Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 17:28:18 (953)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vísa til þess nefndarálits sem ég hef skrifað hér undir, 1. minni hluta efh.- og viðskn., varðandi afstöðu mína til þessa máls. Ég mun ekki fara efnislega mikið í málið. Ég gerði það að nokkru við 1. umr. og mun síðan gera það við umræðu um það hliðstæða mál sem hér er sem er frv. um breytingar á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég mun ekki ræða hér um einstaka starfshópa og/eða þeirra kjör.
    Það sem ég ætla að taka hér fyrir er rökstuðningur hæstv. fjmrh. fyrir því að ekki var hægt að kalla Alþingi saman til að ræða málið. Sá rökstuðningur sem ráðherra hafði í frammi í sinni framsöguræðu var eitthvað á þann veg að það væri ekki hægt vegna þess að það hefði tekið allt of langan tíma. Starfshættir Alþingis væru þannig að það hefði ekki verið hægt. Hæstv. ráðherra taldi að það vantaði ákvæði í þingskapalög þess efnis að Alþingi kæmi saman og afgreiddi mál á afmörkuðum tíma. Hann vitnaði til danskra þingskapalagalaga í því sambandi þar sem hægt væri að kalla þing saman og það gæti afgreitt einstök mál á mjög skömmum tíma. Þetta hefur verið rætt hér í öðru samhengi. Hæstv. utanrrh. fór með tölur um það hve löngum tíma norska þinginu var ætlað að verja við lokaafgreiðslu á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og bar það saman við þann tíma sem færi í þá afgreiðslu hér í þingsölum. Í þessari tilvitnun hans var mörgum spurningum ósvarað. Því var m.a. ósvarað á hvern hátt nefndarstörf færu fram í norska þinginu og hvort þetta væri kannski þannig að á nefndarfundum hefðu þingmenn tækifæri til þess að fá afstöðu sína bókaða inn í þingtíðindi en við þingmenn á Íslandi verðum að nota ræðustól Alþingis, fundi í Alþingi, til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri opinberlega í gegnum þingtíðindi. Þessir hlutir og margir aðrir þurfa að fylgja með þegar menn ræða um starfshætti Alþingis. En nú er það svo að í þingskapalögum 57. gr. eru ákvæði þess efnis að forseti geti takmarkað ræðutíma og borið það undir þingheim. Að mínu mati bendir allt til þess miðað við þann mikla vilja sem var til þess að hætta að beita bráðabirgðalagaákvæðinu, miðað við allan þann vilja sem kom fram í umræðum þar að lútandi að samstaða hefði getað náðst um það á Alþingi að koma saman og afgreiða málið á skömmum tíma og láta reyna á þetta ákvæði þingskapalaganna.
    Það er svo aftur annað mál hversu vel hæstv. fjmrh. ferst að gagnrýna málalengingar á Alþingi. Ég man þá tíð að hæstv. ráðherrann, þá hv. þm., notaði þann rétt stjórnarandstöðumanns að tefja fyrir málum ríkisstjórnar með löngum ræðum í þingsalnum til hins ýtrasta. Á síðasta vetri las ég nokkuð upp úr ræðum ráðherrans við afgreiðslu laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði frá haustinu 1989 þar sem hann og aðrir þingmenn Sjálfstfl. notuðu það mál til margra daga eldhúsdagsumræðu um efnahagsmál til viðbótar því að leggja þar fram till. með sem sýndi sig svo þegar þeir voru komnir í ríkisstjórn að þeir gátu á engan hátt staðið við og höfðu sjálfsagt aldrei ætlað sér að væri staðið við.
    Það er einu sinni svo að umræður um að takmarka ræðutíma á Alþingi og umræður um málalengingar á Alþingi fá engan hljómgrunn á meðan ríkjandi stjórnarflokkar túlka stöðu Alþingis á þann hátt

að þar sé fyrst um að ræða afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnir. Þetta hefur komið mjög berlega í ljós í allri umræðu um forsætisnefndina. Þar fékkst engin lausn önnur en sú að stjórnarflokkarnir hefðu meiri hluta í forsætisnefnd og verður það ekki túlkað á annan hátt en þann að þeir skilji þingræðið þannig að meiri hluta þingsins sem stendur að baki ríkisstjórn geti verið nauðsynlegt að beita pólitísku meirihlutavaldi við stjórn þingsins. Á meðan svo er hefur stjórnarandstaða enga aðra vörn en nota það ótakmarkaða málfrelsi sem hér er.
