Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:42:49 (995)

     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins örstutt í tilefni af þeim orðum sem hér hafa fallið, þó það sé auðvitað að sjálfsögðu rétt og skylt í þeirri nefnd, allshn., sem við eigum sæti í, að skoða þetta mál vandlega þá langar mig til þess að taka það fram að það er fjöldi óskráðra reglna í lögfræði, svonefndar réttarheimildir, sem eru alþekktar og viðurkenndar fyrir íslenskum dómstólum, þar með talin fordæmi, lögjöfnun, eðli máls og meginreglur laga. Þar að auki er það viðurkennd regla í þjóðarétti að dómstólar dæma eftir þeim reglum með skýringum jafnvel þótt samningurinn hafi ekki verið lögfestur. Þar að auki eru erlend áhrif alls staðar viðurkennd í íslenskri lögfræði og eru norrænir dómar og lög mjög mikilvægur þáttur í íslensku laganámi og margar kennslubækur erlendar. Íslenskir dómstólar taka að sjálfsögðu tillit til alls þessa. Þar sem þetta er einungis ráðgefandi álit og heimild en ekki skylda þá felst ekki í þessu frv. regla sem varðar íslensku stjórnarskrána.