Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:12:35 (925)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessar umræður eru orðnar æði frjálslegar getur maður sagt og kannski um of. Mig langar til þess að reyna að greiða svolítið fram úr því sem menn eru að reyna að segja og það varðar sérstaklega þá stefnu Sjálfstfl. Hér hef ég margsinnis bent á þessa merkilegu bók sem allir þingmenn hafa fengið og vonandi lesið, Ísland og Evrópa, sem Alþingi gaf út. Þar segir, sem aðalliður í sameiginlegum ályktunum allra stjórnmálaflokkanna:
    ,,Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Vegna ummæla hv. 3. þm. Vestf. Einars Guðfinnsonar get ég vottað það að hann hefur nákvæmlega fylgt stefnu Sjálfstfl. í öllu því sem ég veit að frá honum hefur farið í þessum málum sem hér eru til umræðu.
    Það stendur líka í 2. tölul. þessarar ályktunar þar sem vikið er að í sérálitum í starfi þessarar nefndar:
    ,,Ekki er samstaða um það í nefndinni að taka eigi þátt í samningum um myndun sameiginlegs evrópsks efnahagssvæðis EFTA og EB á þeim grundvelli sem fyrir liggur . . .  ``
    Við erum að ræða allt annað Evrópskt efnahagssvæði en þá lá fyrir. Þetta er dagsett af mér 7. des. 1990 sem formanni svokallaðrar Evrópustefnunefndar. Ég veit ekki til annars en við hv. þm. Einar Guðfinnsson séum nákvæmlega sammála og Sjálfstfl. allur um þetta. Engar samþykktir eru til frá Sjálfstfl. sem eiga að brjóta þetta bann.