Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:15:15 (905)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins minna á það sem kom fram fyrr í umræðunum í dag að enginn kvað fastar að orði um að síðustu þingkosningar, 1991, væru val í þessu efni en hv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson sem lagði málin þannig fyrir kjósendur með einkar skýrum hætti að kosningarnar væru þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland ætti að gerast aðili að Evrópubandalaginu. Kjósendur gátu ekki skilið það með öðrum hætti en svo að ef þeir kysu Framsfl. væru þeir að koma í veg fyrir aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Á sama tíma bar það hæst í málflutningi hans varðandi samstarf Íslands við aðrar þjóðir að það væri með öllu hættulaust að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.