Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:22:03 (927)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Tillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um EES-samninginn nýtur mjög víðtæks stuðnings í okkar þjóðfélagi. Það hefur komið fram fyrr að öll stærstu stéttasamtökin í landinu, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Stéttarsamband bænda, hafa öll ályktað um það . . .   (Gripið fram í.) það er ekki alveg rétt, hv. þm., vegna þess að þetta var m.a. ályktað, ef ég man rétt, á þingi Stéttarsambands bænda og ég held einnig á þingi eða stórri fulltrúasamkomu BSRB. Það er athyglisvert að umhvrh. og einhver þingmaður Sjálfstfl. eru að grípa fram í um að það séu bara stjórnirnar sem hafi ályktað um það. Það verður alþýðusambandsþing í haust, við skulum sjá hvort þar verður ekki samþykkt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn. Vonandi taka þeir ráðherrar og þingmenn, sem eru að kalla fram í að það séu bara stjórnirnar sem hafa samþykkt það, mark á því ef alþýðusambandsþingið sjálft samþykkir það.
    Það er auðvitað mjög merkilegt að þessir menn, sem vilja stundum kenna sig við lýðræðið, eru mjög hræddir við að hinn lýðræðislegi vilji fái að koma fram í þessu máli. Ég vil einnig benda þeim á það að Neytendasamtökin hafa ályktað um það að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn þótt Neytendasamtökin almennt séu fylgjandi samningnum. Það er því ekkert samhengi í því hvort menn eru efnislega með eða á móti samningnum hver afstaða þeirra er til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
    Það er einnig ljóst af könnunum sem gerðar hafa verið, m.a. könnun utanrrn. sjálfs, að afstaðan til samningsins gengur þvert á alla flokka. Af því að hv. þm. Björn Bjarnason og aðrir þingmenn Sjálfstfl., sem talað hafa hér, hafa viljað gera mikið úr því að kjósendur hafi verið að lýsa afstöðu sinni í síðustu alþingiskosningum, þá er það auðvitað athyglisvert að í könnun utanrrn., sem framkvæmd var í byrjun júlí, kemur fram að minni hluti kjósenda Sjálfstfl. styður EES-samninginn. 42% af kjósendum Sjálfstfl. segjast styðja EES-samninginn. Það eru aðeins kjósendur eins flokks, Alþfl., þar sem rétt merst meiri hluti kjósenda flokksins fyrir samningnum, eða rúm 52% kjósenda Alþfl. Kjósendur allra annarra flokka eru þannig gerðir að minni hluti þeirra hefur tekið afstöðu með samningnum. Þá er það auðvitað mjög sérkennilegt ef þingmenn viðkomandi flokka ætla, þrátt fyrir þessi eindregnu tilmæli og þennan vilja kjósenda, að standa gegn því að þjóðin fái að segja álit sitt á þessum samningi.
    Ég hef lýst því fyrr í umræðum og vil endurtaka það hér að ég held að það sé skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina að samþykkja tillöguna um þjóðaratkvæði því slík samþykkt mundi greiða mjög fyrir allri meðferð málsins, bæði hér á þingi og í þjóðfélaginu. Ég held að það muni reynast stjórninni mjög erfitt að vinna allt málið og ná því fram í heild sinni með öllum fylgifrumvörpum ef svo ríkur vafi leikur á um hið lýðræðislega umboð ríkisstjórnarinnar sem raun ber vitni til þess að samþykkja samninginn. Þess vegna vil ég nefna það hér við fyrri umræðu um þessa tillögu að ráðherrarnir, forustumenn stjórnarflokkanna og þingmenn stjórnarflokkanna, hugleiði hvort það kunni ekki að vera skynsamlegasta leiðin í allri meðferð málsins að láta þjóðina greiða atkvæði.
    Ég nefndi það fyrr í dag að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefði 16. apríl, rétt fyrir alþingiskosningar, lýsti því yfir á þeirri síðu Morgunblaðsins sem merkt var sérstaklega kosningunum að Íslendingar ættu að hefja tvíhliða viðræður við EB um lækkun tolla. Síðan er þessum viðhorfum lýst.
    Það er auðvitað alveg ljóst að þessi þingmaður Sjálfstfl., Einar K. Guðfinnsson, hann gaf enga yfirlýsingu um það á opinberum vettvangi fyrir kosningarnar að hann styddi EES-samninginn. Það lá líka ljóst fyrir að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gaf enga slíka yfirlýsingu og það liggur líka ljóst fyrir að Guðmundur H. Garðarsson, sá varaþingmaður Sjálfstfl., sem hefur svo hættulegar skoðanir að það hefur vakið athygli að ráðherrar og forustusveit Sjálfstfl. hleypir honum ekki inn á Alþingi þótt hann sé annar varaþingmaður flokksins. Það hefur vakið mikla athygli, á síðasta þingi og í haust, að þrátt fyrir miklar fjarvistir þingmanna og forustumanna Sjálfstfl. sem kjörnir eru í Reykjavík er þess vandlega gætt að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson komi ekki inn á þingið. ( ÓÞÞ: Það er mjög skiljanleg afstaða.) Það er auðvitað vegna þess að hann hefur m.a. í þessu máli lýst yfir eindreginni gagnrýni á þennan EES-samning, m.a.

út frá hagsmunum sjávarútvegsins.
    Þess vegna er það auðvitað fullkomlega út í hött og styðst ekki við nein rök hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að halda því fram að þeir sem kusu hv. þingmann Einar K. Guðfinnsson á þing, þeir sem kusu Matthías Bjarnason á þing og þeir sem kusu hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson á þing hafi verið að greiða atkvæði með EES-samningnum.
    Það hefur einnig gertst hér í umræðunum að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem því miður er ekki í salnum, hefur kosið að lesa aðeins lítinn hluta málsgreinar úr bréfi sem ég sendi Sjómannafélagi Reykjavíkur sem fjármálaráðherra 9. apríl. Það sýnir auðvitað best hve veikan málstað Sjálfstfl. hefur í þessu máli að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson skuli grípa til þessa bragðs að lesa aðeins fyrri hluta þessarar málsgreinar. Ég tel hins vegar rétt, fyrst hann dró þetta inn í umræðurnar, að draga það alveg skýrt fram hvað segir í þessari málsgrein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að lokum þykir ráðuneytinu rétt að benda á að í kjölfar fyrirhugaðs samnings um Evrópskt efnahagssvæði, svo og aðlögunar að þeim skattkerfisbreytingum sem verða í Evrópubandalaginu á næstu árum, má gera ráð fyrir verulegum breytingum á heimildum manna, bæði ferðmanna og farmanna, til að flytja tollfrjálsar vörur til landsins.``
    Hér kemur auðvitað alveg skýrt fram að vegna langvarandi samninga Íslands og Evrópubandalagsins um tollfrjálsar vörur og þess sem fyrirhugað er í samningi um Evrópskt efnahagssvæði sé, hvort heldur samningurinn verður gerður eða ekki, útilokað að Sjómannafélag Reykjavíkur geti náð fram sinni kröfu. Að lesa aðeins fyrstu tvær línurnar úr þessu bréfi og nota það til þeirra útúrsnúninga sem gert var í umræðunni undir dagskrárliðnum andsvar við ræðu sem ég flutti ekki, er auðvitað merkilegt dæmi um það til hve ómerkilegra bragða þingmenn Sjálfstfl. telja nauðsynlegt að grípa til í umræðunni um þjóðaratkvæði um EES-samning.