Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 17:02:40 (950)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns. Það hefði verið mjög fróðlegt ef formaður efh.- og viðskn. hefði komið og flutt einhver rök fyrir niðurstöðum meiri hlutans. Nefndarálitið er ákaflega stuttaralegt. Satt best að segja er það gestalisti nefndarinnar og niðurstaða meiri hlutans og punktur. Það eru auðvitað mikil vísindi út af fyrir sig að fá að vita það hvaða menn komu þarna í heimsókn en það segir mér ekki mikið meira um það hver þessi brýna nauðsyn var.
    Ég er aðili að áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. og þarf því ekki að hafa hér mjög mörg orð. Ég vísa til þess sem hv. 1. þm. Austurl. sagði í framsöguræðu fyrir nefndarálitinu og eins til þess sem ég sagði við 1. umr. um þetta mál. Þá fór ég m.a. ítarlega yfir aðdraganda þess og þóttist sýna fram á það með sæmilegum rökum að fjarri færi því að hægt væri að segja að sú brýna nauðsyn hefði legið við og

enn síður að nokkrir þeir meinbugir hefðu verið á því að kalla Alþingi saman sem ættu að geta hindrað það að slíkt hefði verið gert og menn þar með sloppið við að grípa til hins umdeilda bráðabirgðalagavalds.
    Það liggur í eðli frumvarpsins sjálfs um bráðabirgðalögin eða í sjálfum bráðabirgðalagatextanum að um mánuður var til stefnu frá því að lögin voru gefin út og þangað til fyrstu eiginlegu réttaráhrif þeirra áttu að koma til sögunnar, þ.e. Kjardómur hafði í framhaldi af bráðabirgðalagasetningunni næstum mánuð til þess að kveða upp sinn nýja núrskurð. Það segir sína sögu um það að tímaleysi eða tímaþröng var ekki til að dreifa, eins og ríkisstjórnin kaus að fara í málið, sem hefði átt að koma í veg fyrir það að þingið kæmi saman.
    Herra forseti. Það hefur þegar verið farið yfir það af hv. 1. þm. Austurl. með ágætum tilvitnunum í málflutning manna fyrir rétt rúmu ári síðan hvað var í hugum hv. alþm. þegar stjórnarskránni var breytt síðast. Sú breyting var staðfest hér á Alþingi, m.a. af nýkjörnum þingmönnum þessa kjörtímabils sem höfðu sumir skoðun á þessu máli eins og hv. 3. þm. Reykv., sem er nú flúinn úr salnum.
    Ég ætla ekki að taka hér langan tíma en þó get ég ekki neitað mér að endurtaka sumt af því sem hv. 1. þm. Austurl. las upp, svo yndislegar eru þær tilvitnanir m.a. í hv. 3. þm. Reykv. og með hliðsjón af því að það eru ekki nema rétt liðlega ár liðið síðan hv. þm. var að stíga sín fyrstu spor hér á Alþingi og flutti nokkuð vel samdar ræður, m.a. um þessa stjórnarskrárbreytingu og tilganginn með henni. Hv. þm. segir m.a. í umræðum um stjórnskipunarlögin á Alþingi þann 15. maí 1991, með leyfi forseta:
    ,,Ég held að það sé sé mjög brýnt að það komi fram í umræðu um þennan lið, þessa 6. gr. í frv. til stjórnarskipunarlaga, að með þessu líta menn þannig á að það sé verið að þrengja möguleika ríkisvaldsins til að gefa út bráðabirgðalög.``
    Síðar sagði þessi hv. 3. þm. Reykv., sem væri nú ástæða til að þingverðir gerðu viðvart um að verið væri að vitna í gullkorn hans frá fyrri tíð:
    ,,En mér finnst nauðsynlegt að það komi fram í umræðum að þessi skilningur er lagður í þessa breytingu því eins og stjórnarskrárgreinin verður orðuð eftir þessa breytingu þá er látið í vald ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar að túlka hana en það er, eins og hér hefur komið fram áður, ætlunin að þrengja þetta vald og það verði gert í framkvæmd einnig og tekið mið af því sem fram kemur í umræðum hér um það mál.``
