Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:32:30 (992)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir þau orð sem hann lét falla hér. Ég tel að þetta þing, sem notið hefur leiðsagnar hans lengi í utanríkismálum og á mörgum sviðum erlendra samskipta, hljóti að taka mjög mikið mark á þeim orðum sem hér hafa komið fram. Ég efa það ekki að

hæstv. dómsmrh. hefði nokkuð viljað fyrir það gefa að hann hefði þurft að fást við stjórnarandstæðinga eina í athugasemdum sínum. Hins vegar virðist svo sem hæstv. ráðherra líti svo á að það skipti engu máli hvort menn taka sínar ákvarðanir undir meiri og minni þvingun eða ekki. Það er nú alþekkt úr bíómyndum að sá sem ætlar að komast yfir fé í banka beinir byssunni að gjaldkeranum og segir: Peningana eða lífið. Og gjaldkerinn afhendir peningana, þeir eru ekki teknir ófrjálsri hendi í peningakassanum, heldur tekur hann við þeim sín megin á borðinu, að vísu eftir að hann beitti þrýstingi.
    Ég held aftur á móti að dómstóll dæmi þennan mann, sem beitir þrýstingnum, nákvæmlega eins og hann hefði sjálfur seilst eftir peningunum og gjaldkerinn ekki aðhafst nokkurn skapaðan hlut. En þarna virtist hæstv. dómsmrh. setja mikinn mun á, þ.e. hvort dómstóllinn er látinn dæma undir þrýstingi eða hinu hvort hægt sé að segja að hinn erlendi aðili hafi kveðið upp dóminn. En að öðru jöfnu, stendur hér í textanum, má gera ráð fyrir því að það verði hinn erlendi aðili með sinni úrlausn sem ákveður dómsniðurstöðuna. Það stendur beinlínis í þessum texta. Það stendur hér, herra forseti, ef ég má lesa það upp: ,,Álitið á aðeins að vera ráðgefandi, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. frv., og bindur það því ekki héraðsdómara við úrlausn máls, þótt vissulega verði að telja að eftir því yrði að öðru jöfnu farið, að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.`` Þ.e. nákvæmlega eins og það bindur náttúrlega ekkert gjaldkerann að hlýða þó sagt sé ,,peningana eða lífið``. Hann getur náttúrlega þrjóskast við, það er einfalt mál. Hann hefur frjálsan vilja og frjálsa hugsun og hann getur tekið þær ákvarðanir sem honum dettur í hug. En það þýðir ekkert að halda því fram að hér sé ekki verið að leggja til að íslenskir dómstólar starfi undir gífurlegum þrýstingi erlendis frá og menn eru komnir inn á það grátt svæði varðandi stjórnarskrána að það er furðulegt ef menn leyfa sér að halda að þeir séu á fríum velli í þessum efnum. Hitt er svo umhugsunarefni það orðalag sem kemur líka í 1. gr. og ég vil lesa, með leyfi forseta:
    ,,Hvort sem aðili máls krefst að álits verði leitað skv. 1. mgr. eða dómari telur þess þörf án kröfu . . .  ``
    Hvað þýðir orðið að krefjast? Menn krefjast þess þegar þeir eiga rétt á einhverju. Menn leita álits þegar þeir eiga það undir þeim aðila sem þeir sækja að hvort hann verður við því með góðu að fara þessa leið. Það liggur þess vegna í orðanna hljóðan að hér er verið að veita sóknaraðilunum rétt til að krefjast. Það er verið að veita þeim rétt til að krefjast þess að leitað sé þessa álits og það er náttúrlega undir rós talað um þrýstinginn. Ég veit ekki hvað þeir dómarar yrðu lengi hafðir við störf sem ekki mundu fara eftir þessu meira og minna. Ætli yrði þá ekki að leita lagaúrræða til að losna við þá úr stólnum samkvæmt þrýstingi erlendis frá? Ég er hræddur um það.
    Ég verð því að segja það að mér þótti mjög vænt um að heyra það sem hv. 4. þm. Reykv. lagði hér til mála. Það voru orð töluð af rólegri yfirvegun en með fullri festu og meiningu um þessa hluti. Ég vænti þess að hæstv. dómsmrh. geri sér grein fyrir því að þetta frv. er þess eðlis að menn hljóta að leggja í það mikla vinnu að átta sig á því ofan í kjölinn hvaða hugmyndir það eru sem liggja á bak við óljósar setningar eins og t.d. það ,,að framkvæmdaratriði varðandi t.d. sendingu máls til EFTA-dómstólsins komi til með að ráðast af reglum hans``.
    Ég segi eins og er, ég hefði mikið viljað gefa fyrir að svona frv. hefði aldrei verið flutt á Alþingi Íslendinga. Það leiðir hugann að sjálfstæðisbaráttu þessarar þjóðar eða eins og Kamban orðaði það:
            Gleym þú aldrei: Mín sár,
            borin sjö hundruð ár,
            hjó mér sundrungin ykkar, mín börn.
    Það væri kannski hollt fyrir suma hér í salnum að rifja upp ferskeytluna sem Þingeyingurinn orti þegar hann frétti lát Kambans.