Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 16:09:38 (857)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frv. er lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og felur í sér lögfestingu reglugerða Evrópubandalagsins um frjálsa flutninga launafólks til að leita sér atvinnu eða ráða sig í störf á Evrópsku efnahagssvæði.
    Lögfesting þeirra reglugerða sem frv. nær til eru reglugerðir Evrópubandalagsins nr. 1612 frá árinu 1968 um frjálsa fólksflutninga innan EB og nr. 312 frá árinu 1976 sem er breyting á 8. gr. reglugerðar nr. 1612/68 og er um rétt launafólks aðildarríkjanna til að gegna stjórnar- og stjórnunarstörfum fyrir þau stéttarfélög sem það á aðild að. Atvinnuréttur launafólks í öðrum aðildarríkjum EES byggir fyrst og fremst á 28. gr. EES-samningsins og er nánar útfærður með þessum reglugerðum.
    Búseturéttur launþegans og fjölskyldu hans í einhverju aðildarríki er síðan bein afleiðing þess að launþeginn fái vinnu í því ríki. Búseturétt er einnig hægt að öðlast með öðrum hætti, t.d. sem sjálfstætt starfandi, sem ellilífeyrisþegi eða sem námsmaður. En undir öllum kringumstæðum er krafa um að fólk geti framfleytt sér sjálft annaðhvort með vinnuframlagi sínu eða með tekjum frá heimalandi sínu, a.m.k. þangað til það hefur unnið til atvinnuleysisbótaréttinda eða annarra almannatryggingaréttinda í því landi sem það hefur starfað í. Í almennri greinargerð með frv. er vikið að tengslum frv. við önnur ákvæði samningsins og aðrar helstu reglugerðir og tilskipanir EB sem tengjast atvinnuréttinum en þær fjalla einkum um dvalar- eða búseturétt einstakra hópa og staðfesturétt sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Vinnumarkaðurinn hér á landi er afar fámennur ef við berum okkur saman við önnur Evrópuríki og ljóst er að við þolum ekki óheftan aðflutning fólks hingað til lands erlendis frá. Ekki síst þess vegna skiptir öllu fyrir okkur Íslendinga að við reynum að gera okkur sem best grein fyrir allri framkvæmdinni á þessum mikilvæga þætti Evrópska efnahagssvæðisins. Í því sambandi hljóta ýmsar spurningar að vakna. Er ástæða til að óttast að útlendingar leiti hingað í miklum mæli? Hvaða starfsgreinar munu útlendingar sækja í? Hvaða tryggingu gefur öryggisákvæði okkur? Hvenær getum við beitt því? Til hvaða gagnaðgerða gætu önnur lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins gripið ef við beittum öryggisákvæðinu? Er hugsanlegt að í framkvæmd verði ráðningarkjör útlendinga lakari en Íslendinga sem leitt gæti til að kjörum launafólks yrði haldið niðri? Til hvaða ráðstafana þurfum við að grípa með lagasetningu og öðru til að búa okkur sem best undir að vel takist til með alla framkvæmd á íslenskum vinnumarkaði þannig að hagur launafólks verði tryggður? Hvernig verður ýmsum félagslegum réttindum fólks háttað? Í hverju þurfum við að breyta löggjöf okkar í þessu efni? Þó ekki séu til einhlít svör við öllum þessum spurningum er engu að síður nauðsynlegt að þessi mál séu ítarlega brotin til mergjar og að við grípum til þeirra ráðstafana í tíma sem nauðsynlegar eru til að vernda sem best vinnumarkað okkar og tryggja sem best kjör íslensks launfólks.
    Ég hef lagt alla áherslu á að hafa sem best samráð við aðila vinnumarkaðarins um alla athugun og undirbúning þeirra EES-verkefna er lúta að vinnumarkaðsmálum á vegum ráðuneytisins. Margir telja að frjáls atvinnu- og búseturéttur Evrópubúa muni ekki hafa mikil áhrif hér á landi. Virðist það m.a. byggt á því mati að Norðurlandabúar hafi ekki í miklum mæli nýtt sér þessi réttindi hér á landi og aldrei reynt á öryggisákvæði sem við höfum haft vegna þeirra. Auk þess má ætla að flestir búsetu- og atvinnuflutningar eigi sér stað milli aðliggjandi landa. Ég tel varlegt að alhæfa út frá þessu. Nægir að nefna í því sambandi að 23 millj. búa annars staðar á Norðurlöndunum og um 540 þús. voru þar atvinnulausir árið 1990 á meðan 370 millj. búa í EES-ríkjunum og u.þ.b. 12,5 millj. voru þar atvinnulausir 1990. Á Norðurlöndum hefur verulegt atvinnuleysi fyrst og fremst verið í Danmörku undanfarinn áratug en er nú einnig orðið verulegt annars staðar á Norðurlöndum. Atvinnuleysi hefur reyndar farið vaxandi í allri Evrópu sl. tvö ár. Á árinu 1991 eru atvinnulausir á Norðurlöndum orðnir um 700 þús. og 13,5 millj. samtals í EES-ríkjunum. Á þessu ári er búist við að atvinnuleysi verði annars vegar um 900 þús. og hins vegar um 14,6 millj. á þessum svæðum. Þessi fjölgun atvinnulausra hefur einnig náð til Íslands. Þó er atvinnuleysi hér minna en í öðrum OECD-ríkjum að Sviss og Lúxemborg undanskildum. Gæta verður þess að verulegt atvinnuleysi og rýr afkoma er líklega mesti þröskuldur frjálsra atvinnu- og búferlaflutninga til viðkomandi lands og um leið mesti hvati slíkra flutninga frá landinu. Ekki er hægt að segja að verulega rýrir afkomumöguleikar séu nú í nokkru EES-ríkjanna. Þó er alveg ljóst að afkomumöguleikarnir eru misjafnir og einna bestir á Norðurlöndunum og í Sviss en lakastir í flestum ríkjum Suður-Evrópu og á Bretlandseyjum. Þessi mismunur er án efa einnig að miklu leyti stétt- og staðbundin í einstökum ríkjum. Þá stendur erlent vinnuafl almennt verr að vígi en innlent í samkeppni um störf, ekki síst þau betur launuðu. Það er því á engan hátt gefið að hægt sé að tryggja afkomu sína betur með brottflutningi til annarra EES-ríkja. Þó ég telji að hættan sé ekki mikil á að útlendingar flykkist hingað í stórum stíl tel ég þó að við eigum að vera við öllu búin og haga framkvæmd og undirbúningi okkar varðandi íslenska vinnumarkaðinn út frá því að tryggja okkur sem best gegn öllu óvæntu sem upp kann að koma.
    Skýrsla sem samin var að frumkvæði ASÍ og félmrn. er mikilvægt innlegg fyrir þá umræðu. Slík athugun á hugsanlegum áhrifum Evrópska efnahagssvæðisins er þýðingarmikil þegar við metum hvernig við búum okkur sem best undir frjálsan atvinnu- og búseturétt.
