Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:31:43 (929)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er enn eitt dæmi um það hvað Sjálfstfl. telur sig vera illa staddan í þessari umræðu að þurfa að tína til þetta atriði og alveg greinilegt að hv. þm. Björn Bjarnason treystir sér alls ekki til að halda áfram málefnalegri umræðu um þau rök sem hann flutti sjálfur fram í umræðu. Hann er bara búinn að gefast upp í því og er svo kominn hér með alls konar ,,spíssfyndugheit``. Ég get hins vegar alveg svarað þessari spurningu þingmannsins þó að hún hafi ekkert með það mál sem hér er á dagskrá að gera.
    Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að afstaða Alþb. í EES-málinu hafi haft áhrif á þessa skoðanakönnun. Ég er alveg tilbúinn að ræða þessa skoðanakönnun, ef þingmaðurinn vill, undir sérstökum dagskrárlið, skoðanir mínar á henni og ýmislegt annað en mér finnst alveg sjálfsagt að virða þingmanninn svars fyrst hann telur það við hæfi að draga þetta inn í umræðuna.
    Um hið rétta eðli skal ég nú ekkert um segja. Hv. þm. er nú greinilega enn þá staddur á kaldastríðssíðunum í Morgunblaðinu. Það er mikil ógæfa fyrir hv. þm. að kalda stríðinu er lokið þegar hann sest á Alþingi. Hann á mjög erfitt með að fóta sig hér vegna þess og það er mjög vont að Bandaríkin eru að flytja herstöðvar sínar heim, m.a. farin með herstöðvarnar á Filippseyjum en þingmaðurinn hefur tekið sæti í nefnd um það að ræða við Bandaríkin hvernig herstöðvarnar geta verið hér áfram. Ég mun því umbera það með sálarró og kristilegu drenglyndi og skilningi að hv. þm. Björn Bjarnason munu þurfa nokkur ár til að átta sig á því að kalda stríðinu er lokið.