Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:07:46 (902)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hér hefur verið vitnað í látinn þingmann og að sjálfsögðu mun hann ekki svara fyrir sig í þingsalnum þótt enginn efi að hann hefði gert það væri hann á meðal vor. Það vekur nokkra athygli þegar vitnað er í látinn þingmann að þá eru hans ummæli á þann veg að þar sem þjóðin hafi ekki vitað um ákveðið mál þegar kosningar fóru fram ætti hún rétt á því að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er fullyrt að þessi rök eigi ekki við í dag.
    Hæstv. utanrrh. hefur látið gera mjög merka könnun þar sem Íslendingar svara því hvaða þekkingu þeir hafi á EES. Niðurstaðan er sú að innan við 2% sjálfstæðismanna telja sig hafa góða þekkingu á málinu og er þó vitað að einn í þeim hópi sem spurður var er hv. 3. þm. Reykv. Efar enginn hvert hans svar hefur verið undir þeim kringumstæðum. Ég spyr sjálfan mig aftur á móti þeirrar spurningar: Ef það er rétt að þjóðin hafi kosið um þetta í seinustu alþingiskosningum, hvernig hafa venjulegir kjósendur á Vestfjörðum átt að taka afstöðu? Einar Kristinn var í flokki sem studdi ekki þessar viðræður á sínum tíma á Alþingi Íslendinga og greiddi atkvæði á þann veg að við færum í tvíhliða viðræður. Ég var í flokki sem átti þátt í að hrinda þessum viðræðum af stað og lýsti því yfir í kosningabaráttunni að ég treysti mér ekki til að svara því á þeirri stundu hvort ég mundi styðja niðurstöðuna. Ég vissi einfaldlega ekki hver hún yrði og tæki ekki afstöðu fyrr.
    Kvennalistinn hafði haft miklar efasemdir og snúist gegn samningnum, það er vitað. (Forseti hringir.) Það er vitað að ræðutíminn er að verða búinn en mér er mikil forvitni engu að síður á því hv. 3. þm. Reykv. upplýsi það hér og nú hvernig hann hefði greitt atkvæði á Vestfjörðum hefði hann verið þar kjósandi og hætti að vitna í dauða menn.