    Eins og ég gat um hafa félmrn. og Alþýðusamband Íslands átt samstarf um ítarlega könnun á störfum erlendra ríkisborgara hér á landi og hugsanlegum áhrifum frjáls búsetu- og atvinnuréttar hér á landi í kjölfar EES-samninga. Tilgangur var m.a. sá að reyna að skapa forsendu til að meta hvort ástæða væri til að ætla að hér fylltist allt af útlendingum ef ekki væri lengur krafist atvinnuleyfa fyrir tiltekinn hóp útlendinga. Í skýrslunni er dregin fram sú almenna ályktun að þegar á heildina er litið sé ástæðulaust að gera ráð fyrir að yfir landi hellist meiri háttar fólksflutningar. En í ljósi fámennisins hér á landi gæti lítið verið mikið í margra augum, sérstaklega ef ójöfn dreifing útlendinga yrði með þeim hætti að margir þeirra settust að í fámennum byggðarlögum. Þá er einnig ólíklegt að margir komi hér til varanlegrar eða langvarandi búsetu. Hins vegar er miklu líklegra að talsverð aukning verði meðal þeirra sem koma hingað til skammtímabúsetu á næstu árum og að útlendingum hér á landi fjölgi smátt og smátt á meðan atvinnustig hér á landi gefur tilefni til og þangað til jafnvægi næst milli aðfluttra og brottfluttra í umframstörf hér á landi. Þá er vert að hafa í huga að þeir sem hyggja á flutning milli landa hafa úr mörgu að velja og nærtækast er að fara yfir í aðliggjandi ríki þar sem fólk þekkir best til og einnig styst að snúa heim aftur.
    Í skýrslunni um könnunina kemur m.a. fram að hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúafjölda hér á landi hafi aukist frá 1,4% 1980 í 1,9% 1990 en 1. des. 1991 er þetta hlutfall orðið 2,1% af íbúafjölda. Samt sem áður er þetta hlutfall mun lægra en víðast hvar í Evrópu. Þessi aukning milli áranna 1990 og 1991 er um 12% en í skýrslunni var gert ráð fyrir a.m.k. 5% aukningu að meðaltali fram til aldamóta og að hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúafjölda gæti orðið um 3% um næstu aldamót miðað við atvinnustig ársins 1991. Aukningin nú á að miklu leyti rætur sínar að rekja til ástandsins í Austur-Evrópu en erlendum ríkisborgurum þaðan hefur fjölgað um tæp 80% en Norðurlandabúum fjölgað um 6%. Hins vegar fækkaði íbúum annarra EES-ríkja um 1%. Ef ríkisborgurum EES-ríkja fjölgar í kjölfar gildistöku EES-samningsins má búast við að dragi verulega út þörfinni fyrir veitingu atvinnuleyfa.
    Þá kemur fram í skýrslunni að 64% útlendinga eru í svokölluðum ófaglærðum störfum. Ein ástæða þess er væntanlega sú að útlendingar eiga almennt ekki rétt á að fá próf sín eða atvinnuréttindi viðurkennd. Þetta mundi gjörbreytast með Evrópsku efnahagssvæði. Eitt helsta viðfangsefni EB á þessu sviði hefur verið að vinna að því annars vegar að samræma menntunarkröfur, t.d. varðandi heilbrigðisstéttir, og hins vegar að tryggja að sambærileg menntun yrði viðurkennd milli landa. Gagnkvæm viðurkenning Norðurlanda á prófum er mjög takmörkuð. Að því er ég best veit hafa einungis verið undirritaðir samningar um viðurkenningu á prófum grunnskólakennara og starfsfólks heilsugæslu. Þrátt fyrir þetta er staðreynd að þeir Norðurlandabúar sem starfa hér á landi eru í mun minna mæli en aðrir í ófaglærðum störfum.
    Það má velta fyrir sér hvort Evrópskt efnahagssvæði mundi ýta öllum þeim útlendingum sem nú starfa hér á landi til hliðar og að eingöngu ríkisborgarar frá löndum í EES komi hingað til starfa. Þetta mundi t.d. þýða að Pólverjar, sem hefur fjölgað ört að undanförnu, hyrfu alveg á brott. Þá gæti hitt gerst að þeir íbúar frá EES-ríkjunum sem hingað kæmu færu í störf sem kræfust löggildingar eða réttinda og áfram yrði þörf fyrir fólk frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins til þeirra starfa sem kölluð eru ófaglærð. Um þetta er auðvitað ekki hægt að fullyrða fyrr en á reynir og ljóst að ekki fást einhlít svör við hver framkvæmdin í raun verður fyrr en eftir að samningurinn tekur gildi. En það er líka gagnlegt að hafa þann samanburð að 1. des. 1991 voru tæplega 5.400 erlendir ríkisborgarar hér á landi en Íslendingar búsettir erlendis voru rúmlega 16.700 og þar af voru tæp 11.000 á Norðurlöndum að meðtöldum námsmönnum. Við þeirri spurningu eru auðvitað ekki til einhlít svör nú hvort fleiri Íslendingar flytjist úr landi en útlendingar til landsins við opnun á Evrópsku efnahagssvæði. Það mun að öllum líkindum fyrst og fremst ráðast af afkomu- og atvinnustiginu hér á landi og þá sérstaklega samanburðinum við önnur EES-ríki. Ef slíkur samanburður yrði okkur óhagstæður má búast við nettó-straumi til viðkomandi ríkja en nettó-straumi frá viðkomandi ríkjum ef samanburðurinn er okkur hagstæður.
    Fjöldi annarra þátta hafa hér nokkur áhrif en þeir geta að ýmsu leyti vegið hvorn annan upp þannig að nettó-áhrifin yrðu lítil. Dæmi um þetta eru tungumálaerfiðleikar því ljóst er að fáir erlendir ríkisborgarar eru vel að sér í íslensku. Hins vegar geta fjölmargir Íslendingar vel bjargað sér á einhverju evrópsku tungumáli. Á móti vegur að Evrópubúar geta í miklu ríkari mæli bjargað sér á eigin tungumáli hér á landi en Íslendingar á sínu máli erlendis. Ekki verður ekki síður ástæða til að fylgjast vel með búferlaflutningum frá landinu en til landsins þó minna hafi farið fyrir þeirri hlið í umræðunni. Hvernig stöndumst við samanburð í launakjörum, atvinnuöryggi, félagslegum réttindum o.s.frv. með tilliti til þess að Íslendingar flytjast til EES-landanna í miklum mæli? Er kannski ástæða til að hafa meiri áhyggjur af því en að útlendingar flykkist hingað?
    Í könnun sem Þjóðhagsstofnun og vinnumálaskrifstofa félmrn. framkvæmdu í september 1991 kom í ljós að 450 störf voru laus í fiskiðnaði og 280 starfsmenn vantaði á sjúkrahúsin. Einmitt á þessum sviðum eru flest veitt til. Í september 1991 voru laus störf samtals 685 umfram þau störf sem atvinnurekendur vildu leggja niður. En strax í nóvember 1991 hefur þetta snúist við og störfin sem þeir vilja leggja niður orðin 330 fleiri en störfin sem þeir vilja ráða í. Í janúar á þessu ári hefur þeim fjölgað í 580 og í apríl eru þau 510. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa verið gefin út 1.055 atvinnuleyfi til útlendinga en þau voru 916 á sama tímabili í fyrra en voru alls 2.210 allt árið 1991. Árið 1990 voru hins vegar aðeins gefin út 724 atvinnuleyfi fyrstu sex mánuðina og 1.507 allt árið. Aukningin hefur verið mest í atvinnuleyfum til Pólverja sem starfa að langmestu leyti í fiskvinnslu. Þess ber þó að geta að á þessu ári hafa atvinnuleyfi verið veitt til skemmri tíma en áður og skýrir það að einhverju leyti aukninguna.
