Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 22:07:13 (1009)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta frv. varðar breytingar á tíu lögum. Lögum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, almennum hegningarlögum, lögum um málflytjendur, um prentrétt, um eftirlit með útlendingum, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, um fasteigna- og skipasölu, umferðalögum, lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og lögum um meðferð einkamála.
    Af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið leiðir að laga þarf löggjöf á ýmsum sviðum að þeim reglum sem í sjálfum samningnum felast eða fólgnar eru í gerðum, reglugerðum eða tilskipunum Evrópubandalagsins sem fylgja samningnum. Enn fremur er þörf lagabreytinga vegna samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Lagabreytingum þeim sem hér um ræðir og varðar dóms- og kirkjumrn. má í meginatriðum skipta í fjóra flokka.
    1. Í III. hluta samnings um evrópska efnahagssvæðið er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að þegnar annarra ríkja, sem njóta réttinda samkvæmt samningnum, verði jafnsettir innlendum þegnum á hverjum stað, m.a. varðandi atvinnuréttindi og heimildir til fjárfestingar auk þess að njóta vissra réttinda til ferða og dvalar í samningsríkjunum. Að þessu leyti er einkum um tvo þætti að ræða. Annars vegar er í ýmsum lögum áskilnaður um íslenskt ríkisfang til að geta notið tiltekinna réttinda, einkum starfsréttinda. Þessi ákvæði þarf að aðlaga samningsákvæðum en hafa ber í huga að eftir sem áður má áskilja íslenskt ríkisfang sem skilyrði embættisgengis til opinberra starfa, sbr. 28. gr. samningsins og tekur það m.a. til dómara og sýslumanna.
    Með lögum nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum er varða aðila í atvinnurekstri o.fl., var ýmsum lögum á þessum vettvangi breytt á þann veg að erlendir ríkisborgarar, sem hafa átt lögheimili hér á landi í minnst eitt ár, urðu jafnsettir íslenskum ríkisborgurum. Til samræmis við samning um Evrópska efnahagssvæðið verður á hinn bóginn að rýmka ýmsar þessar heimildir. Rétt er að taka fram að í ýmsum ákvæðum frumvarpsins er ráðgert að skilyrði um lögheimili komi í stað eldri skilyrða án þess að sú rýmkun sé bundin við þá útlendinga sem njóta munu réttinda samkvæmt EES-samningnum. Hins vegar er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum vegna EES-samnings varðandi heimildir þeirra sem EES-reglur munu ná til að koma til landsins og dveljast hér og meðferð mála sem að þessu lúta fyrir stjórnvöldum.
    2. Gera þarf breytingar á nokkrum lögum á sviði ráðuneytisins með hliðsjón af 30 gr. EES-samningsins og til samræmis við tilskipun 89/48/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Vegna þessarar tilskipunar ber að viðurkenna slíka menntun sem hefur verið fengin í öðru aðildarríki samningsins þar sem sérfræðimenntun er á annað borð áskilin til að iðka lögverndaða starfsgrein, eftir atvikum með skilyrði um aðlögunartíma eða hæfnispróf. Á sviði dómsmrn. reynir einkum á þetta í löggjöf þar sem skilyrði eru sett fyrir réttindum eða starfsgengi um embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Við breytingar á lagaákvæðum til samræmis við áðurnefnda EB-tilskipun verður að taka tillit til þess að ekki eru fyrir hendi almennar reglur um viðurkenningu erlendrar lögfræðimenntunar, gagnstætt því sem á við um ýmsa aðra háskólamenntun. Hefur sú leið því verið farin að leggja hér til breytingar á hverri löggjöf fyrir sig þar sem innlent embættispróf er áskilið og þá ráðgert að erlent lagapróf geti komið í staðinn eftir atvikum með áskilnaði um næga þekkingu á íslenskum lögum sem verður staðreynd með misjöfnum hætti á einstaka sviðum. Rétt er að taka fram að samkvæmt frumvarpinu eru breytingar í þessum

efnum ekki bundnar við viðurkenningu á lögfræðimenntun sem hefur verið fengin í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    3. Ákvæði frumvarpsins miða að auki að nokkru marki að breytingum á löggjöf á sviði dómsmrn. sem varðar leyfisbundna þjónustustarfsemi málflutningsmanna, fasteigna- og skipasala og niðurjöfnunarmanna sjótjóns. Auk breytinga sem leiða beinlínis af áðurnefndri EB-tilskipun um viðurkenningu á prófskírteinum gætir hér áhrifa af tilskipun 67/43/EBE sem varðandi annars vegar réttindi til að veita þjónustu við fasteignasölu og hins vegar lögmenn.
