald til hans.
    Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ég standa í erfiðum sporum að eiga að heita að vera þingmaður hér og sú hugmynd skuli vera lögð fyrir mann að í framtíðinni eigi að skapa reglur og það eigi að skapa farveg í gegnum stjórnkerfið á Íslandi sem fer bókstaflega fram hjá þeim stjórnvöldum sem eiga að bera ábyrgð á stjórn landsins. Ég tel að það sé lágmarksvirðing við Alþingi að þessar reglugerðir, sem menn eiga að samþykkja og fylgja þessum samningi, verði samþykktar sérstaklega og að menn verði þá í framtíðinni að standa frammi fyrir nýjum reglugerðum og skrifa upp á þær. Það sé ekki bara flæðilína sem liggur í gegnum samgrn. sem dugi til þess að stimpla nýjar reglur sem koma frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Og mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. samgrh. hvort hann sé ekki tilbúinn til þess að það verði gerðar orðalagsbreytingar á frv. þannig að alveg sé skýrt að orðalag þeirra reglugerða, sem nú verði settar, verði ekki eins og það er núna, þ.e. sem vísar á það að ráðherra hafi í framtíðinni heimild til að skrifa upp á allar nýjar reglugerðir.
    Ég er ekki viss um að hv. alþm. hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað gerist með undirskrift þessa samnings. Mig langar t.d. að biðja hæstv. ráðherra að fara fáeinum orðum um það nánar hvað hann telur að felist í því að skip, sem hafa verið skoðuð í löndunum í kringum okkur, eigi umsvifalaust að fá skráningu hér. Hefur hann gert sér fulla grein fyrir því að reglur hér eru talsvert öðruvísi en í löndunum í kring? Það er ekki bara af því að við Íslendingar séum svo sérstakir með okkur. Það er vegna aðstæðna okkar. Aðstæður eru erfiðar hér á sjó og þær reglur, sem við höfum, bæði um smíði og öryggisbúnað í skipum, eru sprottnar af nauðsyn. Ætla menn að skrifa upp á það þegjandi og hljóðalaust að reglur, sem eru miðaðar við allt aðrar aðstæður í löndunum í kringum okkur, geti orðið að veruleika hér á Íslandi? Eru menn tilbúnir til þess? Ætla menn að horfa upp á það að hér verði sköpuð hætta á skipum vegna slysa og af ýmsum öryggisástæðum sem verða vegna þess að við verðum að láta af því að hafa okkar reglur strangari en þær eru á öðrum svæðum? Ég held að menn verði að hugsa sig um og ég býst við því að það verði ýmislegt fleira sem menn eigi eftir að átta sig á þegar þeir eru búnir að skoða það gaumgæfilega hvað við erum raunverulega að gangast undir með því að samræma reglur eins og þessar.
    Ég er ekki að halda því fram að um þetta sé að ræða á öllum sviðum þjóðfélagsins. En ef þetta er réttur skilningur t.d. gagnvart öryggisatriðum sem heyra til sjómennsku hér á Íslandi þá held ég að margir eigi eftir að stinga við fótum þegar það kemur í ljós að hægt verður að flytja inn skip sem eru miklu ódýrari vegna þess að ekki hafa verið gerðar sömu kröfur til þeirra og hér og það verði bókstaflega að breyta reglum um skráningu og eftirlit skipa til að veikja þær til að við getum fullnægt þessum reglum. Auðvitað þýðir ekkert fyrir okkur að gera kröfur um miklu dýrari búnað og meiri öryggisbúnað í okkar skipum eftir að búið er að opna fyrir það að önnur skip þurfi ekki að vera svona útbúin. Ég tel reyndar að það hefði verið lágmarksvirðing við þingið að reglugerðirnar, sem núna eiga að taka gildi, hefðu fylgt frv. Auðvitað verða þær lagðar fram í nefndinni sem fjallar um málið og skoðaðar þar og ég tel einsýnt að menn hljóti að ganga þannig frá þeim að þær séu tilbúnar þannig að nefndin geti skoðað hvað við er átt með þessum langhundi sem hér liggur fyrir sem felur það yfirleitt í sér að ráðherra sé heimilt að setja reglugerðir. Ég ætla þess vegna ekki að fjalla mikið um einstakar greinar frv. vegna þess að ég tel að veruleg vinna verði í nefndinni að fara í gegnum þær. Ég geri mér grein fyrir því að það getur maður ekki nema leggja meiri vinnu í að skoða frv. en ég hef gert nú. Mér finnst að það sé því miður þannig að þó að menn hafi vitað það snemma að þessi mál væru á leiðinni til okkar að það gæti orðið þröngt um þann tíma sem nefndir þingsins virðast hafa til að vinna að þessum málum vegna þess að það er mjög viðamikið. Þær reglugerðir, sem við eigum von á í sambandi við þessi mál, eru að því er ég hef heyrt mjög viðamiklar og það verður töluverð vinna fyrir nefndirnar að fara í gegnum þær. En ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra staðfesti það hér að ég skilji það rétt og það sé hans skoðun að ef þetta verður samþykkt, sem ég nefndi t.d. áðan um skipin, þá munum við verða að breyta okkar reglum. Ég held að margir í þjóðfélaginu hafi áhuga á því að fá skýr svör um það.