    Þar sem félmrn. leitar eftir umsögn stéttarfélaga í hvert sinn sem umsögn berst frá atvinnurekenda um að ráða útlending til starfa, og ekkert leyfi er gefið út án þess að hún liggi fyrir, hljóta ýmsar spurningar að vakna við þessar tölur. Erum við Íslendingar nánast að verða háðir erlendu vinnuafli? Í nokkrum sveitarfélögum á Vestfjörðum hefur hlutfall útlendinga af íbúafjölda staðanna verið á bilinu 8--13% af heildarfjölda og því enn hærra hlutfall af vinnandi fólki. Svo virðist sem sífellt erfiðara sé að fá ungt fólk til að starfa í fiskvinnslu. Hver er framtíðarsýnin í þessum efnum? Komum við til með að flytja aflann úr landi til vinnslu eða að fá útlendinga inn í landið til að vinna hann hérlendis? Ég tel að það þurfi að kanna rækilega hvort grundvallarbreyting sé að verða á afstöðu fólks til að stunda vinnu í undirstöðuatvinnugreinum þjóðfélagsins og hvaða þjóðhagsleg áhrif slíkur flótti úr hinum ýmsu atvinnugreinum mun hafa.
    Í maí sl. staðfesti ég eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar vinnumálaskrifstofu félmrn. um stefnumörkun varðandi atvinnuleyfi útlendinga. Vil ég vitna til hennar, með leyfi forseta:
    ,,Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi á vinnumarkaði hér á landi, þ.e. umtalsvert atvinnuleysi er til staðar þegar á heildina er litið, telur ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu rétt að fyllsta aðhalds sé gætt hvað snertir veitingu nýrra atvinnuleyfa vegna útlendinga til almennra starfa sem ekki krefjast sérþekkingar. Nefndin telur nauðsynlegt að vinnumiðlun, atvinnurekendur og stéttarfélög leiti allra tiltækra ráða til að manna laus störf með innlendum starfskröftum áður en sótt er um heimild til að ráða útlendinga við almenn störf. Þegar nauðsyn ber til þess að framlengja þegar útgefin atvinnuleyfi telur nefndin æskilegt að takmarka gildistíma við t.d. sex mánuði í senn svo ráðrúm gefist til þess að taka stefnuna til endurskoðunar ef ástæða þykir til.``
    Samkvæmt EES-samningi munu ríkisborgarar í EES-ríkjum eiga rétt óháð lögheimili til að taka við launuðu starfi og inna það af hendi í samræmi við þær reglur sem gilda um ráðningu innlendra manna. Öll ákvæði í kjarasamningum og einstaklingsbundnum samningum hvað varðar aðgang að vinnu, launum, launakjörum, uppsagnir eru ógild ef þau mæla fyrir um mismunun launþega aðildarríkis EES, þ.e. útlendingsins gagnvart innlendum þegnum. Öll mismunun sem byggð er á þjóðerni er bönnuð nema starfið krefjist kunnáttu á innlendu tungumáli. Útlendingar sem sækja um vinnu hérlendis og væru jafnvel taldir hæfari en Íslendingar til starfans að öðru leyfi yrðu að una því að fá ekki starfið ef íslenskukunnátta væri forsenda fyrir því að gegna starfinu. EES-samningurinn þýðir að útlendingur getur komið hingað til lands og dvalið í allt að þrjá mánuði til að leita að vinnu. Fái hann starf á hann rétt á dvalarleyfi. Ef útlendingurinn fær ekki starf verður hann að fara úr landi. Á þeim tíma á hann aðeins rétt á aðstoð vinnumiðlunar en t.d. ekki félagslegri aðstoð. Hann á almennt rétt á viðurkenningu prófa sinna. Dvalarleyfi til fimm ára þarf ekki að veita nema ljóst sé að ráðningartími er lengri en 12 mánuðir. Þetta er mikil breyting frá því fyrirkomulagi sem nú tíðkast um atvinnu útlendinga hér á landi en félmrn. gefur aldrei út atvinnuleyfi án þess að leitað hafi verið umsagnar stéttarfélaga um það hvort ekki sé hægt að útvega fólk til slíkra starfa hér innan lands. Íbúar af Evrópsku efnahagssvæði eiga hins vegar að standa jafnfætis Íslendingum hvað atvinnumöguleika varðar hér á landi.

    Það er líklega of sterkt til orða tekið að tala um að útlendingar geti staðið jafnfætis Íslendingum hvað atvinnutækifæri varðar þar sem útlendinginn skortir kunnáttu í íslensku og staðarþekkingu sem almennt þarf til að rækja störf hérlendis. Lagalega séð munu þeir hins vegar standa jafnfætis ef ekki er um starf hjá hinu opinbera sem nýtur sérstakrar verndar eða viðkomandi starf krefst sérstaklega íslenskukunnáttu. EES-borgarar öðlast ekki búseturétt á Íslandi nema þeir fái atvinnu hér á landi eða geti tryggt framfærslu sína með tekjum erlendis frá. Framboð atvinnutækifæra munu því fyrst og fremst takmarka hugsanlegan aðflutning ríkisborgara annarra EES-ríkja hingað til lands því að ekki er búist við að margir setjist hér að af öðrum ástæðum en þeim sem tengjast atvinnustarfsemi útlendinga hér á landi. En aðrir sem einkum gætu sest hér að í lengri eða skemmri tíma eru þeir sem ætla að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri, námsmenn og þeir sem hafa tekjur erlendis frá eins og ellilífeyrisþegar. En eins og kunnugt er hafa ellilífeyrisþegar t.d. frá Danmörku í nokkrum mæli sest að í löndum við Miðjarðarhaf.
    Til að tryggja frjálsa för launþega eru reglur um að fjölskyldur launþegans eigi rétt á að flytjast með honum. Til fjölskyldu launþegans teljast skv. 1. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68 maki launþegans og börn sem eru yngri 21 árs eða eru á framfæri þeirra og foreldrar launþega og maka hans sem eru á framfæri þeirra. Þá eiga aðildarríkin að auðvelda öðrum aðstandendum launþegans að koma til landsins ef þeir eru á framfæri launþegans eða hafa búið undir sama þaki í landinu sem hann kom frá. Þó launþeginn þurfi að vera ríkisborgari í EES-ríki ef hann ætlar að starfa og búa í öðru aðildarríki þá þarf fjölskylda hans ekki að vera það til að búa með honum. Fjölskyldumeðlimir, sem ekki eru ríkisborgarar EES-ríkis, þurfa yfirleitt atvinnuleyfi ef þeir ætla að hefja vinnu í öðru aðildarríki og einnig er hægt að krefja þá um vegabréfsáritun. Þó veitir 11. gr. maka og börnum launþegans sem eru yngri en 21 árs eða eru á framfæri hans rýmri rétt til að ráða sig í hvaða vinnu sem er, hvar sem er í viðkomandi aðildarríki jafnvel þó þau séu ekki ríkisborgarar neins aðildarríkis. En eins og áður sagði þurfa þau sérstakt atvinnuleyfi sem þau eiga sjálfkrafa rétt á. Þau þurfa þannig ekki að uppfylla sérstök skilyrði í lögum nr. 26/1982, um atvinnurétt útlendinga, eins og að fá samþykki viðkomandi verkalýðsfélags. Í 12. gr. er kveðið á um rétt barna launþegans til skólagöngu, námsvistar og starfsþjálfunar. Öll þessi ákvæði eru nauðsynleg til að auðvelda launþegum að nýta þá möguleika sem frjáls atvinnu- og búseturéttur veitir.
