Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:10:38 (884)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Þetta skal verða stutt af minni hálfu. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. forsrh. og spyrja hvort hann geti ekki verið viðstaddur þessar fáu mínútur sem ég mun taka í þetta. ( Forseti: Forseti skal láta gera ráðstafanir til að hæstv. forsrh. komi í salinn.) Ég þakka forseta fyrir.
    Það sem mér finnst afar merkilegt í umræðunni er það sem komið hefur fram hjá hæstv. forsrh., reyndar ekki í fyrsta sinn, að hann lítur svo á að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið brjóti ekki í bága við stjórnarskrána að neinu leyti. Með þessari skoðun er hann ósammála þeim fjórum mönnum sem falið var að gera úttekt á málinu af hálfu utanrrh. Í áliti fjórmenninganna segir, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli.`` Það er greinilegt að þessir menn eru á þeirri skoðun að um valdframsal sé að ræða. Það er því ljóst að hæstv. ráðherra er ósammála hinum fjórum lögfróðu mönnum sem falið var það hlutverk af hálfu utanrrh., sem fer með málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að gera úttekt á því. Ég vildi gjarnan að hæstv. forsrh. útskýrði það eilítið fyrir okkur hvers vegna hann sé ósammála niðurstöðu fjórmenninganna.
    Í framhaldi af þessu segja fjórmenningarnir, með leyfi forseta: ,,Verður að telja að stjórnarskráin heimili framsal stjórnvalds sem er takmarkað með þessum hætti og varðar milliríkjaviðskipti.``
    Með öðrum orðum eru þeir á þeirri skoðun að stjórnarskráin sé þannig úr garði gerð að heimilt er að framselja vald í tilteknum mæli og formi. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann sé sömu skoðunar og þeir eða hvort hann sé þeirrar skoðunar að stjórnarskráin heimili ekki framsal valds í neinum mæli. Í ljósi skoðana ráðherrans er nauðsynlegt að afstaða hans liggi fyrir hvað þetta varðar.
    Þriðja atriðið sem ég nefni í þessu ágæta áliti varðar forúrskurði, með leyfi forseta:
    ,,Ef til þess kemur hins vegar að ákvörðun verður tekin um að leita slíkra forúrskurða þarf að setja heimild til þess í íslensk lög. Er ekki ástæða til þess að við tökum nú afstöðu til þess hvort stjórnarskrárbreyting sé þá nauðsynlegt vegna þessa atriðis.``
    Þegar er komið fram frv. um öflun álits EFTA-dómstólsins og í áliti þessara fjögurra manna liggur fyrir að þeir hafi ekki athugað né gefið upp álit á því hvort það kalli á stjórnarskrárbreytingu að innleiða slík ákvæði í lög. Ríkisstjórnin styðst því ekki við neina ráðgjöf eða neitt álit um það efni. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það þurfi að gera stjórnarskrárbreytingu vegna þess frv. sem fram er komið um að leita forúrskurða.