Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:00:41 (899)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það virðist vera nokkuð samræmd afstaða hjá þingmönnum Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og hv. þm. Birni Bjarnasyni, að vegna þess að frambjóðendur hafi lýst því yfir fyrir síðustu kosningar hver væri afstaða þeirra til EES-samningsins sé búið að fara fram það lýðræðislega val sem gildi í þessu máli og þess vegna sé þjóðaratkvæðagreiðslan óþörf.
    Nú vill svo til að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti því yfir í grein í Morgunblaðinu að mig minnir rétt fyrir kosningar að hann væri fylgjandi tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins. Hann tók það alveg skýrt fram. Þessi grein hans er í þeim ljósrituðu gögnum sem ég hef, við hliðina á grein hv. þm. Björns Bjarnasonar. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði því sínum kjósendum á Vestfjörðum að hann styddi tvíhliða samning. Eru það þá svik hjá hv. þm. Einari K. Guðfinssyni að greiða atkvæði með EES-samningnum hér eða á hann að greiða atkvæði með tillögu okkar alþýðubandalagsmanna um tvíhliða samning? Ég vil biðja hv. þm. Björn Bjarnason að svara því. Hvernig á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að greiða atkvæði? Á þann hátt sem hann sagði kjósendum sínum á Vestfjörðum og þar með að greiða atkvæði tillögu okkar alþýðubandalagsmanna eða á hann að greiða atkvæði með frv. ríkisstjórnarinnar um EES-samning og þar með svíkja það fyrirheit sem hann gaf kjósendum sínum á Vestfjörðum? Ég held að það sé nauðsynlegt að fara síðan yfir það hvað ýmsir aðrir frambjóðendur og þingmenn Sjálfstfl. sögðu í aðdraganda síðustu kosninga því að það vill nú svo til að ýmsir þeirra voru ekki fjarri skoðunum hv. þm. en þær liggja skjalfestar fyrir varðandi hv. þm. Einar K. Guðfinnsson.
    Það kemur auðvitað úr hörðustu átt að hv. þm. Björn Bjarnason sé að tala um að flokkar snúist eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sjálfstfl. flutti, þegar hann var í stjórnarandstöðu, tillögu um tvíhliða samning og fannst hún svo mikilvæg að hann flutti sérstaka vantrauststillögu á síðustu ríkisstjórn vegna þess að hún vildi ekki ganga til liðs við Sjálfstfl. um slíkan tvíhliða samning. Ég held að þingmenn Sjálfstfl. ættu að tala varlega og ekki af því yfirlæti sem hv. þm. Björn Bjarnason talaði hér áðan.