Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 12:58:37 (878)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. kom víða við og ég fæ væntanlega síðar tækifæri til að ræða við hann um hitaveitu, orkuskatt, álver og allt þess háttar og reyndar margt fleira sem kom fram í yfirgripsmikilli ræðu hans. En það eru tvö til þrjú atriði sem ég vil sérstaklega fá að nefna við hann. Hv. þm. sagði að það hefði breyst frá því að hans flokkur fór með forustu í ríkisstjórn og með veigamikið hlutverk varðandi samningsgerð í EES að nú væri komið yfirþjóðlegt vald inn í samningana og eins væri ekki til að dreifa fríverslun með fisk.
    Hv. 7. þm. Reykn., fyrrv. hæstv. forsrh., lýsti því yfir að þeir í ríkisstjórninni hefðu verið búnir að samþykkja yfirþjóðlegt vald, hann yrði að gangast við því, varðandi dómstólana. Það virðist því ekki hafa flækst fyrir þeim ágæta manni fyrr. Í annan stað var það ljóst á haustdögum 1990 og því þá lýst yfir og við því gengist að ekki yrði um að ræða fríverslun með fisk. Þá er spursmálið þetta: Ef þetta er svo mikilvægt atriði í huga þingmannsins hvers vegna hélt forustuflokkur ríkisstjórnarinnar áfram að standa að samningsgerð um EES þrátt fyrir það að þessi veruleiki lægi fyrir? Segja má að fyrst samningsgerð var haldið áfram hafi ríkisstjórnin sætt sig við þennan þátti a.m.k. Það er því ekki hægt að draga hann upp núna.
    Í annan stað vil ég nefna að þegar hv. þm. nefnir hitt stjórnarskrárfrv., sem við höfum orðið að ræða hér þvers og kruss og ekkert við því að segja í sjálfu sér, segir hann að því felist leið til þess að útiloka að óprúttnir stjórnmálamenn geti framselt fullveldisrétt þjóðarinnar. En það felst aðeins í því að hinir óprúttnu stjórnmálamenn sem hann kallar svo verða að vera nægilega margir til þess að gera það því að frv., eins og það er lagt fram, kemur í veg fyrir að hinn venjulegi stjórnarskrárgjafi, þ.e. þjóðin sjálf sem

tekur þátt í stjórnarskrárbreytingu við núverandi fyrirkomulag, komist með puttana í málið. Á þessu þrennu vil ég vekja athygli hv. þm.