    Hv. 3. þm. Reykv. var að fara fram á það að við mat á því hvort rétt væri eða réttlætanlegt að grípa til bráðabirgðalagavaldsins yrðu umræður um afgreiðslu málsins á þinginu lögskýringargögn, að það yrði beinlínis farið eftir þeim vilja sem alþingismenn, framsögumenn með málinu og þeir sem tóku þátt í umræðum um það þegar það var til staðfestingar eftir kosningar segðu. Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um þetta atriði. Það er full ástæða til þess þegar vandasöm álitamál af þessu tagi eru til skoðunar að farið sé ofan í það hvað vakti fyrir löggjafanum, hvaða sjónarmið fylgdu afgreiðslu málsins af hálfu talsmanna stjórnmálaflokkanna, framsögumanna nefnda o.s.frv. Það er það sem hv. 3. þm. Reykv. var að fara fram á, að í framtíðinni við mat á því hvort réttlætanlegt væri að setja bráðabirgðalög eða kalla bæri Alþingi saman yrðu umræðurnar á Alþingi og sjónarmið manna sem þar komu fram höfð til hliðsjónar. ( ÓRG: Hann hlýtur að standa við það.) Það er auðvitað svo yndislegt, herra forseti, að hafa svona tilvitnanir í menn sem svo koma fram með þeim hætti sem hv. 3. þm. Reykv. gerði. Ef hægt er með einhverju móti að standa málflutningslega séð berrassaður, herra forseti, er það gert með þeim hætti sem hv. 3. þm. Reykv. gerir hér. Gjörsamlega í glerhúsi.
    Ekki er það dónalegt fyrir hæstv. menntmrh. að hafa í þingtíðindunum þau gullkorn sem hann lét falla og hann var enginn smálax í þessari umræðu. Hann hafði hvorki meira né minna en verið formaður þingflokks Sjálfstfl. og foringi fyrir starfinu um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Eins og áður hefur verið vitnað til, hygg ég, sagði hann m.a. þegar hann var að gera grein fyrir þeim breytingum sem eru að verða:
    ,,Í fyrsta lagi að þingið mun starfa allt árið og í einni málstofu sem er auðvitað mjög veigamikil breyting. Ég tel líka að sú breyting út af fyrir sig hafi það í för með sér að útgáfa bráðabirgðalaga ætti því sem næst að vera úr sögunni ef ekki alveg.``
    Eini efinn sem var í huga hæstv. menntmrh. varðandi þetta var hvort útgáfa bráðabirgðalaga yrði alveg úr sögunni eða því sem næst. Annað komst ekki að í hans huga. Svo eru þessir miklu snillingar, hæstv. menntmrh. og hv. 3. þm. Reykv., stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar, sem hegða sér eins og hún gerði hér á síðasta sumri.
    Herra forseti. Það er þannig að maður veit ekki almennilega hvort maður á að hlæja eða gráta þegar maður fer yfir þessa texta og heyrir svo aumkunarverðan málflutning eins og frá hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við þetta mál og andsvarstilraunir hans. Það er eins og hann sé kominn á sérstakt kaup við það hjá stjórnarliðinu að rjúka upp í andsvör í öllum málum, alveg sama hvað er á dagskrá, eins og hann fái sérstakan bónus fyrir það að fara alltaf í andsvör í öllum málum. Hv. 3. þm. Reykv. hafði smekk í sér til að koma hér upp í andsvörum einmitt í þessu máli þar sem hann á þennan prýðilega feril að baki.

    Herra forseti. Ég dreg efnislega ekki dul á að það var að mínu mati óhjákvæmilegt að grípa inn í þessa óhönduglegu atburðarás sem orðin var í framhaldi af óvæntum tíðindum í úrskurði Kjaradóms. Ég ræði þessi mál algerlega aðskilin nú eins og ég gerði við 1. umr. málsins, hinn efnislega þátt þess og þá stöðu sem þarna var uppi annars vegar, nauðsyn þess að afstýra því að upplausn skapaðist á vinnumarkaði og hins vegar beitingu bráðabirgðalagavaldsins. Það voru ýmsar aðrar leiðir færar til þess að grípa inn í þessa þróun. Ég hef áður bent á þann möguleika að fleira kom til greina en að beyta de facto-úrskurði Kjaradóms með lagasetningu eins og þarna var gert, de facto, ekki de jure, hæstv. fjmrh. ( Gripið fram í: Verður ekki að tala íslensku í ræðustól?) Það má nota klassískar latneskar tilvitnanir, hv. þm. Fyrir því er löng hefð hér.
