Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 22:04:16 (1008)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Upphaflega hafði ég ekki ætlað mér að nýta mér rétt minn til að taka til máls öðru sinni. En þar sem mér finnst að við séum komin dálítið langt frá þeim athugasemdum sem ég kom upphaflega með en samt að mörgu leyti í sama farvegi, þá held ég að rétt sé að ítreka að auðvitað er það raunverulegur þrýstingur á starf dómara og dómstóla ef vitað er, og það held ég að dyljist ekki nokkrum dómara sem mundi leita álits EFTA-dómstólsins, að til er lögformleg leið til þess að hafa áhrif ef dómari kýs ekki að fara eftir úrskurði EFTA-dómstólsins og hann hefur fullan rétt til þess eins og margsinnis hefur komið fram hér. Sú leið er einfaldlega að eitthvert ríki telji það svo áríðandi að íslenskir dómar séu í samræmi við úrskurð EFTA-dómstólsins að það taki ekki málið upp í pólitísku nefndinni. Svo verði

settur þrýstingur á Íslendinga sem er það mikill að Íslendingar telji sig knúna til þess að sæta því, íslensk stjórnvöld og þá á ég við pólitísk stjórnvöld, og að lögum verði breytt. Það er síður en svo fráleitt að þessi staða geti komið upp. Þetta er alveg raunverulegt og þá er spurningin: Mun það vega það þungt að Íslendingar fari að beita neyðarákvæðum til þess að sporna við síkri þróun? Er ekki líklegra að tekið verði tillit til þessa? Til að það sé alveg skýrt vil ég taka fram að það var um þetta sem ég var að tala og ekki annað. Það er ákveðin leið og við verðum að velta fyrir okkur öllum möguleikum. Mér finnst þessi möguleiki síður en svo fráleitur þótt ég viðurkenni það fullkomlega að samkvæmt orðanna hljóðan í frv. er ekki verið að binda dómara á nokkurn klafa.