    Í 3. tölul. 28. gr. EES-samningsins kemur nánar fram hvað frjáls för launþega felur í sér. Þar er m.a. kveðið á um að hægt sé að takmarka það frjálsræði þegar það er rökstutt með tilliti til allsherjarreglu almannaöryggis og allmannaheilbrigðis. Þetta er nánar útfært í tilskipun ráðsins. Í tilskipuninni kemur fram við hvaða aðstæður sé hægt að byggja takmörkun á útgáfu og endurnýjun dvalarleyfis eða brottvísun úr landi.
    Með 9. gr. reglugerðar nr. 1612/68 er launþegum frá öðrum EES-ríkjum tryggður jafn réttur hvað varðar aðgang að íbúðarhúsnæði. Þó er sú krafa gerð til launþegans í 3. tölul. 10. gr. að hann hafi yfir að ráða húsnæði fyrir fjölskyldu sína sem talið er hæfa innlendum launþegum á því svæði sem hann hefur ráðið sig til vinnu, þó með þeim fyrirvara að það leiði ekki til að þessum launþegum sé mismunað á kostnað innlendra launþega. Þegar rætt er um hindranir sem standa í vegi fyrir því að útlendingar komi hingað til starfa, eða e.t.v. fremur að þeir setjist hér að, má ekki gleyma húsnæðismálunum. Sú staðreynd að flestir eiga sjálfir það húsnæði sem þeir búa í skapar okkur sérstöðu í Evrópu. Jafnframt er oft erfitt að fá leiguhúsnæði. Slíkt mundi ekki flokkast sem hindrun af Íslands hálfu gagnvart útlendingum þar sem hún kemur jafnt niður á útlendingum sem Íslendingum. Skortur á leiguhúsnæði getur fælt útlendinga frá því að koma hingað. Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er ekkert í vegi fyrir því að útlendingar geti fengið húsnæðislán.
    Í samningi um Evrópskt efnahagssvæði felst að ekki má mismuna útlendingum varðandi íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir sjálfstæða atvinnustarfsemi löggiltra starfsstétta. Hinn þröngi leigumarkaður sem ekki virðist breytast mikið mundi einn sér skapa erfiðleika. Þar sem stór hluti útlendinga hefur farið út á land til fiskvinnslu án þess að hafa fjölskyldu með sér hafa verbúðir dugað. Það leysir hins vegar ekki húsnæðisvanda útlendinga t.d. á höfuðborgarsvæðinu.
    En hvað ef svo færi að útlendingar flykktust hingað til lands í atvinnuleit og íslenskir atvinnurekendur réðu þá umfram Íslendinga til starfa og upp kæmi sú staða að verulegt atvinnuleysi yrði meðal Íslendinga en þúsundir útlendinga af Evrópsku efnahagssvæði yrðu hér samtímis við störf? Hvað er þá unnt að gera?
    Í samningaviðræðunum neitaði Evrópubandalagið að fallast á það að um varanlegar undanþágur gæti verið að ræða frá einhverju fjórfrelsanna. Í upphafi samningaviðræðna var lögð áhersla á það af hálfu Íslands að okkar fámenna þjóðfélag með fremur einhæft atvinnulíf þyldi ekki takmarkalausan aðflutning fólks í atvinnuskyni. Sú krafa var sett fram að við hefðum sams konar öryggisákvæði og er í bókun um samninginn um norræna vinnumarkaðinn. Það heimilar okkur að grípa til atvinnuleyfa gagnvart Norðurlandabúum ef veruleg röskun verður á vinnumarkaðinum á einstökum svæðum eða í ákveðnum greinum. Þessu ákvæði hefur aldrei verið beitt frá því að samningurinn gekk gildi 1983. Hin EFTA-ríkin voru með kröfur um fyrirvara eða öryggisákvæði á fjölmörgum sviðum. Niðurstaðan í samningaviðræðunum var sú að

þessum áhyggjum EFTA-ríkjanna yrði mætt með almennu öryggisákvæði. Það felur í sér að verði alvarleg efnahagsleg, þjóðfélagsleg eða umhverfisleg röskun eða hún sé fyrirsjáanleg, hvort heldur er í ákveðnum greinum eða umdæmum og telja megi að hún verði viðvarandi geta samningsaðilar einhliða gripið til viðeigandi ráðstafana. Með þessu ákvæði er Íslandi jafnt sem öðrum ríkjum heimilað að gera sínar ráðstafanir ef því þykir röskun vera yfirvofandi, t.d. á vinnumarkaði sem varað gæti um hríð. Það er okkar t.d. að skilgreina hvað sé þjóðfélagsleg röskun en það þarf t.d. ekki að fara saman við efnahagslega röskun heldur byggja meira á pólitísku mati á því hvað þjóðin eða þjóðfélagið getur borið. Gert er ráð fyrir að þær aðgerðir sem gripið er til séu í samræmi við þá röskun sem er orðin eða er fyrirsjáanleg, þ.e. aðgerðirnar verði ekki meiri en þarf til að ástandið komist í jafnvægi á nýja leik. Almennt er gert ráð fyrir því að þörfin fyrir öryggisákvæði komi ekki upp skyndilega heldur geti aðili sem ætlar að beita því tilkynnt hinum samningsaðilanum um þá fyrirætlan sína, innan sameiginlegu EES-nefndarinnar fari fram samráð og ekki verði gripið til aðgerða fyrr en einum mánuði eftir að þær hafa verið tilkynntar. Ef hins vegar það ástand kemur upp sem krefst tafarlausra aðgerða þannig að samráð og tilkynning geti ekki átt sér stað megi grípa strax til tiltækra ráða. Á meðan þær ráðstafanir eru í gildi sem gripið er til skal á þriggja mánaða fresti gera grein fyrir því hvort ástandið hafi breyst þannig að unnt sé að aflétta aðgerðunum. Evrópubandalagið var einungis tilbúið til að fallast á almennt öryggisákvæði í samningnum sem gæfi jafnframt öðrum aðildarríkjum möguleika á að grípa til gagnaðgerða ef öryggisákvæðunum yrði beitt af einhverju aðildarríki. Í samningnum eru því ákvæði sem segja að ef beiting öryggisákvæðis hafi í för með sér ójafnvægi milli réttinda og skyldna megi samningsríki grípa til hlutfallslegra gagnráðstafana til að jafnvægi náist á nýjan leik.
    Ef við Íslendingar gripum til þess að taka upp atvinnuleyfi, t.d. í fiskvinnslu, þar sem okkur þætti erlent vinnuafl vera farið að taka störf frá Íslendingum gætu viðbrögð aðildarríkja EES t.d. verið með tvennum hætti. Ef við tilkynntum þessa ákvörðun fyrir fram og gerðum grein fyrir því hvernig ástandið væri gæti verið að hin ríkin teldu það fullkomlega eðlilega ráðstöfun og sæju enga ástæðu til að takmarka t.d. atvinnu Íslendinga í sínum ríkjum. Ef við værum hins vegar að grípa til öryggisákvæðis án þess að vera með trúverðugar ástæður gæti hugsast að eitt eða fleiri af samningsríkjunum teldu rétt að takmarka frelsi okkar inn á yfirráðasvæði sitt. Þar sem hér er um algert nýmæli að ræða er fyrir fram mjög erfitt að meta það hvort aðildarríki EB muni þegar og ef á reynir grípa til þessara gagnráðstafana eða hvort hér sé um að ræða ákvæði sem ætlað sé til að draga úr beitingu öryggisákvæðisins af hálfu EFTA-ríkjanna.
