Umræða um lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:53:36 (840)

     Forseti (Pálmi Jónsson) :
    Hv. 14. þm. Reykv. finnur að því að þetta mál skuli tekið á dagskrá. Hv. þm. er einn af þingmönnum í forsætisnefnd Alþingis og hefur eigi þar fundið að því að málið kæmi á dagskrá. Það var ljóst á fundi forsætisnefndar í dag að þetta mál yrði tekið til 1. umr. og hv. þm. gerði þar enga athugasemd.
    Mælendaskrá hafði verið lokað og tilkynnt um að 1. umr. um málið væri lokið. Þess hefur verið óskað að frá þeirri ákvörðun verði horfið og umræða opnuð að nýju. Forseti sér ekki ástæðu til að verða við þeim óskum og breyta úrskurði sínum. Málinu er ekki lokið hér á Alþingi þó að 1. umr. sé lokið og nægur tími er til að gera athugasemdir og ræða frv. þegar það kemur til 2. og 3. umr. Það er heldur engin ástæða til þess fyrir hv. þm. að finna að því að umræðu sé lokið þegar þeir hafa eigi kvatt sér hljóðs. Þeir gátu vel kvatt sér hljóðs undir umræðum fyrr á fundinum.