Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:46:13 (895)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þennan stjórnmálafræðifyrirlestur, það var svo sem gaman að hlýða á þessa gömlu upprifjun en hins vegar fannst mér hún ekki varpa mjög miklu ljósi á þetta mál. Í máli mínu áðan rakti ég að það væri mjög ofmælt þegar menn töluðu um það að sú þróun væri mjög áberandi í evrópskum stjórnmálum að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég nefndi í þessu sambandi allnokkur dæmi og ég fór sérstaklega yfir það með Bretland. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fór með áðan, staða breska þingsins hefur nokkra sérstöðu hvað þetta áhrærir, en það breytir hins vegar ekki því að það er auðvitað bæði þar og annars staðar í Evrópu sem það heyrir til undantekninga að menn grípi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Út á það gekk málflutningur minn, ekki það að fara að rekja sérstaklega í átta mínútna ræðu þar sem verið var að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópskt efnahagssvæði hvernig væri komið stöðu einstakra þjóðþinga. Það getur hv. þm. manna best áttað sig á að var hvorki tími né tóm til.