    Af hálfu Íslands hefur á meðan samningaviðræður fóru fram margoft verið ítrekað að krafa um öryggisákvæði væri einkanlega sett fram vegna hins viðkvæma vinnumarkaðar. Þegar ljóst var að öryggisákvæðið yrði almennt var ákveðið að Ísland mundi gefa út yfirlýsingu í tengslum við samninginn þar sem bent væri á að öryggisákvæðinu yrði einkum beitt ef röskun yrði á vinnumarkaðinum í heild á einstökum svæðum eða einstökum greinum eða röskun yrði vegna fasteignakaupa útlendinga. Þeirri yfirlýsingu hefur ekki verið andmælt og engar athugasemdir gerðar við hana. Það er íslenskra stjórnvalda að ákveða það hvort aðstæður kalli á beitingu þessa öryggisnets.
    Ég vík þá næst að ráðningarkjörum útlendinga. Í 2. tölul. 28. gr. EES-samningsins er kveðið á um að afnema verði alla mismunun sem byggð er á ríkisborgararétti viðkomandi lands og lýtur að ráðningum, launum og öðrum stafskjörum og í c-lið 3. tölul. er kveðið á um að dvöl í atvinnuskyni skuli vera í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um starfskjör borgara þess ríkis. Atvinnurétturinn og jafnræðisreglurnar eru nánar útfærðar í reglugerð um flutning launþega, nr. 1612/68, sem lögfesta á með frv. Hér koma fram þær skyldur og þau réttindi sem gilda fyrir launþega frá öðrum EES-ríkjum. Í 7. gr. reglugerðarinnar eru mjög afdráttarlaus ákvæði um að ekki megi mimuna launþegum sem eru ríkisborgarar einhvers aðildarríkjanna. Þetta felur í sér sama rétt og skyldur og innlendir launþegar hafa viðvíkjandi öllum ráðningum og vinnuskilyrðum, þar með talin launakjör, uppsögn úr starfi komi til atvinnumissis, endurskipun og endurráðning vegna 1. tölul. þessarar greinar, félagsleg réttindi og skattaívilnanir samkvæmt 2. tölul., þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífi og endurmenntunarstöðvar samvæmt 3. tölul. Í 4. tölul. þessarar greinar er almennt ákvæði um að ógilda skuli og að engu hafa öll ákvæði bæði í kjarasamningum og ráðningarsamningum sem og öðrum almennum reglum er varða aðgang að atvinnu, ráðningu, launakjör og önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði ef þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launþega sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja. EB-dómstóllinn hefur skýrt tekið fram að EB-lög koma ekki í veg fyrir að aðildarríki beiti landslögum eða kjarasamningum um lágmarkskjör gagnvart sérhverjum launþega, sem jafnvel er ráðinn tímabundið í viðkomandi aðildarríki, án tillits til þess í hvaða landi aðalaðsetur atvinnurekenda er. Lögin um starfskjör launþega frá 1980 kveða fortakslaust á um að laun og önnur starfskjör sem aðildasamtök atvinnurekenda og launafólk semja um skuli vera lágmarksjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem samningurinn tekur til. Lög þessi gilda að sjálfsögðu óháð þjóðerni launamannsins. Til að taka af allan vafa er þessi skilningur laganna staðfestur með öðru frv. sem er frv. til laga um breytingu á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði, samanber 5. gr.

    Núgildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga gera ráð fyrir ströngu eftirliti með ráðningu útlendinga, m.a. launakjörum þeirra. Leggja ber fyrir ráðuneytið ráðningarsamning. Þar þarf að koma fram eftir hvaða kjarasamningi er farið. Þessi löggjöf gildir að sjálfsögðu áfram um alla þá sem þurfa atvinnuleyfi. En með hinum frjálsa atvinnu- og búseturétti á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem atvinnuleyfi er afnumið fyrir ríkisborgara svæðisins, þarf ekki að leggja slík gögn fyrir stjórnvöld. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að öll mismunun varðandi launakjör og ráðningar miðað við innlenda borgara er óheimil. Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af því að erfitt verði í framkvæmd að tryggja að útlendingar búi ekki við lakari kjör en Íslendingar í sams konar störfum. Útlendingar sem störfuðu á lægri launum, sem væru samt sem áður miklu hærri en í heimalandi þeirra, færu varla að kvarta. Það er því ljóst að tryggja verður eftirlit með því að útlendingar ráði sig ekki á lakari kjörum en Íslendingar og taka þar með í reynd störf frá Íslendingum sem fylgdu umsömdum töxtum eða samningum.
    Það eftirlitskerfi sem almennt er fyrir hendi hvað launagreiðslu varðar er í raun tvíþætt. Með tilkomu staðgreiðslu skatta getur hið opinbera fylgst með því hvernig launagreiðslum er háttað í fyrirtækjunum. Með því að fylgjast með greiðslum í lífeyrissjóði eiga aðilar vinnumarkaðarins að geta fylgst glöggt með launaþróun í fyrirtækjum. Ég held því að það sé vel mögulegt að fylgjast með því að launagreiðslur til útlendinga sem hér koma til starfa á grundvelli EES-samningsins séu í samræmi við þau launakjör er almennt tíðkast hér á vinnumarkaði. Ég tel að það sé farsælast að búa svo um hnútana í innlendri löggjöf að ekki verði unnt að sniðganga íslenska kjarasamninga. Þó að lögin um starfskjör launafólks kveði fortakslaust á um það að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins skuli vera lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein, þá vitum við að það getur verið nokkur munur á lægstu töxtum og því hvað verkafólk getur fengið með bónus eða öðru álagi. Það gerir allt eftirlit erfiðara þar sem ekki er skylda að greiða álagsgreiðslur eða ýmsar aukagreiðslur sem tíðkast oft á vinnumarkaði. Við hvað á þá að miða? Við hvað er átt þegar talað er um kjör eins og þau tíðkast almennt? Væntanlega er þá verið að tala um launataxta ásamt þeim álagsgreiðslum sem tíðkast hjá flestöllum. Þetta atriði hefur ráðuneytið reynt að leysa í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Það getur hvorki verið hagur Alþýðusambandsins né Vinnuveitendasambandsins að unnt sé að fá útlendinga til landsins, hvort heldur er um lengri eða skemmri tíma, og taka stór verkefni eða atvinnutækifæri frá Íslendingum með því að koma sér hjá þeim atriðum sem aðilar hafa samið um í kjarasamningum eða greiða ekki þau laun sem almennt tíðkast. Þess vegna var skipuð formleg sjö manna nefnd til að yfirfara og undirbúa nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum og reglugerðum um vinnumarkaðsmál og áttu aðildar vinnumarkaðarins fjóra fulltrúa í nefndinni en ráðuneytið þrjá. Frv. sem hér er lagt fram er unnið af þessari nefnd.
    1. gr. frv. felur í sér lögfestingu á áðurnefndum reglugerðum EB og er um tilsvarandi lagasetningu og tíðkast annars staðar við lögfestingu EB-reglugerða, m.a. í Noregi og Svíþjóð. Ástæðan fyrir því að ætlunin er að lögfesta reglugerð 1612/68 og breytingar í reglugerð 312/76 með þeim hætti sem fram kemur í frv. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launþega er sú að efni reglugerðar þarf að komast í lög EFTA-ríkjanna. Þessar tvær reglugerðir eiga ekki að öðlast gildi óbreyttar heldur eins og þær eru aðlagaðar í viðauka EES-samningsins. 1. gr. frv. er því sú að reglugerðirnar tvær, eins og þær eru aðlagaðar á samningsferlinu, öðlist gildi. Þegar 1. gr. frv. hefur verið lögfest mun félmrn. gefa út sérprentun laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt með reglugerð 1612/68 og 312/76 eins og þær eru aðlagaðar í EES-samningnum. Eins og fram kom hjá mér áðan þá er þessi sami háttur hafður á við lögfestingu í Noregi og Svíþjóð.
