Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 16:00:13 (941)

     Ólafur Þ. Þórðarson :

    Herra forseti. Með leyfi forseta vil ég lesa upp á bls. 12 í hinni merku könnun sem utanrrn. lét gera. Þar segir svo um afstöðu Íslendinga, þar er ekki flokkað eftir kynjum heldur heildarafstaða sýnd:
    ,,Andstæðingar þátttöku Íslands í EES eru fleiri en fylgjendur hans, en 41,4% þjóðarinnar er sama eða tekur ekki afstöðu. Ef eingöngu er litið á karlmenn þá er staðan í járnum, báðir hóparnir jafnstórir, fylgjendur hársbreidd á undan. Konur eru færri fylgjandi en andstæðar en þar eru töluvert fleiri sem eru ekki búnar að gera upp hug sinn.``
    Það er aftur á móti mjög jákvætt að það kom fram hjá hæstv. utanrrh. að það er ekki staðfest í þessari könnun að meiri hluti Alþfl. styðji þetta. Það er mjög jákvætt að það er staðfest að svo er. Það er ekki meiri hluti Alþfl. sem styður þetta svo sannað sé. Ég tek mjög undir það með hæstv. ráðherra að hann vilji koma þessu á framfæri, því það eru mikilsverð atriði að menn geri sér grein fyrir þessu.
    Ég held aftur á móti að sé það rétt að það sé með rangindum á hæstv. ráðherra borið að hann telji þjóðina of heimska til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál þá finnst mér það ærið umhugsunarefni hvers vegna hæstv. ráðherra leggst gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvers vegna? Er það vegna þess að hann mundi líta á það sem svo stórt pólitískt áfall fyrir sig ef það yrði fellt og telur að frestur sé á illu bestur? Er það ástæðan?
    Það þýðir ekkert að tala um einhverja könnun frá 1945--1980 um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem er að gerast núna í þessum málum er það að Danir fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu um hluti sem eru hvorki einfaldari né flóknari en það sem hér er verið að greiða atkvæði um. Frakkar eru sömuleiðis að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Það vill nú svo til að Frakkland er forustuland í hópi lýðræðisríkja. Stjórnarskrá þeirra er að vísu örlítið yngri en sú bandaríska. Mig minnir að það skakki tveimur árum. En hvað um það, hvers vegna má íslenska þjóðin ekki sjálf kjósa sér örlög í þessum efnum? Er það vegna þess að í eðli sínu sé hæstv. ráðherra ekki lýðræðissinni, hann trúi á menntað einveldi og að það sé ákveðinn hópur manna sem eigi að hafa vit fyrir þjóðinni og hann, hæstv. ráðherra, sé einn af þeim mönnum sem eigi að hafa vit fyrir þjóðinni í þessum efnum og ráða þessu án þess að spyrja hana álits?
    Ég leitaði ekki eftir umboði hjá Vestfirðingum til þess að greiða atkvæði um EES. Ég hafði það alveg á hreinu að ég ætlaði ekki í EB. Ég mundi aldrei styðja slíkt. En mér finnst að miðað við stöðu og eðli máls hljóti það að vera íslenskum stjórnarháttum fyrir bestu að efla ekki til fjandskapar meðal þjóðarinnar með því að ætla að taka af henni ráðin og koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Að efla slíka andstöðu ekki heldur að virða þann sjálfsagða rétt íslenskrar þjóðar að hún eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka afstöðu til máls eins og þessa. Ég lít svo á að hæstv. utanrrh. sé að eðlisfari öfgalaus maður. Hann vilji halda rólegri íhugun og hann vilji taka tillit til þess sem sumir vilja kalla að vera raunsæismaður í stjórnmálum. Sjálfur hefur hann lýst því yfir opinberlega að hann sé raunsæismaður í stjórnmálum. Er eitthvert raunsæi í því að ætla að þvinga fram undirskrift við þennan samning í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar? Er eitthvert raunsæi í því? Vinnst eitthvað með slíkum vinnubrögðum? Er það einhverjum til farsældar? Það er hægt að haga þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eins og margoft hefur komið fram á þann veg að ríkisstjórnin getur setið sem fastast, yfirgefið villu síns vegar í þessum efnum, en setið sem fastast og þeir sem eru haldnir mestri kjósendahræðslu og telji að þeir muni snarfalla verði almennar kosningar núna þurfa ekki að hafa áhyggjur. En rökin fyrir því hvers vegna menn vilja ekki styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál hafa ekki komið fram í umræðunni. Það hefur verið beðið eftir þeim en þau hafa ekki komið fram.