Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 16:07:35 (942)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir rösklegt og málefnalegt starf að þessu máli. Nefndin hefur fjallað um það samhliða frv. sem lagt var fram um nýskipan Kjaradóms. Um þann þátt verður fjallað áfram í nefndinni eftir þinghlé og reynt að leita leiða til þess að nýskipan þessara mála verði þannig að sem mest sátt ríki þar um.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. Á fund hennar komu fjölmargir aðilar og listi yfir þá fylgir nál.
    Umræður um þetta mál hafa annars vegar tekið mið af því að menn hafa ekki verið sammála um hvort brýna nauðsyn hafi borið til þess að setja þessi lög með þeim hætti sem gert var. Hvort það hefði

átt að kalla saman þing til að afgreiða málið eða hvort ríkisstjórnin hefði gert rétt eða rangt með því að afgreiða þetta með bráðabirgðalögum.
    Í rauninni hlýtur það alltaf að vera mat ríkisstjórnarinnar hverju sinni hversu brýn nauðsynin er og hún þarf þá að bera ábyrgð á því mati annað hvort fyrir dómstólum eða þinginu sjálfu. Ef menn telja almennt að ríkisstjórnin fari út fyrir sitt umboð með setningu bráðabirgðalaga þá er eðlilegt að um það sé fjallað á almennum grundvelli og menn íhugi það hvort síðusta breyting, sem gerð var á þessum málum, hafi dugað og menn hugsi þá til framtíðarinnar frekar en að ræða kannski svo ákaft í tengslum við þetta frv. En meiri hlutinn telur að það hafi verið efnisleg nauðsyn að gera eitthvað í málinu eftir að kjaradómurinn var fallinn og þess vegna hafi brýna nauðsyn borið til að setja bráðabirgðalög og mælir þess vegna með að þau verði staðfest hér á hv. Alþingi.