    Hins vegar mátti hugsa sér ýmislegt annað en þetta. Ég ætla ekki að gera það að miklu máli en út af fyrir sig hefði frestunaraðgerð líka komið til greina eða einhvers konar gerð sem stundum er talin mildari eða skárri aðferð þótt það sé ekki venjuleg hugsun að ætla að setja gerð á annan dóm. En ég er heldur ekki að tala gegn því að reynt hefði verið að endurskilgreina þær forsendur sem Kjaradómur starfaði eftir og hann síðan eða annar slíkur aðili látinn taka slíka ákvörðun með vísan til þeirrar miklu nauðsynjar að afstýra upplausn á vinnumarkaði. Þetta held ég að menn hefðu einfaldlega leyst. Það hefur ekkert komið fram, hvorki þá eða síðar, sem bendir til annars en að vilji hafi verið fyrir hendi af hálfu allra stjórnmálaflokka að setjast yfir það mál. Ég fullyrði að svo var.
    Á hinn bóginn dreg ég heldur ekki í efa að Kjaradómur hafði ýmis rök fyrir breytingum í þá átt sem hann úrskurðaði og á grundvelli þeirra laga sem honum var gert að starfa eftir þá. Það má hins vegar miklu frekar að mínu mati deila um það, ef menn vilja gagnrýna störf Kjaradóms á annað borð, hvort hann hefði ekki í fyrsta lagi átt að vera búinn að gera ýmsar lagfæringar á kerfi sem bersýnilega var fyrir lifandi löngu sundur grafið. Í öðru lagi hvort þarna voru ekki á ferðinni allt of miklar breytingar í of stóru stökki og það við aðstæður á vinnumarkaði sem gerðu það bersýnilega ómögulegt að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd. Þegar allar aðstæður málsins eru skoðaðar er ég alveg sammála þeim sem segja að þarna var mönnum vandi á höndum. --- Nú er hér gleðilega mættur hv. 3. þm. Reykv. Hann hefur að vísu misst af því að vitnað var í nokkur gullkorn sem hann lét falla hér á Alþingi síðasta vor. (Gripið fram í.) Ég verð þá að hryggja menn með því að ég mun ekki endurtaka það úr því að þetta náðist allt saman. ( BBj: Það eru vitni að því að ég hlustaði á það.) Ég rengi ekki orð hv. 3. þm. Reykv. um þetta. (Gripið fram í.) Mergurinn málsins er auðvitað sá, herra forseti, að það liggur í augum uppi að við þessar aðstæður átti Alþingi að koma saman. Það sem mér finnst, ég skal svo ekki hafa um það fleiri orð, er að það er óþolandi ef þetta á að verða eitthvert fordæmi í sambandi við beitingu bráðabirgðalagaréttarins á grundvelli hinna nýju stjórnarskrárákvæða. Það er óþolandi vegna þess að það væri bersýnilega í andstöðu við vilja Alþingis þegar þær breytingar voru samþykktar. Það væri í algerri mótsögn við orð hv. 3. þm. Reykv., fullkominni mótsögn við orð hæstv. menntmrn., hv. 1 þm. Austurl., hv. 4. þm. Suðurl. og ég held bara allra annarra talsmanna sem fyrir hönd flokkanna komu fram í þessari umræðu. Þeir luku upp einum rómi um það að verið væri að takmarka valdið. Ég held því að annað tveggja verði að liggja alveg ljóst fyrir hér, að þetta sé ekki fordæmi og að þetta sé ekki eftirbreytnivert. Menn líti svo á að eftir sem áður hafi það verið vilji Alþingis að þrengja þennan rétt og ef svo er ekki verði menn ósköp einfaldlega að grípa til ráðstafana til þess að tryggja að svona umgangist menn ekki stjórnarskrárákvæðin framvegis.
