Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 18:28:30 (963)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé nú löngu ljóst að það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er löglegt að setja bráðabirgðalög. En það fer mjög svo eftir efni þeirra laga hversu mikilvæg þau eru. Og auðvitað er það hárrétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að með lögskýringum má greinilega sjá þrengingu á því hvenær þykir verjandi að setja bráðabirgðalög.
    En ég ætla að halda mig við þennan lagatexta sem ég á að fara að greiða atkvæði um. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað það þýði sem hér stendur:
    ,,Telji Kjaradómur ástæðu til að gera sérstakar breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa skal þess gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði.`` Hvern á Kjaradómur að spyrja um hvort líkur séu á röskun á vinnumarkaði? Á hann að spyrja forseta ASÍ? Á hann að spyrja framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins? Á hann að spyrja forseta BSRB? Eða hvern á hann að spyrja? Á hann að fara út og spyrja manninn á götunni? Hvort er Kjaradómi falið að ákveða laun þeirra einstaklinga sem hér er getið um í lögunum eða alþingi götunnar eins og það hefur stundum verið kallað. Ef svo er að forustumenn launþegasamtaka og vinnuveitenda eiga að hafa veruleg áhrif á niðurstöðu Kjaradóms, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þá væri ekki ráð að breyta lögunum þannig að þessir mætu herrar sætu í Kjaradómi. Til hvers erum við að hafa Kjaradóm sem er skipaður fimm dómendum? Einn skal vera lögfræðingur og formaður dómsins. Kjaradómur skal skipaður fimm dómendum. Hæstiréttur skipar þrjá, fjmrh. einn og félmrh. einn. Til hvers er verið að skipa þessa nefnd ef forustumenn verkalýðssamtaka eða alþingi götunnar á að ráða hvaða niðurstöðu þeir komast að?