Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:39:21 (868)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að hæstv. forsrh. hafi gefið sögulega yfirlýsingu í ræðu sinni áðan því hann hélt því í rauninni fram, og við skulum gæta að því að það er forsrh. þjóðarinnar sem talar, að menn gætu vitandi vits gert hluti sem brytu í bága við lög eða stjórnarskrá og síðan breytt lögunum eða stjórnarskránni eftir á ef þeir yrðu dæmdir fyrir það af Hæstarétti þjóðarinnar. Hann sagði að ef Hæstiréttur kæmist að því að tiltekið atriði stangaðist á við stjórnarskrá þá væri samningurinn ekki upp í loft. Ég skil ekki hvernig forsrh. getur með góðri samvisku haldið þessu fram þegar viðvörunarorð og álitsgerðir frá lögfræðingum liggja fyrir sem benda nákvæmlega á að það sé hætta á því að samningurinn standist ekki stjórnarskrána. Að tiltekin ákvæði standist ekki gagnvart stjórnarskrá. Heldur hann að það sé hægt að standa á því og að Hæstiréttur gæti dæmt þetta mál þannig að það væri í lagi og það væri einfaldast að breyta stjórnarskránni eftir á eða láta þetta tiltekna samningsákvæði ekki taka gildi þrátt fyrir að stjórnvöldum hafi mátt vera ljóst, þegar þau staðfestu samninginn, að hann stæðist jafnvel ekki stjórnarskrá?