Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 22:01:54 (1006)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er erfitt að koma hv. þm. til skilnings í þessu efni. Að vísu er kórrétt hjá honum að niðurstöður Mannréttindadómstólsins eru ekki lög hér á landi en þau geta komið til skýringa. Nákvæmlega það sama á við um þau forálit sem frv. fjallar um. Þau hafa í engu tilviki neins konar bindandi áhrif á niðurstöður dóma. Það er sjálfstæð ákvörðun íslensks dómara að ákveða hvort þessa álits verður leitað og það er sjálfstætt mat hans hvort það hefur einhver áhrif á túlkun þeirra lagareglna sem deilur standa um. En álitið hefur engin áhrif á íslensk lög eða íslenska dómaframkvæmd.