Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:37:57 (867)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að fundið er að því að ég hafi rætt um hitt dagskrármálið, stjórnarskrárbreytingamálið, undir þessum lið þá vek ég athygli á því að hv. frsm. vitnaði í löngu máli í ræðu mína sem ég flutti undir því máli. Reyndar er það svo að í greinargerð þess máls sem hann mælti fyrir er sérstaklega vikið að hinu frv. þannig að það er full ástæða til þess fyrir mig að fjalla um hvort tveggja málið með þeim hætti sem ég gerði.
    Varðandi hitt deilumálið um það hvort rétt sé og eðlilegt að þriðjungur þingmanna geti sent öll álitaefni í þinginu undir úrskurð þjóðarinnar þá er það mál sem sjálfsagt er að ræða ítarlega og velta fyrir sér hvort menn vilji fara þá leið. En það tengist ekkert umræðunum um EES eins og ég sagði áðan. Það er dæmi um það með hvaða hætti menn hafa klúðrað öllum þessum breytingum saman, að hrúga tillögum um ólíkt efni inn í þingið og telja þau öll tengjast EES-málinu. Gera reyndar kröfu til þess. Hv. 1. flm., 3. þm. Norðurl. v., gerði kröfu til þess úr þessum ræðustól að menn tækju afstöðu til þess hvort menn vildu hafa þá skipan á að þriðjungur þingmanna gæti jafnan sent mál til þjóðarinnar, að afstaða til þess yrði tekin áður en menn afgreiddu samninginn um EES. Menn hljóta að sjá að a.m.k. þessi þáttur tengist með engum hætti EES-málinu.