Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 21:57:33 (1002)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er kannski spurning um orðalag og hvort ég hafi orðað það nákvæmlega rétt sem ég var að segja um það nýmæli sem óumdeilanlega er á ferðinni þar sem er útskýringarhlutverk erlendrar stofnunar. Sjálfsagt er það rétt hjá hæstv. dómsmrh. að orða megi það svo að úrskurðir Mannréttindadómstólsins geti haft lögskýringarhlutverk. Staðreyndin er hins vegar sú að samskipti eða þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist vegna Mannréttindadómstólsins annars vegar og réttaráhrif úrskurða hans hér hins vegar eru ekki sambærileg, a.m.k. ekki að mínu mati. Nú er ég ekki löglærður og kannski ekki almennilega dómbær á þetta nema kynna mér það sérstaklega. En það vill þó svo til að ég veit að úrskurðir Mannréttindadómstólsins hafa engin sjálfkrafa réttaráhrif hér fyrr en við höfum sjálfir fallist á að breyta okkar lögum eða tryggja fullnustu þeirra að innlendum rétti. Við höfum hins vegar skuldbindingar

gagnvart þeim dómstól vegna aðildar okkar að þeim réttindum sem meiningin er að tryggja með Mannréttindasáttmála og -dómstóli.
    Þetta er ekki aðalatriði málsins að mínu mati eins og kom fram í ræðu minni. Það er óumdeilt og undir það tók hæstv. dómsmrh. að algert nýmæli er hér á ferðinni í samskiptum íslenskra dómstóla við erlenda, því verður ekkert á móti mælt, þó að við eigum aðild að norrænum, evrópskum og alþjóðlegum samningum sem segja megi að geti haft sambærileg áhrif á afmörkuðum sviðum hér innan lands ef við kjósum að nýta okkur það.