Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:27:24 (962)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég viðurkenni að það er tíðkað m.a. í lögfræði að gagnálykta frá því sem menn segja eða segja ekki. En ég vil aðeins að það komi hér fram að það má ekki gagnálykta frá því sem ég sagði og sagði ekki hér áðan. Það eru auðvitað til lögfræðingar sem bentu á þessa leið. Ég kæri mig ekkert um að tala um þá eða nefna. Það liggja þrjú lögfræðiálit fyrir sem ég tel að nægi. Um samninga við stjórnarandstöðuna skal ég láta það koma fram að við töldum eðlilegra að við bærum sjálfir og einir ábyrgð á þessum verknaði og vildum gera það og teljum að við höfum gert það með þeim hætti sem eðlilegastur er enda verða þessi bráðabirgðalög til afgreiðslu hér væntanlega í kvöld eða á morgun og þá sést hvort við höfum þann meiri hluta sem þarf.