Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:49:03 (1000)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt á umræðuna með athygli og ætla ekki að lengja hana neitt að ráði. En útskýringar eða uppfræðsla hv. formanns allshn., sem ég trúi að sé 6. þm. Reykv., vöktu athygli mína. Ugglaust er farið rétt með allt sem þar kom fram, að dómstólar líti gjarnan til fleiri hluta en lagafyrirmælanna einna þegar þeir kveða upp dóma enda er það yfirleitt þannig að þau ein og sér eru ekki ráðandi eða afmarkandi um það við hvað sé að styðjast í viðkomandi tilviki. Við þekkjum skyldleika laga okkar við nágrannalöndin. Það er þekkt að þá er oft farið til föðurhúsanna, ef svo má að orði komast, og sóttar þangað frekari skýringar um hvað fyrir mönnum hafi vakað. Sömuleiðis fordæmi og réttarþróun annars staðar o.s.frv. Ég tel hins vegar að þessi ágæta uppfræðsla, svo réttmæt sem hún mun hafa verið, breyti því ekki að það er eðlilegt að menn spyrji sig grundvallarspurninga í tengslum við þetta mál. Því verður ekki mótmælt að hér er algjört nýmæli á ferð að því er ég best veit. Nýmæli að setja það inn í íslensk lög að tryggja mönnum gagnkvæm réttindi sem og dómstólunum sjálfum vald til þess að leita á erlenda grund eftir lögskýringum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að frv. og þessi þáttur samninganna um Evrópska efnahagssvæðið, sem rétt er að tala um í fleirtölu af því að hér er t.d. á ferðinni samningurinn á milli EFTA-ríkjanna sjálfra um framkvæmdina frá þeirra hlið, ef ég hef skilið rétt, sé ekki það alvarlegasta í sambandi við ákvæði stjórnarskrárinnar af þeirri einföldu ástæðu að hér er um leiðbeinandi hlutverk hins erlenda dómstóls að ræða en ekki endanlegar eða bindandi ákvarðanir eins og eru í tilviki eftirlitsstofnunarinnar og EFTA-dómstólsins í öðrum tilvikum.
    Það er fullkomlega eðlilegt að menn staldri við slík nýmæli og spyrji sig grundvallarspurninga. Ég vil a.m.k. láta það sjónarmið mitt koma fram vegna þess að hér var hv. formaður allshn. að tala að ég tel að það eigi að sjálfsögðu að líta á frv. eins og þau frv. önnur og/eða þau ákvæði samningsins sem sérstaklega varða fullveldissviðið í samhengi. Að mínu mati er alls ekki óeðlilegt að menn vitni í 2. og 61. gr. stjórnarskrárinnar og spyrji sig að því hvort menn séu e.t.v. komnir út á grátt svæði og hvort miðað sé við orðanna hljóðan í þessum greinum stjórnarskrárinnar og alveg öruggt að menn séu ekki að lenda þar í árekstrum.
    Ég tel líka að færð hafi verið nokkur rök fyrir því að ákvæði af þessu tagi geti verið marklaus vegna þess að ekki séu forsendur til að nýta þau þó svo að þau sem slík brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Þannig geti það út af fyrir sig staðist að setja þau en þá vanti eftir sem áður forsendurnar til að nýta þau. Í tengslum við þessa samningagerð er víða auðvelt að færa fyrir því rök að hægt er að setja ýmis ákvæði í lög á Íslandi. En þau yrðu samt sem áður marklaus vegna meginreglna samningsins eða annarra aðstæðna sem gerðu það að verkum. Og spyrja má að því hvort slíkt gæti ekki verið á ferðinni í þessu tilviki. Sterk rök hafa verið færð fyrir því að allur pakkinn eins og hann leggur sig geti í reynd verið markleysa af þeirri einföldu ástæðu að íslenska stjórnarskráin heimilar ekki fullveldisafsal. Þá breytir undirskrift utanrrh., samþykki Alþingis eða staðfesting forseta Íslands engu, verknaðurinn er allur jafnmarklaus eftir sem áður ef heimildina í stjórnarskrá vantar sem hefði þurft að vera fyrir hendi við þær aðstæður. Þess vegna er spurning hvaða tilgangi það þjónar fyrr en það er ljóst og alveg óyggjandi að slíkt ákvæði sé hægt að nota og setja það í lög. Hér er um heimildarákvæði að ræða sem væntanlega mundi ekki flokkast undir miklar vanefndir á samningnum sem slíkum þó það væri ekki nýtt.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í frekari smáatriði í sambandi við þetta mál. Vegna þess hvernig mér fannst umræðan þróast, sérstaklega undir lokin, vildi ég láta það sjónarmið mitt koma fram að ég tel fullkomlega eðlilegt að menn spyrðu þessarar grundvallarspurningar í tengslum við þetta mál. Það er á sama sviði og önnur álitamál í tengslum við samninginn sem lúta að framsali valds eða hlutverki erlendra stofnana sem tekið verður upp í íslensk lagaákvæði. Hér er um ákveðið hlutverk að ræða sem setja á inn í lög og binda lögformlega, þ.e. að þeir sem reka mál sitt fyrir dómstólum og dómstólarnir sjálfir geti leitað eftir þjónustu frá erlendum stofnunum.
    Mér fannst ekki mikið um þau svör sem komu fram við spurningum sem bornar voru fram önnur en þau að fullyrða að allar slíkar vangaveltur væru út í hött. Það er ágætt svar í sjálfu sér en gerir menn ekki miklu fróðari jafnvel þótt mætur maður eins og hæstv. dómsmrh. eigi í hlut sem komi með svo merkilegt svar eins og fram kom í umræðunni áðan, hæstv. forseti.