    Þetta sjónarmið núv. meiri hluta hefur einnig komið berlega í ljós varðandi erlend samskipti Alþingis. Þar hefur með einni lítilli undantekningu ekki verið hægt að ræða um annað og ekki annað í mál tekið en að meirihlutaflokkarnir færu með forustu fyrir öllum sendinefndunum þrátt fyrir það að eðli málsins samkvæmt sé Alþingi þarna að koma saman sem sjálfstæð íslensk stofnun út á við en ekki á nokkurn hátt sem fulltrúi þess meiri hluta sem ræður á hverjum tíma. Á þessu var að mínu mati ekki tekið við þær breytingar á starfsháttum Alþingi sem gerðar voru á síðasta ári. Þetta var rætt en þeirri vinnu var aldrei lokið. Ráðherrar, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh., hafa vitnað til starfshátta danska og norska þingsins. En þeir hafa ekki sagt nema hálfa söguna. Þeir hafa ekki sagt frá því að þar eru allt aðrir starfshættir. Þar er allt gert til að gera þjóðþingin sem sjálfstæðust gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er m.a. með skipan forsætisnefndar sem er á þann hátt að þar eiga stærstu flokkarnir fulltrúa svo lengi sem fjöldi forsætisnefndarmanna endist. Eðli málsins samkvæmt er þar engin trygging fyrir því að þar sé sá sami pólitíski meiri hluti og fer með ríkisstjórn á hverjum tíma. Meira að segja er gengið svo langt að um árabil hefur forseti norska þingsins verið stjórnarandstæðingur. Slíkt hefur iðulega komið upp í Danmörku og reyndar Svíþjóð líka. Sömuleiðis eru starfshættir þessara þjóðþinga á þann hátt að formennska fyrir nefndum skiptist bæði á stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Eins og framkvæmdin er hér, þar sem er talið ómögulegt annað en að meirihlutaflokkarnir hafi meiri hluta í forsætisnefnd og fari með forustu í öllum þingnefndum og öllum alþjóðanefndunum að einni lítilli undanskilinni, er slík framkvæmd mistúlkun á þingræðinu að mínu mati og reyndar ætti ég kannski að taka meira upp í mig og segja að þetta sé misþyrming á þingræðinu. Það er kannski fyrst og fremst vegna þessara hluta sem núv. hæstv. ríkisstjórn treysti sér ekki til þess að kalla Alþingi saman á því sumri sem nú er nýliðið.
    Nú finnst kannski einhverjum að ég sé kominn út fyrir efni þess máls sem hér er til umræðu. En ég held þessa ræðu vegna framsöguræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann --- af því hann heyrði ekki upphafsorð mín --- beitti þessu sem meginrökum fyrir því að ekki hefði verið hægt að kalla Alþingi saman því að það hefði tekið allt of langan tíma. Ég held þess vegna að þeir sem vilja ræða um skerðingu málfrelsis á Alþingi verði að taka allt málið fyrir. Þeirri umræðu verður að fylgja það að taka til endurskoðunar aðra starfshætti þingsins, þá starfshætti sem ég nefndi fyrr í minni ræðu. Á meðan ríkisstjórn er við völd sem túlkar þingræðið á þann hátt að því fylgi að stjórnarflokkarnir hafi forustu í öllum stofnunum og nefndum þingsins bæði inn á við og út á við er málið í sjálfheldu. Á meðan lítur stjórnarandstaðan á óbreytt ástand sem síðustu vörn sína, samanber veturinn 1989--1990 sem ég hafði vitnað í áður og ég get vitnað í til viðbótar þegar minni hluti á Alþingi hélt ræður dögum saman svo mörgum klukkutímum skipti, hver einstaklingur, til að koma í veg fyrir það að ákveðinn aðili gæti sest með ráðuneyti sitt í þásitjandi ríkisstjórn. Þetta var einhver angi af pólitísku uppgjöri í Reykjaneskjördæmi. Ég held líka að hæstv. ríkisstjórn sé hollt að líta til reynslu síðustu daga. Síðustu daga hefur því háttað þannig að aðalforseti hefur verið úr röðum stjórnarandstæðinga. Það er einfaldlega vegna þess að þegar fyrsti forseti er fjarstaddur tekur sá við sem næstur er í röðinni samkvæmt þingstyrk. Ég held að mönnum sé hollt að horfa á reynslu þessara daga og þá held ég að hæstv. ríkisstjórn muni nú átta sig á því að það hefur á engan hátt tafið fyrir framgangi mála ríkisstjórnarinnar nema síður sé. Við höfum kannski fundið hérna eilítinn forsmekk af því hvernig ástandið gæti verið ef sjálfstæði Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu væri skert. Ég get þess vegna sagt það hér sem lokaorð mín að ef hæstv. fjmrh. telur að þessir starfshættir á Alþingi séu það sem komi í veg fyrir það að hægt sé að kalla Alþingi saman þegar það er í fríi, þegar þinghlé er, til að taka á brýnum málum þá er sá sem hér stendur tilbúinn til að taka þátt í vinnu við breytingar. En þá verður að líta á málið í heild samkvæmt því sem ég hef lýst í ræðu minni. Það verður þá að byggjast á því að sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu verði styrkt. Þá verður hæstv. ríkisstjórn að snúa við blaðinu og hætta að líta á Alþingi sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Eðli málsins samkvæmt geta hlutirnir ekki verið þannig að afstaða til þessa máls skiptist þannig að það sé núv. stjórnarandstaða sem ekki vilji breytingar en stjórnarliðið knýi á. Á meðan ástandið er óbreytt verður það stjórnarandstaðan sem mun stíga mjög fast í ístöðin ef á að fara að skerða málfrelsi. Því verður að fylgja breyting á heildarstarfsháttum Alþingis í þá veru sem ég hef nefnt hér fyrr í minni ræðu.