    4. Breytingar er leiða af samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls þar sem m.a. er kveðið á um tilvist og störf EFTA-dómstólsins. Af ákvæðum þess samnings og bókunum með honum leiðir að breyta þarf lagaákvæðum að tvennu leyti. Annars vegar er ráðgert í 34. gr. samningsins að innlendir dómstólar geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á EES-samningi þegar á hana reynir við úrlausn dómstóla. Verður slíks álits þá aflað undir rekstri máls sem frestast þar til álitið er fengið. Um það hvernig staðið verður að öflun slíks álits eru ákvæði sem felld eru inn í sérstakt frv. sem þegar hefur verið mælt fyrir. Hins vegar er í bókun 5 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að finna stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins, en í 25. og 26. gr. bókunarinnar koma fram reglur um gagnaöflun fyrir dómstólnum. Varða þær annars vegar það að gera refsiverða hér á landi þá háttsemi að gefa rangan eiðfestan framburð fyrir EFTA-dómstólnum með sama hætti og fyrir innlendum dómstóli og hins vegar hvernig staðið verði að gagnaöflun fyrir innlendum dómstóli í tengslum við meðferð máls fyrir EFTA-dómstólnum. Eru ákvæði vegna þessara atriða í frv. því sem áður hefur verið rætt hér.
    Ég tel rétt til viðbótar því sem hér er komið fram að víkja sérstaklega að nokkrum atriðum er varða þær breytingar á eftirlit með útlendingum og lögum um eignarétt og afnotarétt fasteigna sem felast í frv.
    EES-samningurinn felur í sér að reglur sem nú gilda innan Evrópubandalagsins um frjálsa fólksflutninga skuli gilda innan EES. Koma þessi ákvæði fram í I.--III. kafla III. hluta samningsins og viðaukum V--VIII. Samkvæmt samningnum öðlast ríksborgarar aðilarríkjanna rétt til að koma til annars samningsríkis til að leita sér að vinnu og ráða sig í vinnu samkvæmt nánari reglum þar um og þá til dvalar hvort heldur er til að starfa sjálfstætt eða sem launþegi, til að veita þjónustu eða njóta þjónustu, auk þess sem sérstakar reglur gilda um þá sem ekki stunda atvinnu, þar á meðal námsmenn og eftirlaunaþega. Fjölskylda EES-útlendings öðlast einnig rétt til komu og dvalar án tillits til ríkisfangs. Reglur þessar samrýmast ekki gildandi lögum um eftirlit með útlendingum. Sú leið hefur verið valin að leggja til að sérstakar reglur um EES-útlendinga verði settar í reglugerð, sbr. 12. gr. frv. Komi þar fram þau réttindi sem felast í þeim reglum EB sem yfirteknar verða. Réttur EES-borgara felur líka í sér takmarkanir á rétti ríkja til að bera fyrir sig sjónarmið er varða allsherjareglur, almannaöryggi og almannaheilbrigði, hvort heldur er við komu til lands, við útgáfu dvalarleyfis eða endurnýjun eða að því er varðar brottvísun og er þá gert ráð fyrir því í frv. að ákvæðum laganna verði því aðeins beitt gagnvart EES-útlendingum að það samrýmist EES-reglum. Um þessi réttindi öll verður að vísa nánar til athugasemda við 10.--19. gr. frv.
