Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:33:02 (864)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað mun það setja svip á umræðuna í þinginu varðandi þessi mál að það er grundvallarágreiningur milli okkar annars vegar í stjórnarliðinu og stjórnarandstæðinga hins vegar. Við

lítum þannig til að ekki sé um neitt fullveldisafsal að ræða í samningnum við hið Evrópska efnahagssvæði. Það er fjarri því að tekist hafi að sýna fram á að þar sé um fullveldisafsal að ræða í neinum skilningi. Það setur auðvitað svip sinn á umræðurnar. Stjórnarandstæðingar telja svo vera og þess vegna taka þeir sig til og flytja margvísleg frv. og tillögur, sum nánast óskyld þessu efni. En þarna liggur fyrir grundvallarágreiningur. Ég hef sagt sem svo að menn eru með tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem eru athyglisverðar og umræðuverðar. Það er sjálfsagt að taka þátt í að ræða þær í nefndum þingsins og á öðrum vettvangi en þær tengjast bara ekkert spurningunni um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er meginatriðið.