Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 12:04:22 (875)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér kom mjög á óvart ef hv. 3. þm. Reykv. hefur notað kosningabaráttuna í það að kynna samningana um Evrópskt efnahagssvæði því ég var ekki vör við það að það væri aðalmál síðustu kosninga þó vissulega kæmi það inn í kosningabaráttuna. Þó að formaður Framsfl. hefði haldið því fram að kosningarnar væru þjóðaratkvæðagreiðsla um EB þá vísuðum við því auðvitað algjörlega á bug og höfum aldrei samþykkt að verið væri að kjósa um það í síðustu kosningum. Þetta er auðvitað bara hártogun af hálfu hv. þingmanns og virðist honum frekar órótt vegna þessa tillöguflutnings okkar um breytingu á stjórnarskránni.
    En það sem ég ætlaði aðallega að gera athugasemdir við og ég tók það svo að því væri fyrst og fremst beint til mín var að ég minntist á landið Sviss í ræðu minni. Ég sagði eitthvað á þá leið að þjóðaratkvæðagreiðsla væri lifandi þáttur í stjórnarfari sumra ríkja, m.a. Sviss. Ég sagði aldrei að stjórnarfarið þar væri eitthvað í líkingu við það sem er hér og þótti mér einkennilegt hversu illa þingmaðurinn tók þessu.
    Ég lít svo á að við eigum að taka upp þær hefðir sem hér eru í vaxandi mæli teknar upp af Evrópuþjóðum, þ.e. að bera ýmis mál undir þjóðina og það er þess vegna sem ég tók t.d. til Sviss sem hefur þetta fast inni í sínu stjórnarfari en Frakkar og Danir og Norðmenn og fleiri hafa tekið þetta upp --- nú er t.d. talað um að Þjóðverjar muni gera þetta líka --- en ekki vegna þess að ég héldi að við ættum að taka upp sama kerfi og gildir í Sviss.