Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:40:56 (892)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en hoggið aðeins í þau orð þess þingmanns sem hér talaði áðan að ótrúlega lítill þungi fylgdi kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu og hann hefði það til marks um þennan þunga að salurinn hér væri þunnskipaður. Ég verð þá að spyrja hv. stjórnarþingmann: Hver er áhugi stjórnarþingmanna á EES-málinu yfirleitt?
    Við höfum setið klukkutímum saman og rætt það mál og salurinn hefur allan þann tíma verið mjög þunnskipaður af stjórnarliðum. Hafa þeir engan áhuga á þessu afdrifaríka máli? Setja þeir sig ekkert inn í þetta mál? Hafa þeir ekkert um það að segja?
    Ég hlýt að spyrja þingmanninn þessara spurninga því að það eru yfirleitt stjórnarandstöðuþingmenn sem verma sætin í þessum sal en ekki stjórnarþingmenn. Það er þá enginn þungi í þeim óskum um að gera þann samning. Það er léttvægt mál.
    Ef við tölum síðan um þróunina varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur í þessum heimshluta þá vil ég bara benda þingmanninum á að líta sér ofurlítið nær, hann getur bara litið til Danmerkur. Frá því 1963 telst mér til að Danir hafi átta sinnum greitt þjóðaratkvæði um ýmislegt sem mjög skipar skoðanir eru um hjá þjóðinni. Átta sinnum.