Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 20:59:21 (986)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem við erum að fjalla um er ekki langt að efni til en það kemur inn á atriði sem mér finnst full ástæða til að taka fyrir. Áður en ég vík máli mínu að þessu tiltekna frv. vil ég fyrst fá að gera almenna athugasemd er varðar umfjöllun mála sem við koma EES. Okkur stjórnarandstæðingur hefur nefnilega verið legið á hálsi fyrir að tefja umfjöllun þessara mála. Ég held að reynsla undanfarinna daga geti ekki staðfest það en það er hart að sitja undir því. Ég tel þetta mjög ósanngjarna gagnrýni, einkum vegna þess að við lýstum okkur reiðubúin til vinnu um EES-frumvörpin í sumar --- ég er reiðubúin að bíða meðan kyrrð er að komast á í salnum. --- Ég var þar komin í máli mínu að ég var að gera grein fyrir því að við stjórnarandstæðingar lýstum okkur reiðubúin samkvæmt samkomulagi til vinnu um EES-frumvörpin nú í sumar, þvert ofan í venjuleg þingsköp. Það samkomulag héldum við. Sumarið var hins vegar ekki nýtt sem skyldi þar sem ýmis frumvörp, sem okkur er ætlað að samþykkja helst óbreytt, þótt við séum að sjálfsögðu ekki reiðubúin til þess nema efnisatriði málsins gefi tilefni til, voru alls ekki tilbúin og er við mættum til starfa í júnílok í allshn. var ekki einu sinni byrjuð að semja þau. Það er auðvitað dálítið langt gengið en ég veit að reynsla okkar í allshn. er ekki einsdæmi.
    Ég er auðvitað ekki sátt við þetta. Við sem höfum lýst efasemdum um það að við eigum erindi í EES viljum þrátt fyrir það ástunda vönduð vinnubrögð. Með þessum aðferðum er það harla erfitt. Ég bind vonir við það að í umfjöllun um misvel undirbúin mál í nefndum getum við engu að síður tekið upp málefnalega umræðu og þar sem ástæða er til sniðið af augljósa hnökra. Ég held að í öðrum tilvikum verðum við að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að stöðva þau frv. sem ekki eiga erindi áfram.
    Ég minni á að ýmsir hv. þm. hafa verið að gera athugasemd við slík vinnubrögð og ég minnist þess ekki síður að stjórnarandstæðingar fyrri ríkisstjórna gerðu oft og tíðum harða hríð að stjórninni er frumvörpum var skellt fram án þess að þau væru fullbúin og ég tek undir slíkar athugasemdir. Núverandi stjórnvöld bera að sjálfsögðu ekki minni ábyrgð en önnur stjórnvöld.
    Þá vil ég víkja að því frv. sem hér er til umræðu. Þótt í frv. sé fyrst og fremst talað um ráðgefandi álit getur engu að síður falist í því að dómar sem kveðnir eru upp á Íslandi og eru á málasviði EES séu ekki endanleg og raunveruleg úrslit slíkra mála. Það er ekki vegna þess að dómari sé bundinn af því

að fara eftir slíku ráðgefandi áliti heldur vegna þess að þótt ekki sé hægt að hnekkja dómunum með þessum ákvæðum getur sá málsaðili sem unir úrskurði dómara illa, ef hann telur málið mikilvægt, beitt þrýstingi á aðra þjóð innan EES og fengið hana til þess að klaga eða kæra á pólitískum vettvangi EES. Það gæti orðið til þess að íslensk stjórnvöld væru beitt þrýstingi þar sem þau hefðu ekki aðra möguleika en að grípa til almenns uppsagnarákvæðis. Ég sé ekki annað en þarna sé um að ræða óeðlilegan þrýsting á dómara. Það hefur verið sagt að þetta gerði kannski ekkert til því slíkur þrýstingur væri þegar fyrir hendi innan Evrópsks efnahagssvæðis. Sé það rétt er það auðvitað nógu alvarlegt að þessi almenni þrýstingur sé slíkur innan Evrópsks efnahagssvæðis að hann jafngildi því sem ég er hér að tala um.
    Það er líka talað um að samkvæmt öðrum alþjóðasamningum sé slíkur þrýstingur enn fremur fyrir hendi. Ég geri ekki ráð fyrir því að það sé hægt að leggja það að jöfnu þar sem EES-samningurinn er langsamlega viðamesti milliríkjasamningur sem við höfum átt aðild að að semja.
    Ég hef einnig heyrt þau rök að það kunni að vera réttaröryggi fyrir Íslendinga sem fái þá betri lög eða réttlátari málsmeðferð en ég sé ekki að það yrði endilega raunin. Ég tel það hæpið, sem gert hefur verið, að jafna þessu t.d. saman við þrýstinginn sem mál Jóns Kristjánssonar og Þorgeirs Þorgeirssonar hafa fengið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og þeim þrýstingi sem þar hefur verið settur á íslensk stjórnvöld. Það má ekki gleyma því að þeirra mál varða mannréttindi en svið EES-samningsins fjallar fyrst og fremst um frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Engu að síður er samlíkingin allrar athygli verð því ef verið er að jafna saman þessum þrýstingi og því að þrýstingur sé á stjórnvöld vegna mannréttindamála og að þrýstingur, sem gæti verið á dómurum vegna úrskurða sem boðið er upp á að EFTA-dómstóllinn gefi íslenskum dómurum til skýringar ef þeir óska eftir því, þá er auðvitað verið að tala um býsna alvarlegt mál sem er full ástæða til að líta á.
    Samkvæmt orðanna hljóðan í frv. er það í valdi dómara hvort leitað er álits. Hann getur gert það að eigin frumkvæði eða kröfu annars hvors málsaðila. Verði hann ekki við slíkri kröfu er mögulegt fyrir þann sem ekki unir því, ef það er á lægra dómsstigi hér, að kæra til Hæstaréttar samkvæmt niðurlagsorðum 1. gr. frv. Síðan er það spurningin hvað gerist í framhaldi af þessu.
    Ég vil varpa þessu hér inn í umræðuna til þess að það sé athugað í fullri alvöru. Við höfum þegar verið með nokkra umfjöllun innan allshn. um þessi mál. Ég hef frekar fengið það staðfest en hitt að þessi kannski nokkuð óbeini þrýstingur sé fyrir hendi. Ég vil þar sérstaklega vitna í að á okkar fund hafa komið fulltrúar bæði frá utanrrn. og frá dómsmrn. og það er ekki hægt að segja annað en að þessi staðfesting liggi fyrir. Vissulega er erfitt að eiga við mál þegar svona óljós þrýstingur er fyrir hendi en hann er ekki betri fyrir það.
    Ég sé í rauninni ekki að það sé annað í frv. sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Þetta tengist því auðvitað afskaplega mikið hvort við erum að framselja ákvarðanatöku á Íslandi til Evrópubandalagsins, innan EES í rauninni, vegna þess að það er ævinlega viðbára þeirra sem um þetta fjalla að með því að gerast aðilar að EES séum við þegar búnir að undirgangast slíkar skuldbindingar og þessi smáviðbótarþrýstingur skipti ekki svo voðalega miklu máli. Þetta kallar á allt aðra og viðameiri umræðu og hún á frekar heima undir umræðu um samninginn sjálfan. Ég tel hins vegar rétt að tengja þetta hér og nú. Að þessu fengnu tel ég mig vera búna að koma því á framfæri sem ástæða er til við 1. umr.