Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:04:09 (900)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað fyrir hv. 3. þm. Vestf. Það er nokkuð einkennilegt að nota tíma til andsvars við minni ræðu til að spyrja hann um afstöðu hans. Ég held að það sé alveg tvímælalaust, og hv. 8. þm. Reykn. veit það, að mál lágu alveg skýr fyrir í kosningabaráttunni hvað þetta atriði varðar. Það þarf enginn að efast um það hver var afstaða flokkanna til þess hvort EES-samningurinn ætti að ná fram að ganga eða ekki. Sjálfir höfðum við þingmenn rætt um þetta áður og það er ástæðulaust að vera að ræða þetta. Mér finnst það mjög veikur málstaður hjá stjórnarandstöðunni að hlaupa í þetta vígi þegar þessi mál eru til umræðu. Það er alveg ljóst að kosningabaráttan snerist að verulegu leyti um spurninguna um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þingmenn höfðu á grundvelli kosninganna, og hafa á grundvelli kosninganna, stefnuyfirlýsingu flokka sinna og alls þess sem lá fyrir þegar kjósendur greiddu atkvæði í þingkosningunum, fullt umboð til þess að ganga frá þessum samningi. Undan því verður ekki vikist hvaða brellna sem menn grípa til núna þegar þeir eru á flótta undan sínum eigin frumvörpum um þetta mál.