    Ég fór, herra forseti, yfir hið dæmalausa hringl í hæstv. ríkisstjórn þegar þetta mál var á döfinni á síðustu dögum júnímánaðar og fram til 3. júlí og ég ætla ekki að endurtaka það sem ég vitnaði til þá. Ríkisstjórnin fór a.m.k. í tvo og hálfan hring. Henni datt í hug að setja bráðabirgðalög, komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri ótækt, kæmi ekki til greina, ætlaði að grípa inn í og gera eitthvað í málinu, skrifaði Kjaradómi, fékk nei frá honum, komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert hægt að gera fyrr en þing kæmi saman að hausti, breytti svo um skoðun og komst að þeirri niðurstöðu sem hún hafði upphaflega hafnað að það væri rétt að setja bráðabirgðalög. Hún gerði það á kvöldfundi og það lá svo mikið við að forseti lýðveldisins var gripinn uppi á Akranesi þar sem hún var í heimsókn og látin skrifa undir þó svo að lögin ættu engin áhrif að hafa fyrr en mánuði síðar. Þetta er allt saman skráð og stendur og segir allt sem segja þarf um vinnubrögðin á þessu stjórnarheimili sem eru auðvitað orðin fræg að endemum, ekki síður nú síðustu dagana en þegar þetta var.
    Það rekur nú að því, eins og menn vita, að hæstv. forsrh. geti orðið einn í ríkisstjórninni því að hann tók að sér sjávarútvegsmálin eða var afhent þau af hæstv. sjútvrh. fyrir tveim kvöldum síðan. Í hádeginu í gær kom í ljós að hann hefur líka tekið yfir iðnrn. og er nú tekinn til við að semja um erlend álver eða ganga frá því hér að fá þau inn í landið og hæstv. iðnrh. er kominn í önnur störf. Við þingmenn bíðum auðvitað mjög spenntir eftir því hvaða ráðuneyti hæstv. forsrh. tekur að sér næst. Það verður mjög fróðlegt. E.t.v. tekur hann fjmrn. Því ekki það, hæstv. fjmrh.? Ég verð að segja það að ég hef áhyggjur af vini mínum fjmrh., að hann sé orðinn þreytulegur núna eftir þessa fjárlagavinnu. Væri ekki alveg upplagt að hann færi í frí og hvíldi sig og hæstv. forsrh. tæki við fjmrn. til viðbótar sjútvrn. og iðnrn.? Þá þyrfti hæstv. fjmrh. a.m.k. ekki að upplifa þau dapurlegu örlög að ljúka afgreiðslu þessa lagafrv. hér á þinginu

sem því miður mun verða honum til lítils sóma.
    Ég vil að lokum segja, herra forseti, að það er einn hópur manna sem ég tel ástæðu til að nefna við afgreiðslu þessa máls þó að það bíði svo betri tíma að ræða hagi hans að öðru leyti, þ.e. þess tíma að frv. til laga um Kjaradóm komi til efnislegrar umfjöllunar hér á nýjan leik, mál sem nú er í hv. efh.- og viðskn. Þetta eru prestar landsins. Það er alveg óhjákvæmilegt að nefna það hér án þess að ég ætli að fara ítarlega yfir það á þessu stigi málsins að þar er í raun og veru um alveg sérstaklegar og óvenjusnúnar aðstæður að ræða þar sem er sú hrakfallaganga sem prestastéttin hefur mátt þola varðandi sín launamál allmörg undanfarin ár. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að með einhverjum hætti verði gert mögulegt á þessu þingi að taka á þeim málum, þó ekki væri annað en launamál prestastéttarinnar. Ég held að allir sanngjarnir menn, sem skoða hvernig prestar hafa farið út úr sviptingum í kringum sín launakjör undanfarin ár, hljóti að sjá að þannig er ekki hægt að fara með neina stétt. Prestar bjuggu við það um árabil, það er staðfest og því er ekki neitað, að þeirra aðstæður voru að mati fjmrn. svo sérstakar að þeir fengu ekki ýmsar lagfæringar á launatöxtum eða starfskjörum sem aðrar stéttir, sem flokkuðust sem opinberar, voru að fá á sama tíma. Svörin voru þá gjarnan þau af hálfu fjmrn.: Starf prestastéttarinnar er svo sérstakt og ósambærilegt við aðra starfsmenn hins opinbera sem hér eiga í hlut að þetta getur ekki komið til þeirra.
