Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:35:14 (931)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir það með þingmanninum að við erum að ræða hér þjóðaratkvæðagreiðslu um EES. En hins vegar er það alveg óhjákvæmilegt þegar Sjálfstfl. telur nauðsynlegt að draga inn í þessa umræðu alls konar önnur atriði að víkja að þeim.
    Þingmaðurinn vísaði í viðtal við sig. Ég skal lesa obbann úr því hér upp og vek athygli manna á því að það birtist 16. apríl í fyrra, á þeim tíma sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur haldið fram að EES-samningum hafi að mestu leyti verið lokið. Hv. þm. Björn Bjarnason formaður utanrmn. er búin að segja hvað eftir annað hér í haust að á þessum tíma hafi EES-samningnum nánast verið lokið. Hvað er það þá sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er að leggja til? Hann er ekki að leggja til að EES-samningnir verði staðfestir, nei, þvert á móti. Hann er að leggja til að það verði hafnar allt aðrar samningaviðræður við Evrópubandalagið. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Íslendingar eiga að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um lækkun tolla á fiskafurðum enda höfum við öll tromp á hendi til að ná hagkvæmum samningum.`` Síðan segir: ,,Mín stefna í þessu máli er alveg klár og skýr. Sjálfstfl. mótaði á sínum tíma þá afstöðu að leita eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um lækkun á tollum á fiskafurðum.`` Og síðan áfram: ,,Hér á Vestfjörðum hafa menn séð í gegnum þennan tilbúning og hræðsluáróður og málflutningur okkar sjálfstæðismanna hefur hitt í mark.`` Þessi málflutningur á Vestfjörðum um tvíhliða samning hefur hitt í mark að dómi frambjóðandans. Og svo segir hann áfram: ,,Við göngum því óhræddir og uppréttir til þessara viðræðna en hörmum um leið að ríkisstjórnin skuli hafa kosið að ganga til EB-viðræðna án þess að leita umboðs Alþingis.``
    Með öðrum orðum, þingmaðurinn harmar það að ríkisstjórnin skyldi fara í EES-samningana, hann harmar það, en segir að þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum muni uppréttir krefjast tvíhliða samnings. Þetta getur auðvitað ekki verið skýrara.