Umræða um lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:47:32 (836)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég skildi orð forseta við fyrirspurnum mínum svo að engin athugun hefði farið fram á þessum atriðum sem ég tilgreindi. Ég vil vegna orða hæstv. forseta geta þess að í stjórnrskránni segir fyrir um það hvernig megi leggja hömlur á atvinnufrelsi manna. Það þurfi lagaboð til. Það er alveg ljóst á því frv. sem hér er til umræðu að gert er ráð fyrir að heimildin til þessa verði veitt ráðherra, framkvæmdarvaldinu og verði framseld frá löggjafarvaldinu. Það ríður í bága við stjórnarskrána og ég tel því frv. ekki tækt til að vera hér á dagskrá til umræðu undir þeim formerkjum sem verið hefur.

    Ég vil láta þetta sjónarmið mitt koma fram, virðulegi forseti, en ítreka það að ég skil orð hans svo að forseti hver sem það er hverju sinni álíti það ekki sitt hlutverk að gæta þess að frv. fullnægi þeim reglum sem settar eru í þingsköpum og stjórnarskrá heldur einungis afgreiðslutæki fyrir ríkisstjórn.