    Í 2. gr. eru hins vegar ákvæði um að setja á laggirnar þriggja manna nefnd sem á að hafa virkt eftirlit með framkvæmd laganna. Hugmyndin er sú að nefndin fái víðtækt umboð til að fjalla um öll þau svið er tengjast framkvæmd ákvæða um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks og þá ekki síst þau kjör sem útlendingum verða búin hér á landi. Nefndin getur bæði átt frumkvæði að því að taka á málum og einnig er hægt að vísa ágreiningi eða úrskurðarefnum til nefndarinnar. Því er þannig haldið opnu að hver og einn geti leitað með slík álitamál til nefndarinnar þó eðlilegast sé að samtök launþega og atvinnurekenda reyni að grisja þann skóg áður en kemur til kasta nefndarinnar, sérstaklega ef málatilbúnaður er byggður á misskilningi. Horfið var frá því að setja margar bindandi reglur um störf nefndarinnar þar sem ekki er fyrirsjáanlegt hvernig störfum nefndarinnar verður best háttað. Því var talið eðlilegt að störf nefndarinnar mótuðust sem mest af reynslu nefndarmanna í störfum sínum. Hins vegar er því haldið opnu að ráðherra getur sett reglugerð um framkvæmdaatriði ef reynslan leiðir í ljós að þörf sé á einhverjum slíkum ákvæðum. Á þessu stigi er hins vegar ekkert slíkt í bígerð.
    Skv. 3. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir að fulltrúi hlutaðeigandi heildarsamtaka opinberra starfsmanna og fultrúi tilsvarandi ríkisvalds komi inn í nefndina þegar sérstaklega er fjallað um mál opinberra starfsmanna er falli undir atvinnu- og búseturéttindi. Þessi háttur er hafður á vegna þess að í mörgum tilvikum er erfitt að draga skýrar línur milli starfsgreina sem heyra undir ASÍ og BSRB enda þótt starfið sé hjá hinu opinbera. Þá er einnig talinn ókostur að nefndin yrði stærri en lagt er til í frv. Það er bæði vegna þess að öll meðferð mála og ákvarðanataka þarf að vera virk og lipur og eins er erfitt að draga mörkin hvaða samtök annars ættu að eiga fulltrúa í slíkum nefndum. Ljóst er að langlíklegast er að hugsanleg viðfangsefni nefndarinnar snerti fyrst og fremst hinn almenna vinnumarkað og því eðlilegast að langstærstu hagsmunasamtök vinnumarkaðarins hvert á sínu sviði eigi fulltrúa í nefndinni.
    8. gr. reglugerðar 1612/78 tryggir að launþegar frá öðrum EES-ríkjum skuli njóta sömu réttinda og innlendir launþegar hvað varðar aðild að stéttarfélögum og njóta þeirra réttinda er aðildin veitir. Reglugerð ráðsins nr. 312/76 eykur þessi réttindi með því að fastsetja að launþegar frá EES-ríkjum geti valist til trúnaðarstarfa fyrir sitt stéttarfélag. Eins áður sagði breytti reglugerð ráðsins nr. 312/76 8. gr. reglugerðar nr. 1612/68. Ákvæðið svo breytt felur í sér að ríkisborgarar annarra aðildarríkja sem uppfylla sömu skilyrði og innlendir um aðgang að stéttarfélagi eigi sama rétt og þeir á að gegna stjórnar- og stjórnunarstörfum fyrir stéttarfélagið. Jafnframt var felldur niður 2. tölul. 8. gr. sem kvað á um endurskoðun greinarinnar. Hins vegar er óbreytt að erlendum ríkisborgurum megi meina sæti í stjórn nefnda sem lúta ríkisrétti eða gegna stöðu sem er bundin af ríkisrétti. Íslendingar uppfylla þessi ákvæði þar sem íslensk stéttarfélög eru opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu. EB-reglur sem slíkar krefjast því engrar breytingar á innlendri löggjöf og þeirri hefð sem er hér á landi varðandi aðild að stéttarfélögum og forgangsréttarákvæðum kjarasamninga um ráðningu félagsmanna. Mun ég víkja að þessum atriðum síðar í framsöguræðunni í tengslum við ýmsar yfirlýsingar og samþykktir á alþjóðavettvangi.
    Til að íbúar á Evrópsku efnahagssvæði geti komið hingað í störf sem kunna að vera laus þarf að vera fyrir hendi vinnumiðlun. Hið sama á við um tækifæri Íslendinga til starfa erlendis en með einhverjum hætti verða þeir að fá upplýsingar um laus störf þar. Ein af þeim reglum sem við komum til með að gangast undir er að gefa ítarlegar skýrslur um aðstreymi erlends vinnuafls. Framkvæmd vinnumálaskrifstofu félmrn. í dag er með þeim hætti að mánaðarlega eru aðilum vinnumarkaðarins og Hagstofunni sendar upplýsingar um útgefin atvinnuleyfi. Þar kemur fram nafn atvinnurekanda og hins erlenda launamanns, starfsgrein og gildistími atvinnuleyfis. Til að uppfylla kröfur á Evrópsku efnahagssvæði þurfum við að gefa ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um alla ríkisborgara frá EES sem fá atvinnu hér á landi. Þar á meðal eru persónulegar upplýsingar, m.a. um fyrsta starf viðkomandi hér á landi. Ég tel að vinnumiðlunin annars vegar og hins vegar þær upplýsingar, sem okkur ber skylda til að gefa um evrópska borgara hér á landi, geri okkur kleift að fá mun betri upplýsingar um atvinnuþátttöku þessa fólks hér en við höfum haft um Norðurlandabúana hingað til. Í reynd hefur félmrn. ekki fylgst með réttindum Norðurlanda í atvinnulífinu þar sem ekki þarf að veita atvinnuleyfið vegna þeirra. Vitneskja okkar um þá er fyrst og fremst fengin úr skýrslu sem Hagstofan tekur saman og byggir á norrænum skráningum. Slíkt mun hins vegar ekki verða um EES. Vinnumiðlunin verður nauðsynleg þjónusta til að við séum ekki að leggja beinar hindranir gegn því að fólkið komi. Um leið gefst okkur líka raunverulega tækifæri til þess með upplýsingagjöf til hinna landanna að draga úr því að fólk komi ef lítið er um laus störf. Almennt má ganga út frá því að ekki verði mikið um það að fólk komi gagngert til að leita sér að atvinnu. Eðlilegra er að reikna með því að upplýsingastreymi í gegnum vinnumiðlun stýri aðstreymi. Unnið er að því á vegum annarra Norðurlanda að setja upp nýtt samtengt tölvukerfi til að miðla upplýsingum um laus störf á milli ríkjanna sem á að leysa af hólmi eldra kerfið sem að mestu leyti hefur brugðist við að gegna þessu hlutverki. Nýja kerfið, sem gengur undir nafninu NIVA, verður tengt vinnumiðlunarkerfi Evrópubandalagsins, SEDOC, sem verður að breyta í nýtt vinnumiðlunarkerfi sem verður væntanlega það kerfi sem öllum EES-ríkjunum er ætlað að tengjast. Íslendingar hafa ekki séð sér fært að taka þátt í þessu samstarfi enn sem komið er enda er það mjög kostnaðarsamt Það vantar allar forsendur til að koma slíku kerfi á hér á landi þar sem vinnumiðlanir eru aðeins reknar í stærstu sveitarfélögunum. Segja má að forsenda slíks samstarfs sé nægilega stór sveitarfélög sem geti rekið virka vinnumiðlun í sínu umdæmi. Þó að ekki sé um sérstakar kvaðir að tengjast þessum tölvunetum má búast við að þrýstingur aukist á okkur að taka þátt í þessu tölvusamstarfi á einhvern hátt því ella er mjög seinlegt að koma á framfæri upplýsingum um laus störf á milli landa. Gildi slíkra upplýsinga fyrir aðrar þjóðir er algerlega komið undir því að þær fái þessar upplýsingar samtímis og innlendir aðilar, sérstaklega ef um engan eða stuttan umsóknarfrest er að ræða.
