Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:56:43 (920)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Stundum gerist það því miður að stjórnmálamenn láta stjórnast af hugleysi. Það er frekar ömurlegt þegar það gerist og ekki traustvekjandi. Það er vissulega þekkt stjórnarfyrirkomulag að sá sem með völdin fer hefur verulegt svigrúm varðandi það hvenær hann efnir til kosninga. Þá reynir hann að standa þannig að málum að hafa ekki kosningar þegar hann telur að fylgi síns flokks standi illa.
    Hér á landi hefur það aftur á móti gerst að utanrrn. íslenska hefur látið framkvæma mjög viðamikla könnun um afstöðu Íslendinga til þessa máls. Ég hygg að þetta sé viðamesta könnun sem nokkurn tíma hefur verið framkvæmd af ráðuneyti til að afla upplýsinga um skoðanir manna eftir fylgi, eftir aldri og kyni líka. Það kemur í ljós samkvæmt skoðanakönnuninni að Alþfl. hefur meirihlutafylgi sinna kjósenda fyrir því að ganga í EES. Enginn annar stjórnmálaflokkur hefur meirihlutafylgi sinna kjósenda til þess að gera þetta.
    Þá gerist það, þegar fram kemur tillaga um að láta kjósa á Íslandi og fá úr því skorið hver afstaða Íslendinga er, þjóðin eigi að segja sitt álit, að þá rjúka sjálfstæðismenn upp hér í salnum og eru andvígir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, segja að þetta hafi legið fyrir í seinustu kosningum. Hv. 3. þm. Vestf. er svo seinheppinn í málinu að hann nær ekki vopnum sínum því hann hafði skrifað blaðagrein fyrir kosningarnar þar sem fram kom að hann var hlynntur tvíhliða samningum. Jafnframt hafði Sjálfstfl. sem heild lagt það til á Alþingi Íslendinga að fella ríkisstjórnina vegna þess að hún fór af stað með þennan samning.
    Hv. 3. þm. Reykv. kvartar undan því að það sé ekki næg alvara í þessari ósk og hv. 3. þm. Vestf. sækir málið fyrst og fremst á þeirri forsendu. Ég vona að þessir menn séu ekki að biðja um vopnaða uppreisn á Íslandi. Ég vona að þeir séu ekki að fara fram á að þeir séu grýttir á götum úti til þess að þeim sé alvaran ljós. Hvers lags storkandi ummæli eru þetta viðhöfð hér í þingsalnum? Eru þeir að fara fram á að það séu lagðar á þá hendur eða hvað? Ég kann ekki við svona aðdróttanir og mér finnst að menn þurfi að finna orðum sínum stað ef þeir ætla að halda slíku fram.
    Hv. 3. þm. Reykv. er ungur maður að aldri í stjórnmálum. Hann er kappsfullur og það er út af fyrir sig vel að menn séu kappsfullir. En í þessu máli sækir hann hratt fram. Ef það er skoðað með stöðu flokksins, þá eru upplýsingar utanrrn. einu persónunjósnirnar sem farið hafa fram um málið, 41,6% sjálfstæðismanna eru fylgjandi, 6,7% eru hlutlausir, 19,7% eru andvígir, 31,9% vita ekki hvar þeir standa. Ekki hafa nú þessir sem eru hlutlausir eða vita ekki greitt atkvæði um þetta í seinustu kosningum, það fær illa staðist. Það er nánast vonlaust að ganga út frá því. Þá kemur þessi staðreynd, 41,6% fylgjandi og þó við leggjum þessa hlutlausu við, 6,7%, þá nær það ekki 50%. 19,7% eru á móti. Það sækir mjög á mann sú hugsun að þeir sem gefa sig ekki upp séu að hlífa flokknum sínum í stöðunni. Þeir meti það svo að honum sé það mjög óþægilegt að sagt sé frá því hver þeirra afstaða sé. Varla getur það verið hugsunin á bak við það hjá hv. 3. þm. Reykv. að það eigi ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, að hann vilji að 19,7%

af sjálfstæðismönnum segi skilið við flokkinn í næstu kosningum. Er það virkilega svo? Er komið fyrir forustumönnum í Sjálfstfl. á sama veg og hjá Erlingi af Sóla sem hafði ógrynni liðs og hugðist taka Noregskonung af lífi en sigldi svo greitt sínu skipi að hann var einskipa og varð þess vegna einfaldlega veginn. Ég trúi því ekki að þeir haldi að það sé einhver lausn í þessu máli að fresta því og vonast til að þeim verði fyrirgefið ef þeir keyra þetta áfram núna. Þess er engin von að þau 19,7% sem hafa tekið afstöðu muni fyrirgefa þetta. En þá liggur það þó að minnsta kosti fyrir hvað varðar hv. 3. þm. Vestf. að hann situr með svikum á Alþingi Íslendinga í þessum málum. Hann hefur blekkt sína kjósendur heima á Vestfjörðum, hann hefur logið að þeim fyrir kosningar og núna þorir hann ekki að mæta þeim. Slíkur er kjarkurinn. Það er ekki stórmannlegt að standa þannig að málum.
    Hv. 3. þm. Reykv. virðist trúa því að flokkurinn komist upp með að hunsa 20% af sínum kjósendum í þessu máli og að áróðurinn eigi að duga, krataáróðurinn frá Evrópu eigi að duga. Það séu jafnaðarmennirnir í Evrópu með sinn franska sérfræðing í fararbroddi sem eigi að heilaþvo þjóðina. Ég segi eins og er, það verður ekki liðið að þessi ríkisstjórn komist hjá því að þetta mál fari fyrir þjóðaratkvæði.