    Ég vil að þetta komi hér fram vegna þess að þetta hafa prestarir borið vitni um og sýnt fram á að mínu mati þannig að því hefur ekki verið neitað að þeirra aðstaða var að ýmsu leyti önnur meðan þeir áttu að taka laun með sambærilegum reglum og opinberir starfsmenn, ég vil ekki segja aðrir vegna þess að prestar eru í raun og veru starfsmenn þjóðkirkjunnar sem er ekki ríkiskirkja. Þeir fengu ekki ýmsar lagfæringar og ýmsar breytingar á starfskjörum sem aðrar stéttir voru að fá á sínum tíma. Ég er hér að tala um nokkurt árabil á síðustu árum. Síðan urðu prestar að sjálfsögðu eins og aðrir opinberir starfsmenn fyrir því að þeirra kjarasamningar lentu í hremmingum sem þekktar eru og lagfæringar sem þeir bundu þar vonir við að fá náðu ekki fram að ganga vegna erfiðra aðstæðna sem menn þekkja. Að síðustu þegar þeir hafa fengið eftir nokkurn barning þann vilja sinn fram að falla undir Kjaradóm, að leggja úrskurð sinna launamála í hlutlausa gerð, verða endalok þess máls þau sem hér um ræðir, hún er tekin af með lögum. Hvort sem menn telja nú að leiðréttingin til handa þeim hafi verið sanngjörn að öllu leyti, hluta til eða að engu leyti í fyrri úrskurði Kjaradóms, verður hinu aldrei á móti mælt að hún var tekin aftur. Þannig hefur þetta gengið til fyrir prestunum í hnotskurn rakið á undanförnum nokkrum árum. Mér er það a.m.k. vel ljóst fyrir mitt leyti og er sannfærður um það eftir að hafa skoðað þetta og m.a. áttað mig á því hversu hrakleg laun presta í raun og veru eru miðað við óreglulegan vinnutíma, að mörgu leyti vandasamt starf og það álag sem getur fylgt því að vera þjónn almennings við ýmsar erfiðar aðstæður eins og prestar eru. Þetta eru óboðleg launakjör og það verður að takast að breyta þeim. Afleiðingin er auðvitað sú, eins og menn þekkja, að flestallir prestar landsins, a.m.k. þeir sem í minni eða rýrari prestaköllum starfa, þurfa að hafa ofan fyrir sér og sínum með viðbótarvinnu. Þess vegna er það alsiða að prestar bæti við starf sitt álagi í annarri launavinnu, kennslu eða öðru því um líku.
    Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég svo að geyma mér efnislegar umræður um þetta þangað til og ef hér kemur aftur til umfjöllunar frv. til laga um breytingar á lögum um Kjaradóm þar sem þessum málum verður skipað til frambúðar og vonandi með farsælum hætti þannig að uppákomur af því tagi sem hér hafa nú orðið og eru auðvitað hinar óhönduglegustu í öllu tilliti og fyrir alla hlutaðeigendur, ekkert síður alþingismenn sem stétt en aðra sem hér áttu mál að, þurfi ekki að endurtaka sig. Ég held að það sé mikið tilvinnandi að sæmilegur friður geti ríkt um kjör æðstu embættismanna þjóðarinnar og þau geti með einhverjum sanngjörnum og skynsamlegum hætti ákvarðast þannig að allt þjóðfélagið þurfi ekki að standa endalaust á haus út af þeim, annaðhvort vegna þess þegar verið er að ákvarða þau eða hins, sem við sem hér eigum hlut að máli höfum lengi búið við og gerum sjálfsagt lengi að launakjör okkar, starfskjör og starfsskilyrði séu endanlaus tannamatur fjölmiðla og fleiri.