Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:34:05 (865)

     Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef hæstv. forsrh. er enn þeirrar skoðunar að ekki sé um neitt framsal á valdi að ræða hvers vegna gerir hann þá enga tilraun til að sýna fram á að fjórmenninganefndin sem hann hefur reyndar líka oft vitnað til hafi rangt fyrir sér hvað þetta atriði varðar? Hann gerir enga tilraun til að útskýra hver munurinn sé á afstöðu sinni annars vegar og á röksemdafærslu fjórmenninganna hins vegar. Ég vildi einnig koma því að hér að það er alveg ljóst að ef Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána þá er það vegna þess að hann telur að þessi lög hafi ekki orðið til með stjórnskipulegum hætti. Og ef hann kemst að þeirri niðurstöðu, þó ekki sé nema um eitt einasta atriði, að samningurinn hafi ekki verið lögfestur með stjórnskipulegum hætti vegna þess að hann brjóti í bága við stjórnarskrána þá er alveg ljóst að allur samningurinn er í uppnámi, ekki bara sú sérstaka grein heldur allur samningurinn.