    Í 20. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um viðbrögð vegna ríkjandi eða yfirvofandi ókyrrðar á vinnumarkaði aðildarríkis sem getur leitt af sér verulega röskun á lífskjörum og atvinnutækifærum á tilteknu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein. Viðbrögðin fela einkum í sér að óska eftir því við framkvæmdastjórnina að hún láti gera þá starfsemi ráðningakerfisins óvirka að hluta eða öllu leyti sem kveðið er á um í 15., 16. og 17. gr. þannig að vinnumiðlanir annarra aðildarríkja hætti að manna laus störf sem tilkynning hefur borist um beint frá vinnuveitendum í þessari atvinnugrein eða á þessu svæði. Hér er því um sérstakt öryggisákvæði að ræða varðandi ójafnvægi á vinnumarkaðnum. Hins vegar hrekkur þetta ákvæði skammt í að stöðva fólk sem stendur til boða að fara í þessa atvinnugrein eða á þetta atvinnusvæði. Samkvæmt reglugerðinni eiga aðildarríkin að starfrækja sérstaka þjónustuskrifstofu sem gegnir hlutverki vinnumiðlunar í hverju ríki. Þessar skrifstofur skulu hafa náið samstarf sín á milli og við framkvæmdastjórnina um ráðningu í lausar stöður og meðferð atvinnuumsókna o.fl. Í þessum greinum eru einnig ákvæði um að gerðar skuli nauðsynlegar kannanir á atvinnutækifærum og atvinnuleysi. Þjónustuskrifstofur aðildarríkjanna skulu

senda til þjónustuskrifstofu hinna aðildarríkjanna og til evrópsku samráðsskrifstofunnar upplýsingar um lífskjör og vinnuskilyrði og ástand vinnumarkaðar sem líklegar eru til að koma launþegum frá öðrum aðildarríkjum að gagni. Þær skulu enn fremur miðla upplýsingum til vinnumálaskrifstofu í sínu landi.
    Þá er einnig ákvæði um að aðildarríki upplýsi um vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við frjálsa för fólks og atvinnumál launþega og að gerð séu nákvæm yfirlit yfir stöðu og þróun atvinnulífs á tilteknum svæðum og í tilteknum greinum. Það er ljóst að vinnumálaskrifstofa félmrn. verður að gegna hlutverki þjónustuskrifstofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, a.m.k. fyrst um sinn meðan skipulagi er komið á starfsemi hennar. Þessi ákvæði og fleiri munu skerpa kröfur til starfsemi vinnumiðlana í landinu sem og starfsemi vinnumálaskrifstofu félmrn. einkum er varðar upplýsingastarfsemi og samskipti við önnur lönd. En erlend samskipti um vinnumiðlun hefur hingað til að mestu takmarkast við sameiginlegan norrænan vinnumarkað.
    Virðulegi forseti. Ég vil því næst víkja að opinberum starfsmönnum. Í 4. tölul. 28. gr. EES-samningsins er kveðið á um að ákvæði 28. gr. eigi ekki við um störf í opinberri þjónustu. Við gerð Rómarsamningsins var upphaflega litið svo á að þetta ætti við um öll störf í opinberri þjónustu. Þessi skilningur hefur breyst í gegnum tíðina, sérstaklega vegna þess að ýmis störf eru í höndum einkaaðila í sumum ríkjum og í höndum opinberra aðila í öðrum ríkjum. Af fjölmörgum dómum Evrópudómstólsins, sem um þetta hafa fjallað, má ráða að það eru fyrst og fremst störf sem tengjast eiginlegum stjórnsýslustörfum og öryggishagsmunum sem eru vernduð með þessum hætti. Það er innihald starfans sem skiptir höfuðmáli en ekki ráðningarform hans. Þetta ákvæði byggir á hagsmunum ríkisins en er ekki sérstaklega ætlað að vernda störf innlendra manna. Það þarf að vera um að ræða sérstakt trúnaðarsamband milli starfsmanna og hins opinbera. Hér er ekki hægt að gefa neinn tæmandi lista um hvaða störf er að ræða sem eru vernduð með þessum hætti þó að af dómum dómstóls Evrópubandalagsins megi álykta nokkuð skýran ramma. Þannig má út frá dómunum telja upp eftirtalin störf sem ekki hafa verið talin falla undir opinbera stjórnsýslu í einstökum ríkjum: Starfsmenn póstþjónustu, lestarstjórar, hlaðmenn, ófaglærð störf tengd járnbrautum, hjúkrunarfræðistörf við sjúkrahús, barnahjúkrunarfræðingar, næturverðir, pípulagningarmenn, rafvirkjar, garðyrkjustörf, arkitektar, verkstjórar hjá sveitarfélögum, kennaranemar í starfsþjálfun, rannsóknamenn og tungumálakennarar við háskóla. Slíkt hið sama ætti að gilda um hliðstæð störf í öðrum löndum.
    Með hverjum dómi sem kveðinn er upp skýrist þetta ákvæði betur. Ágreiningur hefur verið um það innan Evrópubandalagsins hvort það sé á valdsviði EB að skilgreina hvað séu störf í opinberri þjónustu. Niðurstaðan er sú að það sé á valdi hvers ríkis að ákveða það. Það er þannig á valdi hvers ríkis að sýna fram á hvaða störf eru svo mikilvæg fyrir hagsmuni hvers ríkis vegna þeirra upplýsinga, valds eða áhrifa sem starfið veitir að það réttlæti ekki aðgang erlendra ríkisborgara. Slíkt mat getur verið mismunandi í einstökum ríkjum. Hverju ríki er því frjálst að gera kröfu um ríkisfang að skilyrði fyrir skipun í opinbera stöðu. Slíkt skilyrði er í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954. Þessir dómar og álitamál gefa ekki tilefni til að þrengja skilgreininguna á því hvað telst opinber starfsmaður hér á landi. Hins vegar gæti það haft áhrif í hvaða störf útlendingar hafa verið ráðnir hérlendis hingað til hvort hægt sé að hafna erlendum ríkisborgurum með skírskotun til þessa ákvæðis. Í mörgum tilvikum gæti krafan um íslenskukunnáttu verið mikilvægari fyrir Íslendinga en þetta ákvæði 4. tölul. 28. gr. Að mínum dómi er nauðsynlegt að kveða skýrt á um það hvaða störf hjá hinu opinbera krefjast íslenskukunnáttu. Það verður viðkomandi ráðuneyti að gera og tryggja samræmda framkvæmd um allt land ella er hætta á að krafist verði íslenskukunnáttu til að gegna starfinu í einum landshluta en ekki öðrum. Það mætti hugsa sér að þeim, sem annast ráðningar í umboði ríkisins, verði sendar leiðbeiningar um það hvaða kröfur verði að gera til erlendu ríkisborgaranna frá EES-ríkjunum um íslenskukunnáttu til að gegna viðkomandi starfi. Höfuðatriðið er að tryggja að ekki verði ósamræmi í kröfum til íslenskukunnáttu sem ræðst t.d. af framboði og eftirspurn í viðkomandi starfi. Félmrn. telur tímabært að hvert ráðuneyti hugi að því hvernig meðhöndla beri umsóknir frá ríkisborgurum er falla undir EES. Fyrir fram er ekki hægt að lista upp þau störf er atvinnu- og búsetufrelsi mundi á til. Sæki erlendur ríkisborgari frá öðru EES-ríki um laust starf þarf hins vegar að vera ljóst hvort það starf falli undir atvinnu- og búsetufrelsi og þá jafnframt hvaða kröfur verði gerðar til hinna erlendu borgara hafi þeir sambærilega menntun og reynslu og íslenskir umsækjendur.
