Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:05:19 (901)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað athyglisvert að hv. þm. Björn Bjarnason svarar ekki spurningu minni. Það liggur fyrir að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti því yfir að hann styddi tvíhliða samning fyrir kosningar. Ég nefni það sem dæmi og spyr þm. Björn Bjarnason: Er það brot á þeirri yfirlýsingu ef þingmaðurinn greiðir atkvæði með EES-samningnum? Það kom ekkert svar við því. Hann gaf það hins vegar í skyn að það hefði legið ljóst fyrir að Sjálfstfl. hefði verið fylgjandi EES-samningnum fyrir síðustu kosningar. Ég held að það hafi ekki legið mjög ljóst fyrir. En það lá þó ljóst fyrir að sá sem sat við hliðina á hv. þm. Birni Bjarnasyni á framboðslista Sjálfstfl., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, gaf enga slíka yfirlýsingu fyrir síðustu kosningar. Var hann þar með á móti stefnu Sjálfstfl.? Ég get nefnt annan meðframbjóðanda hv. þm., Guðmund H. Garðarsson, sem hér var eindreginn talsmaður tvíhliða samnings og hefur aldrei lýst yfir stuðningi við EES-samninginn. Voru þessir frambjóðendur Sjálfstfl. sem sátu með þingmanninum á listanum á móti stefnu Sjálfstfl.? Það var ekki tekið fram í kosningabaráttunni. Það kom hvergi fram. Og reyndar er það athyglisvert að þessir tveir, núv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og núv. varaþingmaður Guðmundur H. Garðarsson, hafa ekkert skipt um skoðun svo að vitað sé, hvorugur þeirra hefur lýst yfir stuðningi við EES-samninginn. Hvers konar kenningar eru þetta eiginlega hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni? Ég gæti nefnt fjölmarga aðra úr frambjóðendaliði Sjálfstfl. sem ekki voru stuðningsmenn EES-samningsins fyrir síðustu kosningar. Svo kemur prókúruhafinn á flokkinn, hv. þm. Björn Bjarnason, og segir það hér að þeir hafi þá verið á móti stefnu Sjálfstfl. Enginn þeirra sagði það í síðustu kosningabaráttu.
    Þetta er auðvitað allt til merkis um það að þingflokkurinn sem hv. þm. er varaformaður í, þingflokkur Sjálfstfl., hefur ekki enn þá treyst sér til þess að greiða atkvæði um EES-samninginn. Það er ekki bara komandi fjárlög sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur ekki treyst sér til að greiða atkvæði um. Það hefur ekki enn þá farið fram atkvæðagreiðsla í þingflokki Sjálfstfl. um EES-samninginn.