Umræða um lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 16:02:50 (850)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég verð að segja að það kom mér nokkuð á óvart hversu skyndilega umræðunni lauk. Ég hef fylgst með henni í dag og ég beið átekta með að setja mig á mælendaskrá vegna þess að ég hlustaði á allmargar spurningar sem fram voru bornar til hæstv. samgrh. Ég ætlaði að bíða eftir að hæstv. ráðherra svaraði þeim og meta það í framhaldi af þeim svörum hvort ég sæi ástæðu til að blanda mér í umræðuna. Þannig er það mjög gjarnan, hæstv. forseti, að það ræðst nokkuð af því undir lok slíkrar umræðu hvort skýr og fullnægjandi svör koma frá þeim sem með málin fara hvort þingmenn sættast á að umræðunni ljúki eða ganga eftir svörunum frekar. Þess vegna er það mjög mikilvægt að það sé jafnan tilkynnt, ef svo stendur á við slíkar aðstæður í umræðum, að fleiri hafi ekki kvatt sér hljóðs. Þar með er það aðvörun til þeirra sem í salnum eru eða þátt hafa tekið í umræðunni um að þess sé ekki að vænta að hæstv. ráðherra eða aðrir, sem spurningum hefur verið beint til, svari. Mönnum gefst þá tækifæri til að bregðast við með því að setja sig á mælendaskrá. Þess vegna gerðist það satt best að segja fullskyndilega, miðað við þessar aðstæður í málinu, að það var tilkynnt að umræðunni væri lokið.
    Það er kannski ekki stórslys í sjálfu sér. Eins og hæstv. forseti bendir á eru vissulega eftir aðrar umræður hér. Ég held þó að formsins vegna sé nauðsynlegt að þessir hlutir séu allir saman á sínum stað. Ég er þess vegna ekki alveg sammála þeim rökstuðningi, sem hæstv. forseti færir fyrir því að þetta hafi allt verið með eðlilegum hætti sem gerðist áðan, af þeirri ástæðu sérstaklega að þingmenn geta beðið átekta með það hvort þeir sjá ástæðu til þess að kveðja sér hljóðs þangað til ljóst verður hvort og þá hvers konar svör koma frá hæstv. ráðherra. Það gafst ekki tækifæri til að láta á það reyna í þessu tilviki þar sem umræðunni var slitið fyrirvaralaust án þess að menn vissu að mælendaskrá hafði verið tæmd.