    Virðulegi forseti. Ég vil þá næst víkja að helstu ákvæðum reglugerðar 1612/68. Áður hafa fjölmörg ákvæði hennar verið tilgreind eftir því sem tilefni hefur verið til. Í inngangi reglugerðarinnar er vikið að þeim markmiðum og grundvallarreglum sem reglugerðin byggir á. Þar er m.a. víðtæk skilgreining á hugtakinu ,,launþegi`` sem felur í sér alla þá sem eru í fastri vinnu eða vinna við tímabundin störf, árstíðabundin störf eða sækja vinnu yfir landamæri svo og þeir sem sinna þjónustustörfum. Þá er talað um að frelsi til flutninga teljist til grundvallarréttinda launþega og fjölskyldna þeirra, að launþegar njóti jafnra réttinda í raun og að lögum hvað varðar öll málefni sem tengjast ástundun launaðrar atvinnu sem og í húsnæðismálum. Jafnframt því að öllum hindrunum gegn hreyfanleika launþega eigi að ryðja úr vegi, einkum þeim skilyrðum er varðar rétt launþega til að fá fjölskyldu sína til sín.
    Kaflanum um atvinnu og fjölskyldu launþega hefur einkum verið gerð skil hér að framan. Í sex

fyrstu greinum reglugerðarinnar eru grundvallarréttindi um jafnan aðgang ríkisborgara aðildarríkja að vinnumarkaði tilgreind. Jafnframt eru þar ýmis ákvæði um að þau margvíslegu atriði, sem gætu takmarkað þetta jafnrétti og kunna að vera í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkis, gildi ekki um ríkisborgara aðildarríkjanna. Þar er t.d. kveðið á um að ríkisborgarar aðildarríkja skuli njóta sömu aðstoðar og vinnumiðlanir veita innlendum ríkisborgurum sem eru í atvinnuleit.
    Ákvæðum 7.--9. gr. hafa áður verið gerð nokkur skil og fjalla þær um jafnrétti í launum, öðrum starfskjörum og vinnuskilyrðum, aðgang að stéttarfélögum og aðgang að húsnæði, þar með talið eigin húsnæði, og þjónustu húsnæðismiðlunar.
    Í 10.--12. gr. er fjallað almennt um rétt fjölskyldu launþegans til atvinnu, búsetu, húsnæðis og náms. Þessum ákvæðum hef ég þegar gert grein fyrir.
    Í 13. og 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um samvinnu ýmissa aðila í einstökum ríkjum við sambærilegar stofnanir í öðrum aðildarríkjum og við sameiginlegar stofnanir aðildarríkjanna eins og framkvæmdastjórnina, evrópsku samráðsskrifstofuna og umsjónarnefndina og ráðgjafanefndina. Þar kemur m.a. fram að aðldarríkin starfræki sérstaka þjónustuskrifstofu sem gegni hlutverki aðalvinnumiðlunar í hverju ríki. Þessar skrifstofur skulu hafa náið samstarf sín á milli og við framkvæmdastjórnina um ráðningu í lausar stöður og meðferð atvinnuumsókna o.fl. Í þessum greinum eru einnig ákvæði um að gerðar skuli nauðsynlegar kannanir á atvinnutækifærum og atvinnuleysi. Þjónustuskrifstofur aðildarríkjanna skulu senda til þjónustuskrifstofu hinna aðildarríkjanna og til evrópsku samráðsskrifstofunnar upplýsingar um lífskjör og vinnuskilyrði og ástand vinnumarkaðar sem líklegar eru til að koma launþegum frá öðrum aðildarríkjum að gagni. Þær skulu enn fremur miðla upplýsingum til vinnumiðlunarskrifstofu í sínu landi. Í 14. gr. er einnig ákvæði um aðildarríkin upplýsi um vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við frjálsa för fólks og atvinnumál launþega og gerð séu nákvæm yfirlit yfir stöðu og þróun atvinnulífs á tilteknum svæðum og í tilteknum greinum. Framkvæmdastjórnin ákveður í samráði við umsjónarnefndina hvernig með þessi gögn verður farið. Ástandið á vinnumarkaði er metið samkvæmt samræmdum viðmiðunum að fengnu áliti ráðgjafanefndarinnar.
    Í 15.--18. gr. er kveðið nánar á um starfsemi þjónustuskrifstofunnar og vinnumiðlana í aðildarríkjunum, einkum er varðar störf sem ekki hefur verið ráðið í eða ólíklegt er að ráðið verði í með mannafla af innlendum vinnumarkaði og starfsumsóknir fólks sem hefur lýst sig reiðubúið og hæft til að þiggja launaða vinnu í öðru landi. Þá er farið nánar í samstarf þessarar aðildar við framkvæmdastjórnina og sams konar stofnanir annarra aðildarríkja.
    Í 19. gr. er fyrst og fremst kveðið á um það hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að vinna skýrslu sem unnin er upp úr upplýsingum aðildarríkjanna um vinnumarkaðinn. Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin eiga síðan sameiginlega tvisvar á ári að kanna á grundvelli þessarar skýrslu framvindu í atvinnuráðningum milli aðildarríkjanna, ekki síst skiptingu þeirra milli ríkisborgara aðildarríkjanna og ríkisborgara annarra ríkja utan EES. Einnig á að kanna fyrirsjánalega þróun á vinnumarkaðinum varðandi flutning á mannafla innan EES. Í 20. gr. er kveðið á um viðbrögð vegna ríkjandi eða yfirvofandi ókyrrðar á vinnumarkaði aðildarríkis eins og áður sagði.
    Um evrópsku samráðsskrifstofuna er fjallað 21.--23. gr. Hlutverk hennar er að samræma ráðstafanir vegna atvinnutækifæra og atvinnumsókna og almennt að miðla upplýsingum um atvinnutækifæri innan EES. Hún ber ábyrgð á öllum formsatriðum er varða þennan málaflokk og samkvæmt reglugerðinni falla undir framkvæmdastjórnina. Hún á að aðstoða innlendar vinnumiðlanir. ( Forseti: Forseti vill spyrja hæstv. ráðherra hvort mikið sé eftir af ræðu hennar eða hvort hún sé um það bil að ljúka máli sínu. Gert hafði verið ráð fyrir þingflokksfundum kl. 5 þannig að ef hæstv. ráðherra á langt mál eftir þá vildi ég gjarnan vita af því.) Já, ég býst við að það séu eftir einar 15--20 mínútur af ræðu minni og það er velkomið, ef það er ósk forseta, að fresta því sem eftir er af henni til næsta fundar. ( Forseti: Ég held að ég fari þá fram á það að hæstv. ráðherra fresti ræðu sinni.)