Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:56:05 (939)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ályktana hv. síðasta ræðumanns út frá skoðanakönnun vil ég taka það skýrt fram að forsvarsmenn könnunarinnar gerðu grein fyrir því varðandi túlkun og mat á forsendum að þær upplýsingar, sem þar koma fram um afstöðu stuðningsmanna einstakra flokka í málinu, eru ekki marktækar af þeirri einföldu ástæðu að þar voru úrtakshóparnir svo fámennir í sumum tilvikum, en það er rétt að þetta er mat þeirra sem könnunina framkvæmdu þannig að um það verður ekkert ályktað með marktækum hætti.
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nota jafnframt tækifærið til þess að biðja hv. þm. að gæta að því að öll ummæli mér eignuð um það að telja þjóðina svo fávísa að ekki sé unnt að leggja þetta mál fyrir hana á þeim forsendum eru uppspuni, enda geta menn ekki fundið þeim orðum sínum stað en hafa þó hver á fætur öðrum tuggið þessa vitleysu upp.
    Ég vakti á því athygli í ljósi þeirrar könnunar sem gerð var að það er mat mjög mikils meiri hluta, þ.e. stærsta hlutans, þeirra sem spurðir voru að þeir töldu sjálfir að þekking þeirra á málinu væri lítil sem engin. Það er ekki mitt mat, það er mat þeirra sem svöruðu þessum spurningum eins og fram kemur í greinargerð um niðurstöður og á því er reginmunur. Það er með öðrum orðum ekki verið að kveða upp neina huglæga dóma, það er einungis verið að vísa til þess sem fram kemur af hálfu þátttakenda í skoðanakönnuninni sjálfri þar sem stærsti hópurinn segir einfaldlega hreint út að hann telji sig ekki hafa tilskilda þekkingu á málinu. Menn geta svo rætt hverju er um að kenna en þetta er einfaldlega niðurstaða af könnun og engir sleggjudómar að öðru leyti.