    Þær reglur sem gilda munu um EES-útlendinga gera ráð fyrir því að unnt verði að kæra ákvarðanir um komu útlendings, synjun um útgáfu eða endurnýjun dvalarleyfis eða ákvörðun um brottvísun úr landi. Af því leiðir að breyta þarf ákvæðum laganna um eftirlit með útlendingum og gera ráð fyrir slíkum kærurétti. Með ákvæðum frv. er lagt til að ákvarðanir er varða leyfi til landgöngu og dvalar og um brottvísun, sem nú eru í höndum dómsrmn., verði færðar til útlendingaeftirlitsins. Jafnframt er gert ráð fyrir kærurétti til ráðuneytisins, sbr. 16. gr. frv. Er þessum ákvæðum ætlað að gilda jafnt um EES-útlendinga og aðra útlendinga. Verður að telja að með því sé útlendingum veitt veruleg réttarbót miðað við það sem gilt hefur hingað til. Leiðir af III. hluta EES-samningsins og viðaukum við hann að veita skal ríkisborgurum annarra aðildarríkja sama rétt til fasteignakaupa hér á landi og íslenskum ríkisborgurum að því leyti sem nauðsynlegt er til að nýta þau réttindi sem samningurinn veitir til frjálsra fólksflutninga, staðfestu- og þjónustustarfsemi.
    Í VI. kafla frv. þess sem hér liggur fyrir er kveðið á um hin almennu skilyrði erlendra aðila til eignarhalds á fasteignum sem fjallað er um í lögum um eignarrétt og afnotarétt á fasteignum. Þau lög sem eru frá árinu 1966 byggðu að meginstefnu til á ríkisfangi sem skilyrði eignarhalds. Með breytingu á þeim lögum á árinu 1991 í tengslum við setningu almennra laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, fjárfestingarlaganna, var slakað á þessum skilyrðum. Er lögheimili erlends ríkisborgara hér á landi í samfellt fimm ár lagt að jöfnu við íslenskt ríkisfang. Auk þessa var ákveðið að sá sem rétt hefur til að stunda atvinnurekstur hér á landi þurfi ekki leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til eigin nota og eða til notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Með fjárfestingarlögunum var svo rýmkaður möguleiki erlendra aðila til þátttöku í atvinnurekstri hér á landi. Lögin um eignarrétt og afnotarétt fasteigna fjalla eins og áður segir um hin almennu skilyrði til að öðlast réttindi yfir fasteign. Með lagabreytingum, sem lagðar eru til með frv. því sem hér er til meðferðar, er því einungis fjallað um þau skilyrði. Í sérlöggjöf er fjallað um sérstök skilyrði varðandi eignarrétt eða afnotarétt einstakra fasteignaréttinda. Um reglur samkvæmt

slíkri löggjöf eða hugsanlegar breytingar á þeim er ekki fjallað hér.
    Að því er varðar stöðu fasteignaréttinda almennt gagnvart EES-samningnum leyfi ég mér að vekja sérstaka athygli á því að ég og hæstv. landbrh. áttum hlut að því að tekin var saman álitsgerð um það hver áhrif EES-samningurinn hafi á löggjöf um eignarhald á fasteignum og fasteignaréttindum og heimildir erlendra aðila til að eignast fasteignir hér á landi. Er álitsgerð þessi samin af þeim Ólafi Walter Stefánssyni, skrifstofustjórna í dómsmrn., Stefáni Má Stefánssyni lagaprófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni. Ber álitsgerðin heitið Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi og á hún að vera í höndum hv. þingmanna. Þar er að finna ítarlega úttekt á þessu viðfangsefni almennt. En eins og ég hef getið um fjallar þetta frv. einungis um hin almennu skilyrði til eignarhalds að fasteignaréttindum. Að því er varðar þá sem á grundvelli EES-reglna öðlast rétt til fasteigna hér á landi er í frv. byggt á því að þeir þurfi ekki að afla sér sérstaks leyfis. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að um þær heimildir verði settar sérstakar reglur, þ.e. til hvaða fasteignaréttinda þessi réttur taki og um framkvæmd slíks réttar að öðru leyti. Er þannig við það miðað að settar verði sérstakar reglur um þetta efni og verði þar kveðið á um að sá sem hyggst neyta þessara réttinda skuli afhenda þinglýsingastjóra um leið og þinglýsingar er beiðst yfirlýsingu og eftir atvikum önnur gögn því til staðfestu að hann uppfylli skilyrði sem nánar yrðu skilgreind í reglunum.
    Að því er varðar aðrar breytingar á fasteignalögunum sem felast í frv. þá er þar um að ræða atriði til skýringar og einföldunar miðað við lagaákvæðin frá 1991 og er vísað til athugasemda með frv. um þau atriði.
    Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.