Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:27:16 (915)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er greinilega nauðsynlegt að lesa þetta bréf í heild sinni og málsgreinina alla en stoppa ekki í miðri setningu, eins og hv. þm. gerði hér, sérstaklega vegna þess að hv. þm. Ólafur Þórðarson var að draga það í efa að hv. þm. væri læs. Ég vil nú ætla að hann sé læs alveg til enda málsgreinarinnar. Þess vegna vildi ég spyrja virðulegan forseta, vegna þess að ég vil ekki nauðga þingsköpunum hér að ræða þetta merka bréf fjmrn. í umræðunni um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort margir séu á mælendaskrá um tillögu um dagskrármálið svo ég geti metið það hvort . . .   ( Forseti: Það skal upplýst að fimm hv. þm. hafa beðið um orðið í hinni eiginlegu efnisumræðu um málið.) Þá verð ég að segja við forsetann að fyrst hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kaus að fara með þetta undir andsvörum, sem er náttúrlega algert brot á öllum þingsköpum og hefur kosið að lesa ekki alla málsgrein bréfsins og slíta það úr samhengi til að gefa algerlega villandi mynd er óhjákvæmilegt að taka þetta til umræðu undir þessum dagskrárlið síðar þótt það sé kannski ekki gott. Ég mun gera það, virðulegur forseti, og vona að forsetinn hafi skilning á því. Ég mun þá einnig svara því sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði hér áðan vegna þess að það var rangt hjá honum að ég hafi verið að bera einhverjar sakir á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Það er skjalfest í Morgunblaðinu frá því fyrir kosningar að þingmaðurinn boðaði þar tvíhliða samning. Það voru engar sakir, það var bara staðreynd. Ég var hins vegar að spyrja hv. þm. Björn Bjarnason um það hvernig slíkur þingmaður ætti að greiða atkvæði. Það er nauðsynlegt að við ræðum þetta síðar í dag vegna þess að það er alveg ljóst að Sjálfstfl. þorir ekki í efnislega og málefnalega umræðu um þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu sem fjölmennustu samtök Íslendinga, Alþýðusambandið, BSRB, Stéttarsambandið og Neytendasamtökin (Gripið fram í.) og Birting hafa öll stutt. Ég bið því um orðið, forseti.