Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:05:34 (881)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég tel ekki að það beri neinn vott um áhugaleysi hv. 7. þm. Reykn. að hann skuli ekki vera hér á fundinum. Það væri þá að hann hefði of mikinn áhuga á of mörgu ef nokkuð væri svo hann gæfi sér tíma til að sinna fleiru en að sitja hér yfir umræðum og hlusta á hv. 5. þm. Norðurl. e. og aðra góða þingmenn sem hér eru að ræða þetta mál. Það eru margir af flm. málsins viðstaddir og geta tekið þátt í umræðum og ég held að það eigi að vera vel fyrir því séð.
    Nú veit ég ekki orðaskipti manna á framboðsfundum á Norðurl. e. og ég ætla ekki að blanda mér í það hvernig þeir tala þar. Ég veit hins vegar, eins og hv. flm. þessa frv., 3. þm. Norðurl. v., hvernig talað var á Norðurl. v. Ég veit ekki hvað þið eruð í vandræðum með á Norðurl. e. og hvað ekki. Það er ykkar mál að gera það upp. En ég held að það sé fjarri lagi að bera það á hv. 7. þm. Reykn. Steingrím Hermannsson að hann hafi án samráðs við aðra flokksmenn fundið upp þetta slagorð. Að vísu er hv. 7. þm. Reykn. formaður Framsfl. ákaflega snjall og mikilhæfur stjórnmálamaður en ég held að hann eigi ekki hugmyndina að þessu slagorði. Ég get upplýst hv. 5. þm. Norðurl. e. um það að á allfjölmennum fundi var þetta slagorð notað.